Fara í innihald

Flevoland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fáni Skjaldarmerki
Fáni
Fáni
Skjaldarmerki
Upplýsingar
Höfuðborg: Lelystad
Flatarmál: 2.412,30 km²
Mannfjöldi: 399.964
Þéttleiki byggðar: 282/km²
Vefsíða: [1]
Lega

Flevoland er næstminnsta hérað Hollands með 2.412,30 km2. Aðeins Utrecht er minna. Flevoland er einstakt að því leyti að nær allt héraðið er gert úr uppþurrkuðu landi úr IJsselmeer. Flevoland varð ekki fylki fyrr en 1986 og er íbúafjöldinn því að sama skapi lítill. Höfuðborgin er Lelystad, en stærsta borgin er Almere. Flevoland er gríðarlega mikilvægt landbúnaðarsvæði.

Lega og lýsing

[breyta | breyta frumkóða]
Loftmynd af Flevoland.

Flevoland er landfylling við IJsselmeer og skiptist í tvo hluta. Norðurhlutinn er landfastur og heitir Noordoostpolder. Hann var áður hluti af Overijssel og Fríslandi meðan uppþurrkunin átti sér stað. Suðurhlutinn er eyja (stærsta manngerða eyja heims) og er talsvert yngra land. Ijsselmeer og Markermeer liggja að vesturströndinni, en fyrir sunnan liggja stöðuvötnin Gooimeer og Eemmeer, fyrir austan er Veluwemeer og fyrir norðan er Ketelmeer. Mýmargar brýr tengja eyjuna við aðra hluta Hollands. Þar á meðal brúin Houtribdijk sem jafnframt er flóðagarður og skiptir Ijsselmeer og Markermeer í tvö stöðuvötn. Flevoland er langfámennasta hérað Hollands með aðeins 391 þúsund íbúa.

Fáni og skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Fáni Flevoland samanstendur af þremur láréttum röndum. Efst er blátt, sem merkir Ijsselmeeer og Markermeer, fyrir miðju er gult, sem merkir repjurækt, og neðst er grænt, sem merkir græna landið. Til vinstri í bláa hlutanum er hvítt liljublað sem táknar verkfræðinginn Cornelius Lely en hann var maðurinn á bak við flóðgarðana miklu sem lokuðu Ijsselmeer. Fáninn var tekinn í notkun 9. janúar 1986.

Skjaldarmerkið er tvískipt. Að ofan er efri hluti ljóns á bláum grunni, en að neðan er langur fisksporður á hvítum grunni. Ljónið heldur á hvítu liljublaði. Merkið var tekið upp 10. febrúar 1987.

Flevoland heitir eftir gamla rómverska nafninu á Zuiderzee, Lacus Flevo. Zuiderzee hét fjörðurinn áður en flóðavarnargarður lokaði Ijsselmeer og Markermeer af.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir mikið stormflóð 1916 var ákveðið að leggja sjávarvarnargarð fyrir mynni Zuiderzee og loka því af. Verkefni þessu lauk 1932. Úr því varð stöðuvatnið IJsselmeer. Því næst var hafist handa við að þurrka upp austurhluta vatnsins. Sá hluti heitir Noordoostpolder og var hluti af Overijssel og Fríslandi. 1957-1968 var syðsti hluti IJsselmeer þurrkaður upp og mynduð eyja. Skömmu síðar hófst landnám á eyjunni en meginhluti hennar er undirlagður hátækni landbúnaði. 1985 fór fram atkvæðagreiðsla íbúanna um að stofna nýtt hérað. Tillagan var samþykkt og var héraðið stofnað 1. janúar 1986. Flevoland er því langyngsta hérað Hollands og einstakt í heiminum að því leyti að það samanstendur nær eingöngu af uppþurrkuðu landi. Síðan 2011 eru uppi hugmyndir um að sameina héruðin Flevoland, Utrecht og Norður-Holland í eitt stórt hérað, sem fengi heitið Randstad.

Aðeins 6 bæir eða sveitarfélög eru í Flevoland:

Röð Sveitarfélag Íbúar (2014) Ath.
1 Almere 196 þúsund
2 Lelystad 76 þúsund Höfuðborg héraðsins
3 Noordoostpolder 46 þúsund
4 Dronten 40 þúsund
5 Zeewolde 22 þúsund
6 Urk 19 þúsund

Fyrirmynd greinarinnar var „Flevoland“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt 8. nóvember 2011.