Larbi Benbarek

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Larbi Benbarek, Ben Barek eða Ben M'barek (16. júní 191716. september 1992) var knattspyrnumaður frá Marokkó en með franskt ríkisfang sem varð fyrsta þeldökka stórstjarnan í evrópskri knattspyrnu. Hann lék við góðan orðstír í Frakklandi og Spáni áður en hann sneri aftur til heimalandsins, þar sem hann stýrði m.a. landsliðinu. Viðurnefni hans var Svarta perlan.

Ævi og ferill[breyta | breyta frumkóða]

Benbarek fæddist í Casablanca sem þá tilheyrði Frakklandi. Hann hóf kornungur að leika með meistaraflokki og varð þegar eftirlæti áhorfenda. Tvítugur hélt hann til Frakklands og gekk til liðs við Olympique de Marseille árið 1938. Þar vakti hann þegar athygli fyrir tæknilega færni sína, en heimsstyrjöldin varð til þess að hann þurfti að snúa aftur til Marokkó þar sem hann lék til 1945.

Frá 1945-48 var hann í herbúðum franska liðsins Stade Français þar sem hann vann hug og hjörtu fótboltaáhugamanna. Hann varð fyrsti en fráleitt síðasti þeldökki knattspyrnumaðurinn til að fá viðurnefnið Svarta perlan. Á þær mundir lék Albert Guðmundsson í Frakklandi og léku íþróttafréttamenn sér að því að bera þá tvo saman og var Albert stundum kallaður Hvíta perlan til að undirstrika þann samanburð.

Spænska stórliðið Atlético Madrid fékk Benbarek til liðs við sig árið 1948 og lék þar næstu fimm árin. Með hann innanborðs varð félagið tvívegis Spánarmeistari. Frá Spáni hélt Benbarek á ný til Marseille og því næst aftur til Marokkó uns hann lagði skóna á hilluna árið 1956, nærri fertugur að aldri.

Benbarek lék þrjá landsleiki fyrir Marokkó fyrir tvítugt og svo sautján leiki fyrir Frakkland, þann síðasta árið 1954, þá 37 ára að aldri. Síðar átti hann eftir að stýra landsliði fósturjarðar sinnar í tvígang.

Árið 1998, sex árum eftir dauða Benbarek, var honum veitt æðsta heiðursmerki sem FIFA veitir knattspyrnufólki.