Fara í innihald

La Colère du Marsupilami

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hefnd Gormsins (franska: La Colère du Marsupilami) er 55. Svals og Vals-bókin en sú fimmta eftir þá Fabien Wehlmann og teiknarann Yoann. Hún kom út á frummálinu árið 2016 og á íslensku síðar sama ár.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Sagan gerist í beinu framhaldi af Vikapilti á vígaslóð þar sem Svalur og Valur fengu í hendur ljósmynd af sér í fylgd með gormdýrinu. Hvorugur man eftir að hafa hitt slíka skepnu og allir samstarfsmenn þeirra verða flóttalegir þegar talið berst að henni.

Í heimsókn til Sveppaborgar rennur upp fyrir Sval að þeir hljóti að vera undir áhrifum dáleiðandi geisla Zorglúbbs. Böndin berast að Samma frænda og tekst félögunum að hafa upp á honum í afskekktu þorpi í norðanverðu Kanada. Sammi játar að hafa stolið Zor-tæki og látið félagana og Sveppagreifann gleyma öllu um gormdýrið og hjálpa sér að selja það auðkýfingi í Palombíu. Svalur og Valur skipa Samma þegar að halda með sér til að endurheimta dýrið.

Í ljós kemur að gormdýrið hafði fljótlega sloppið úr haldi og lifir nú villt í frumskóginum. Heimamenn vara við því að haldið sé inn í skóginn, þar búi háskalegir þjóðflokkar innfæddra, auk þess sem von sé á vatnavöxtum í fljótinu. Svalur vill ólmur halda áfram, en Valur er undarlegur í háttum og sér ævintýrinu allt til foráttu. Skýringin er sú að Valur er með hugann við hversdagsamstrið á skrifstofunni heima og hefur smyglað með fartölvu. Veldur þetta hörðum deilum milli vinanna, þar sem Svalur sakar vin sinn um að svíkja ævintýraandann.

Svalur og Valur verða viðskila við Samma frænda í skóginum. Þeir hitta gormdýrið sem bregst illa við og á erfitt með að fyrirgefa hinum gömlu vinum sínum að hafa selt sig í gíslingu. Í skóginum rekast þeir á hinar yfirgefnu höfuðstöðvar Zorglúbbs úr bókinni Með kveðju frá Z, en Sammi frændi var þar fyrri til og nældi sér í tæki sem framkalla Zor-geisla. Með geislatækið og deyfibyssu að vopni freistar Sammi þess að ræna gormdýrinu sem hann hyggst selja fyrir stórfé og á flóttanum epsar hann villidýr skógarins upp gegn Sval og Val. Gormdýrið kemur til bjargar og reynist hafa fyrirgefið sínum gömlu vinum allt. Þeir ákveða þó að skógurinn sé hin réttu heimkynni dýrsins og að rangt sé að rífa það úr umhverfi sínu.

Í lok sögunnar ráfar Sammi frændi einn um skóginn, fullur hefndarþorsta en undir vökulu auga vígalegra indíána. Annars staðar í skóginum berast skilaboð á yfirgefna fartölvu Vals. Þar er félögunum boðið í dýrðlegt ferðalag til Hollywood, en sögumaður varar þó við að sú skemmtiferð muni snúast upp í „martröð með nasistum“!

Fróðleiksmolar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Gormdýrið kom síðast við sögu í Gullgerðarmanninum, 20. bókinni í sagnaflokkum. André Franquin átti höfundarétt á skepnunni og fékkst ekki leyfi til að nota hana í sögunum um Sval og Val. Eftir að Dupuis-útgáfufélagið öðlaðist á ný réttinn á gormdýrinu opnaðist sá möguleiki á ný. Ekki er þó fyrirætlað að dýrið verði fastagestur í bókaflokknum.
  • Smástelpan Nína (franska: Ninon), vinkona Svals úr Dans les Griffes de la Vipère kemur við sögu í upphafi bókarinnar og leggur sitt að mörkum til að Svalur áttar sig á því að hann hafi verið dáleiddur.
  • Kaupsýslumaðurinn Hr. Seðlan reynir að ræða mikilvæga viðskiptasamninga við Val í gegnum tölvu meðan á ævintýrinu í frumskóginum stendur. Þeir fara út um þúfur, eins og svo ótal oft áður í sögunum um Viggó viðutan.

Íslensk útgáfa

[breyta | breyta frumkóða]

Bókin Hefnd Gormsins var gefin út af Froski útgáfu árið 2016 í íslenskri þýðingu Auðar S. Arndal. Hún er merkt sem 58. bókin, þótt hún teljst sú 55. í opinberu ritröðinni á frönsku. Skýringin á misræminu liggur í að Froskur telur með nokkrar bækur með eldri sögum en opinbera röðin hefur að geyma.