Dans les Griffes de la Vipère

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Í klóm kolkrabbans.

Í klóm kolkrabbans (franska: Dans les Griffes de la Vipère) er 53. bókin í bókaflokknum um Sval og Val og sú þriðja eftir höfundanna Yoann og Fabien Wehlmann. Hún var gefin út á bókarformi á frönsku árið 2013 eftir að hafa birst sama ár í teiknimyndablaðinu Sval. Árið 2019 kom hún út í íslenskri þýðingu.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Sagan gerist í framhaldi af La Face cachée du Z og hefst á að Teiknimyndablaðið Svalur er dregið fyrir dómstóla, sakað um að hafa skaðleg áhrif á ungviðið. Blaðið fær svimandi háa sekt og gjaldþrot blasir við. Þegar fokið virðist í flest skjól rekst Svalur á æskuhetju sína, einkaspæjarann Janus Goðskáld Góðhjarta (franska: Gil Coeur-Vaillant) sem hefur milligöngu um auglýsingasamning Svals við vellríkan bakhjarl.

Svalur og Valur undirrita samninginn í skyndi fyrir orð Janusar einkaspæjara án þess að lesa hann. Blaðinu er borgið og Svalur hefur fullar hendur fjár, sem hann ver þó nær öllu til góðgerðarmála. Svalur og Janus halda á fund hins dularfulla velgjörðarmanns á einkaeyju í Karíbahafinu, sem reynist rammgert virki fullt af tækniundrum.

Á eyjunni rennur upp fyrir Sval að hann hefur verið blekktur. Aðstoðarkona auðkýfingsins dularfulla reynist vera lögmaðurinn sem knésetti myndasögublaðið í dómsalnum. Forstjóri Viper Group-auðhringsins (sem lesendur þekkja sem manninn sem fjármagnaði Tunglævintýri Zorglúbbs í fyrri bók) er siðblindingi sem sankar að sér myndasöguhetjum æsku sinnar. Samningurinn sem Svalur undirritaði veitti stórfyrirtækinu í raun fullt eignarhald á lífi hans. Í ljós kemur að forstjórinn hefur margoft leikið þennan leik, en missir jafnóðum áhugann á nýju „leikföngunum“ sínum, sem neyðast til að lifa gleðisnauðri tilveru í allsnægtum á hitabeltiseyjunni.

Svalur kemst í kynni við blásnauða frumbyggja eyjarinnar sem hrakist hafa frá heimkynnum sínum vegna umsvifa Vipère. Þeir hjálpa honum að koma skilaboðum til Nínu (franska: Ninon), barnungrar vinkonu Svals frá Brussel, sem aftur kemur skilaboðum til Vals og Bitlu. Sval tekst með hjálp Bitlu að flýja undan útsendurum Viper og leitar skjóls í Sveppaborg.

Þegar Sval verður ljóst að forstjórinn illi ætlar að leggja líf allra vina sinna í rúst, gefst hann upp og býr sig undir að snúa aftur til eyjarinnar. Janus einkaspæjari fær hins vegar samviskubit og lekur út viðkvæmum upplýsingum um Viper-fyrirtækið, með þeim afleiðingum að hlutabréf þess hrynja. Svalur er frjáls maður og myndasögublaðinu borgið.

Í blálok sögunnar kemur hins vegar í ljós að til að fjármagna björgunarleiðangurinn hafði Bitla haft samband við gamlan fjandvin, Don Vito Cortizone, sem hringir til að innheimta greiðann…

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Persóna Janusar einkaspæjara á augljóslega að vera roskin útgáfa af Gil Jourdan, geysivinsælum einkaspæjara úr myndasögum frá sjötta áratugnum.
  • Fjölmargar aukapersónur úr Sveppaborg koma fyrir undir lok sögunnar.
  • Í mörgum Svals og Vals-bókanna er lítið gert úr þjóðerni söguhetjanna, til að koma til móts við franska lesendur ekki síður en belgíska. Sögusvið Í klóm kolkrabbans hins vegar rækilega staðsett í Belgíu. Sagan hefst á kunnum útimarkaði í Brussel, sem meðal annars var sögusvið í Tinna-bókinni um Leyndarmál Einhyrningsins.
  • Bókin hefur að geyma fleiri sterkar kvenpersónur en vant er í ævintýrum Svals og Vals.

Íslensk útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Bókin Í klóm kolkrabbans var gefin út af Froski útgáfu árið 2019 í íslenskri þýðingu Anítu K. Jónsson. Hún er merkt sem 56. bókin, þótt hún teljst sú 53. í opinberu ritröðinni á frönsku. Skýringin á misræminu liggur í að Froskur telur með nokkrar bækur með eldri sögum en opinbera röðin hefur að geyma.