L-listinn
L-listinn | |
---|---|
Einkennislitur | Fánalitirnir |
Vefsíða | l-listinn.blog.is |
L-listi fullveldissinna var listi sem hugðist bjóða fram til Alþingis í kosningunum 2009. Fyrir framboðinu fóru Bjarni Harðarson, bóksali á Selfossi og fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins, og Þórhallur Heimisson prestur. Ekki var um að ræða stjórnmálaflokk heldur bandalag frjálsra frambjóðenda.
Listinn dró framboð sitt til baka 3. apríl með vísan í þau ólýðræðislegu kosningalög sem gerði nýjum framboðum erfitt fyrir að komast á þing. L-listinn benti einnig á að sú kúvending sem búist var við að Vinstrihreyfingin - grænt framboð og Sjálfstæðisflokkurinn myndi gera í afstöðu sinni til ESB gekk ekki eftir, [1] en L-listinn hafði sjálfstæði í Evrópumálum sem eitt sitt stærsta baráttumál. Hreyfingin mun áfram starfa sem frjáls framboðs- og sjálfstæðishreyfing.
Samkvæmt vef framboðsins töldu frambjóðendur að „fullveldi landsins sé forsenda fyrir endurreisn efnahags og þess að hér geti þrifist lýðræði“ og að þeir hafni „alfarið öllum hugmyndum um ESB aðild“, þar með talið hugmyndum um aðildarviðræður,[2][3] en hugmyndir hafa verið áberandi hjá öðrum stjórnmálaöflum um að taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið og kjósa um niðurstöðuna,[4] eða kjósa um hvort eigi að fara í aðildarviðræður yfirhöfuð.[5]
Frambjóðendur segjast jafnframt vera „talsmenn hófsamra borgaralegra gilda og hafna öfgum hvort sem er frá hægri eða vinstri“.[6]
Eftir kosningarnar tóku nokkrir aðilar sem höfðu staðið að L-listanum sig saman og stofnuðu Samtök fullveldissinna sem hafa síðan þá mótað stefnuskrá og tekið þátt í stjórnmálastarfsemi af ýmsu tagi.[7] Samtökin voru til að mynda meðal virkra þáttakenda í skipulagningu og framkvæmd undirskriftasöfnunar gegn lögum nr. 13/2011 um ríkisábyrgð vegna svokallaðra Icesave-III samninga og börðust fyrir synjun laganna í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu á vordögum 2011.[8]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Fullveldissinnar draga framboð til baka vegna ólýðræðislegra aðstæðna“ (Skoðað 4. apríl 2009).
- ↑ Á vef framboðsins segir m.a.: „Þá teljum við að hagsmunum Íslands sé tvímælalaust betur borgið utan ESB en innan þess og mikilvægt að standa gegn öllum tilraunum til að koma á svokölluðum aðildarviðræðum.“ Sjá „Um L-listann“ (Skoðað 24. mars 2009).
- ↑ „L-listinn kynnir merki sitt“ á mbl.is (Skoðað 24. mars 2009).
- ↑ Til dæmis sagði Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, í desember 2008 að þessi leið kæmi til greina. Sjá „Aðildarviðræður koma til greina“ á mbl.is (Skoðað 24. mars 2009). Í frétt á mbl.is frá 8. mars 2009 segir m.a.: „Það sýnist þó a.m.k. ljóst að bæði andstæðingar aðildar og stuðningsmenn vilji leiða málið til lykta með viðræðum og síðan taki þjóðin afstöðu í þjoðaratkvæðagreiðslu[sic] þegar samningur liggur fyrir í endanlegri mynd.“ Sjá „Flestir vilja aðildarviðræður“ á mbl.is (Skoðað 24. mars 2009).
- ↑ Til dæmis sagði Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, í desember 2008 að það kæmi til greina að greiða atkvæði um hvort ætti að fara í aðildarviðræður. Sjá „Umsókn í þjóðaratkvæði?“ á mbl.is (Skoðað 24. mars 2009). Samkvæmt frétt mbl.is dagsett 9. október 2008 lagði Birkir Jón Jónsson þingmaður framsóknarflokks fram þingsályktanartillögu um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort fara ætti í aðildarviðræður. Sjá „Vill þjóðaratkvæði um ESB-umsókn“ (Skoðað 24. mars 2009).
- ↑ „Um L-listann“ (Skoðað 24. mars 2009).
- ↑ „Heimasíða Samtaka Fullveldissinna“. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. ágúst 2009. Sótt 14. janúar 2013.
- ↑ Samþykkt stjórnar samtaka fullveldissinna um Icesave III Geymt 27 febrúar 2012 í Wayback Machine 2. febrúar 2011 (Skoðað 14. janúar 2013)