Fara í innihald

Kristinn H. Gunnarsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kristinn H. Gunnarsson (KHG)

Fæðingardagur: 19. ágúst 1952 (1952-08-19) (72 ára)
Fæðingarstaður: Reykjavík
Þingsetutímabil
1991-1998 í Vestf. fyrir Alþb.
1998 í Vestf. fyrir Ufl.
1998-2003 í Vestf. fyrir Framsfl.
2003-2007 í Norðvest. fyrir Framsfl.
2007-2009 í Norðvest. fyrir Frjálsl.
= stjórnarsinni
Embætti
1998-1999 Formaður sjávarútvegsnefndar
2003-2004 Formaður iðnaðarnefndar
1999-2003 Þingflokksformaður (Framsfl.)
2007-2008 Þingflokksformaður (Frjálsl.)
Tenglar
Æviágrip á vef AlþingisVefsíða

Kristinn Halldór Gunnarsson (f. 19. ágúst 1952 í Reykjavík) var alþingismaður fyrir Vestfjarðakjördæmi og Norðvesturkjördæmi á árunum 1991-2009.

Kristinn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1972 og BS-gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands árið 1979. Hann hóf feril sinn í stjórnmálum hjá Alþýðubandalaginu en hann var bæjarfulltrúi fyrir flokkinn í bæjarstjórn Bolungarvíkur á árunum 1982-1998. 1991 náði hann kjöri á Alþingi í Vestfjarðakjördæmi. 1998 sagði hann skilið við Alþýðubandalagið, gekk í Framsóknarflokkinn og náði kjöri fyrir hann í kosningunum 1999. Síðan 2003 hefur Kristinn verið þingmaður Norðvesturkjördæmis. Samstarf Kristins og þingflokks Framsóknarflokksins var oft örðugt en hann lét gjarnan í ljós aðrar skoðanir á málum eins og fjölmiðlamálinu og Íraksmálinu en aðrir þingmenn flokksins. Í september 2004 ákvað þingflokkurinn að Kristinn myndi ekki sitja í neinum nefndum fyrir flokkinn vegna „trúnaðarbrests“ milli flokksins og hans.[1] Á þingflokksfundi í maí 2005 var það þó samþykkt að Kristinn tæki sæti í tveimur nefndum. Í prófkjöri Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 2007 bauð Kristinn sig fram í fyrsta sæti listans gegn Magnúsi Stefánssyni félagsmálaráðherra en beið lægri hlut og lenti raunar í þriðja sæti. Skömmu síðar gekk hann til liðs við Frjálslynda flokkinn og tók annað sætið á lista frjálslyndra í norðvestri á eftir formanninum Guðjóni Arnari Kristjánssyni. Í kosningunum 2007 náði hann svo kjöri fyrir þriðja stjórnmálaaflið á sínum þingmannsferli. Hann var ekki í kjöri í alþingiskosningunum 2009 eftir að hann sagði skilið við Frjálslynda flokkinn og reynt fyrir sér í prófkjöri Framsóknarflokksins þar sem hann lenti í 8. sæti af 9 frambjóðendum.

  1. „mbl.is - Trúnaður milli Kristins H. Gunnarssonar og þingflokks Framsóknar „brostinn". 28. september 2004. Sótt 21. maí 2007.