Konungsríkið Ayutthaya

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Rústir borgarinnar Ayutthaya

Konungsríkið Ayutthaya (taílenska: อยุธยา) var taílenskt konungsríki í Suðaustur-Asíu sem stóð frá 1351 til 1767. Ríkið var stofnað í borginni Ayutthaya af konunginum Uthong sem gerði theravada búddisma að ríkistrú. Brátt lagði Ayutthaya undir sig voldugar borgir á borð við Sukhothai og Phitsanulok og gerði árásir á Angkor. Ayutthaya varð þannig ráðandi borgríki á svæðinu og aðrar borgir og furstadæmi guldu þeim skatt. Ayutthaya gerði nokkrar tilraunir til að leggja víggirtu hafnarborgina Malakka undir sig en án árangurs. Frá miðri 16. öld hóf Taungúveldið í Búrma árásir á ríkið. Eftir miðja öldina tókst þeim að leggja Ayutthaya undir sig og gera konunga þess að undirkonungum. Ayutthaya lýsti aftur yfir sjálfstæði árið 1584 og tókst að hrinda endurteknum árásum frá Búrma næstu áratugi. Um miðja 17. öld náði ríkið hátindi sínum undir stjórn Narai mikla sem átti í miklum viðskiptum við Frakkland. Á 18. öld tók ríkinu að hnigna. Árið 1767 gerði Konbaungveldið í Búrma innrás og lögðu borgina Ayutthaya í rúst. Við tók konungsríki Taksins með höfuðborgina Thon Buri um nokkurra ára skeið þar til Rama 1. tók við eftir uppreisn gegn Taksin og flutti höfuðborgina þangað sem Bangkok stendur nú.

  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.