Kirkja heilags anda í Heidelberg
Kirkja heilags anda í Heidelberg er höfuðkirkja borgarinnar Heidelberg í Þýskalandi. Hún er graftarkirkja kjörfurstanna í Pfalz.
Saga kirkjunnar
[breyta | breyta frumkóða]Kirkjan var upphaflega ekki reist sem höfuðkirkja borgarinnar, heldur sem grafarkirkja kjörfurstanna. Höfuðkirkjan þá var Péturskirkjan þar í borg. Kirkja heilags anda var reist á 14. og 15. öld á stað þar sem áður stóð kirkja með sama heiti. Talið er að upprunalega kirkjan hafi eyðilagst í eldi eða í vatnavöxtum árinnar Neckar. Þegar kjörfurstinn Ruprecht III var kjörinn konungur þýska ríkisins árið 1400 tilgreindi hann kirkjuna, sem þá var enn í byggingu, sem grafarkirkju sína. Hann lést 10 árum síðar og var lagður til hvílu í kór kirkjunnar. Þar hafa síðan hinir ýmsu kjörfurstar verið lagðir. Kirkjan var alla tíð í nánum tengslum við háskólann í borginni. Mikið af fé háskólans fór til viðhalds kirkjunnar. Hún hýsti einnig háskólabókasafnið (Bibliotheca Palatina) og stúdentar sóttu messu þangað. Aðaldyr kirkjunnar var notuð sem nokkurs konar upplýsingabretti fyrir stúdenta þar sem hægt var að festa upp miða með tilkynningum og upplýsingum. Formlega var kirkjan ekki fullreist fyrr en turninn var tilbúinn, en hann var vígður 1515. 1622 hertók Tilly borgina í 30 ára stríðinu. Hann hlífði borginni fyrir skemmdum, en tók háskólabókasafnið úr kirkjunni og sendi það sem gjöf til páfans í Róm, sem þá var Gregoríus XV. 1693 réðust Frakkar á Heidelberg í erfðastríðinu í Pfalz. Þeir eyðilögðu grafir kjörfurstanna í kórnum og rændu dýrgripum. Loks lokuðu þeir fólk inni í kirkjuna og kveiktu í. Í brunanum féllu kirkjubjöllurnar niður, ásamt hluta af burðarvirkinu. Þegar hliðarhurð var opnuð reyndi fólk að streyma út og tróðust þá margir undir. Viðgerðir á kirkjunni fóru fram 1698-1700 og fékk hún þá núverandi þak. 1709 fékk turninn svo núverandi þak. Meðan á viðgerðum stóð var ákveðið að skipta kirkjunni milli mótmælenda og kaþólikka. Settur var skilveggur milli skipsins og kórsins. Skipið var fyrir mótmælenda, en kaþólikkar notuðu kórinn. Skilveggur þessi var í kirkjunni allt fram til 1936, er nasistar fjarlægðu hann og gerðu kirkjuna að lúterskri kirkju. Kirkjan slapp að mestu við skemmdir í heimstyrjöldinni síðari. En þegar nasistar sprengdu gömlu brúna yfir Neckar, brotnuðu allir gluggar í kirkjunni í höggbylgjunni. Allir gluggar eru því nýir.
Grafir
[breyta | breyta frumkóða]Ruprecht III var sá fyrsti sem lagður var til hvílu í kór kirkjunnar, 1410. Hann var þá bæði kjörfursti og konungur þýska ríkisins (sem Ruprecht I). Eftir það voru hinir ýmsu kjörfurstar lagðir þangað til hvílu, ásamt hinum ýmsu fjölskyldumeðlimum. Alls voru 54 grafir í kirkjunni. Stærsta og fegursta gröfin var fyrir kjörfurstann Ottheinrich. 1693 voru nánast allar grafir eyðilagðar af Frökkum, sem einnig rændu kirkjuna listmunum og verðmætum. Aðeins minningaplattinn fyrir kjörfurstann Ruprecht III (sem einnig var konungur þýska ríkisins) og eiginkonu hans slapp, enda úr málmi. Platti þessi er enn í kirkjunni í dag, en hefur verið færður til nokkrum sinnum.
Annað markvert
[breyta | breyta frumkóða]- Engir listmunir frá miðöldum eru í kirkjunni í dag, þar sem allir slíkir eyðilögðust í brunanum 1693.
- Kirkjan hefur samtals átt 13 orgel. Nokkrir þekktir einstaklingar hafa leikið á orgel í kirkjunni. Má þar nefna Mozart 1763, Felix Mendelssohn Bartholdy 1837 og Albert Schweitzer nokkrum sinnum frá 1929-49.
- Kirkjan er gjarnan notuð fyrir tónleika í dag, sérstaklega orgel- og kórtónleika.
- 1972 var kirkjan notuð fyrir rokktónleika hljómsveitarinnar Quintessence frá Englandi. Þeir nutu mikilla vinsælda hjá stúdentum og ungu fólki, en hneikslan hjá eldra fólki.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]Fyrirmynd greinarinnar var „Heiliggeistkirche (Heidelberg)“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt janúar 2010.