Keflavíkurgangan 1981

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Keflavíkurgangan 1981 eða Friðargangan var haldin af Samtökum herstöðvaandstæðinga þann 20. júní árið 1981. Þetta var áttunda Keflavíkurgangan og beindist gegn bandarískri hersetu á Íslandi og uppsetningu kjarnorkuvopna í Evrópu.

Aðdragandi og skipulag[breyta | breyta frumkóða]

Víða um Evrópu var efnt til umfangsmikilla mótmælaaðgerða sumarið 1981 gegn áformum risaveldanna um uppsetningu skamm- og meðaldrægra kjarnorkuflauga á meginlandi álfunnar.[1] Göngur þessar báru yfirskriftina samevrópsk friðarganga. Til að sýna samstöðu og tengja sig við aðgerðirnar í Evrópu var ákveðið að Keflavíkurganga sumarsins 1981 bæri yfirskriftina Friðarganga. Sá þess stað í myndmáli í tengslum við gönguna, s.s. kröfuspjöld og opinbert plakat aðgerðarinnar, þar sem friðardúfur voru áberandi.

Auk kjarnorkuógnarinnar voru aukin hernaðarumsvif Bandaríkjahers á Íslandi ofarlega í huga herstöðvaandstæðinga. AWACS-kafbátaleitarvélar voru komnar á Keflavíkurflugvöll og unnið var að uppsetningu ratstjárstöðva víða um land. Við vallarhliðið í Keflavík hélt Bergljót Kristjánsdóttir ræðu. Þorgrímur Starri Björgvinsson ávarpaði göngufólk í Kúagerði. Kristján Bersi Ólafsson og Ástríður Karlsdóttir tóku til máls í Hafnarfirði og þau Gils Guðmundsson og Birna Þórðardóttir í Kópavogi. Á öllum stöðum var einnig boðið upp á ljóðalestur og/eða tónlistarflutning.

Á útifundinum á Lækjartorgi fluttu þau Jón Helgason, Guðrún Helgadóttir og norska baráttukonan Berit Ås ávörp, en fundarstjóri var Böðvar Guðmundsson sem hafði troðið upp á tveimur áningarstöðum í göngunni sem tónlistarmaður. Áætlað var að um 6.000 manns hefðu mætt á fundinn í göngulok.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Keflavíkurgöngur - sögusýning á Landsbókasafni“ (PDF).