Keflavíkurgangan 1981

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Keflavíkurgangan 1981 eða Friðargangan var haldin af Samtökum herstöðvaandstæðinga þann 20. júní árið 1981. Þetta var áttunda Keflavíkurgangan og beindist gegn bandarískri hersetu á Íslandi og uppsetningu kjarnorkuvopna í Evrópu.

Aðdragandi og skipulag[breyta | breyta frumkóða]

Víða um Evrópu var efnt til umfangsmikilla mótmælaaðgerða sumarið 1981 gegn áformum risaveldanna um uppsetningu skamm- og meðaldrægra kjarnorkuflauga á meginlandi álfunnar.[1] Göngur þessar báru yfirskriftina samevrópsk friðarganga. Til að sýna samstöðu og tengja sig við aðgerðirnar í Evrópu var ákveðið að Keflavíkurganga sumarsins 1981 bæri yfirskriftina Friðarganga. Sá þess stað í myndmáli í tengslum við gönguna, s.s. kröfuspjöld og opinbert plakat aðgerðarinnar, þar sem friðardúfur voru áberandi.

Auk kjarnorkuógnarinnar voru aukin hernaðarumsvif Bandaríkjahers á Íslandi ofarlega í huga herstöðvaandstæðinga. AWACS-kafbátaleitarvélar voru komnar á Keflavíkurflugvöll og unnið var að uppsetningu ratstjárstöðva víða um land. Við vallarhliðið í Keflavík hélt Bergljót Kristjánsdóttir ræðu. Þorgrímur Starri Björgvinsson ávarpaði göngufólk í Kúagerði. Kristján Bersi Ólafsson og Ástríður Karlsdóttir tóku til máls í Hafnarfirði og þau Gils Guðmundsson og Birna Þórðardóttir í Kópavogi. Á öllum stöðum var einnig boðið upp á ljóðalestur og/eða tónlistarflutning.

Á útifundinum á Lækjartorgi fluttu þau Jón Helgason, Guðrún Helgadóttir og norska baráttukonan Berit Ås ávörp, en fundarstjóri var Böðvar Guðmundsson sem hafði troðið upp á tveimur áningarstöðum í göngunni sem tónlistarmaður. Áætlað var að um 6.000 manns hefðu mætt á fundinn í göngulok.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Keflavíkurgöngur - sögusýning á Landsbókasafni“ (PDF).