Fara í innihald

Keflavík (norður)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Keflavík

Keflavík

Keflavík nyrðri er eyðibýli við litla, samnefnda vík, á Flateyjarskaga (skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa). Víkin liggur á milli fjallanna Gjögurs og Hnjáfjalls. Keflavík þótti löngum góð jörð til sauðfjárræktar. Upp úr 1860 rak Jón skipstjóri Loftsson frá Grenivík sjómannaskóla þar.

Sagt er að Keflavík hafi verið næst-afskekktasti bær á Íslandi, á eftir Hvanndölum á Tröllaskaga. Einangraðist fólk þar oft á snjóþungum vetrum. Snemma á 18. öld gekk pest um Ísland, og veiktist fólk í Keflavík, sem víðar. Týndi heimilisfólk tölunni, uns feðgin voru ein eftir, bóndinn og dóttir hans er Margrét hét og var 11 ára. Þegar hann fann að dauðinn nálgaðist, leysti hann garðabönd í fjárhúsinu og minnti dóttur sína á að fara með bænirnar sínar ef hún yrði hrædd. Gekk hann að því búnu fram í bæjargöng, þar sem svalast var í bænum, og gaf upp öndina. Sex vikur liðu áður en Margrét fannst; höfðu menn frá Látrum róið til fiskjar og séð að ekki rauk úr strompi í Keflavík. Fóru þeir í land og fundu Margréti eina á lífi. Hún átti eftir að lifa fram í Móðuharðindi, en gekk ekki heil til skógar eftir þetta.

Keflavík fór í eyði árið 1906, og hafði þá ýmist verið í byggð eða í eyði frá landnámsöld. Síðasti ábúandi var Geirfinnur Magnússon, sem átti hina frægu meri Keflavíkur-Jörp.

  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.