Fara í innihald

Köngulóarmaðurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Köngulóarmanns búningur

Köngulóarmaðurinn, eða Spider-Man eins og hann heitir á frummálinu, er ofurhetja úr Marvel-myndasöguheiminum skapaður af Stan Lee og Steve Ditko. Köngulóarmaðurinn naut strax hylli almennings þegar hann kom fram í fyrstu myndasögu sinni árið 1962 og hefur verið vinsælasta myndasöguhetja Marvel.

Hluti af þessari vinsæld var af því að nú var það unglingur sem var kynntur sem ofurhetja, frekar en að vera hjálparhella, og hann þurfti oftast að takast á við persónulegu vandamál sín ásamt ábyrgðinni að vera ofurhetja. Síðan hann birtist fyrst hafa komið mörg myndasögublöð um hann ásamt teiknimyndum, leiknum sjónvarpsþáttum og sex kvikmyndum.

Peter Benjamin Parker var eitt sinn venjulegur unglingslúði sem bjó hjá frænku sinni og frænda í Queens-hverfi í New York. Peter hafði mikinn áhuga á ljósmyndun og vísindum og hélt sig oft einn. Á vísindasýningu var Peter bitinn af geislavirkri könguló og hlaut brátt hæfleika köngulóa; svo sem að geta klifið veggi með fingurgómunum og köngulóarskynjun. Hann hlaut einnig yfirnáttúrulegt afl og fimi. Hann hannaði seinna tæki til að framleiða köngulóavef og bjó til búning til þess að vinna sem glímukappi og verða sjónvarpsstjarna. Eitt skiptið þegar hann er gestur í sjónvarpsþætti lætur hann þjóf sleppa (hann segir að það sé ekki hans vandamál) en kemst seinna að því að sá sami þjófur skaut frænda hans til bana. Peter, sem þá var kominn með samviskubit, ákveður að gerast sjálfskipaður löggæslumaður.

Hæfleikar og tæki

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir köngulóabitið fékk Peter ofurmátt og hæfileika köngulóa. Hann varð einnig miklu fimari, sneggri, hafði meira þol og sterkari. Hann gat klifið veggi og hafði eins konar „köngulóaskynjun“ til að vara hann við hættum. En Peter erfði ekki vefspuna köngulóa og bjó sér „vefdrífur“ sem hann hafði um úlnliðinn og skaut hann vef úr þeim með því að þrýsta á takka í miðjum lófanum með löngutöng og baugfingri. Seinna bjó hann sér til búninginn einkennandi: rauður og blár með vefmynstri um rauða litinn ásamt litlu köngulóarmerki á bringunni og stóru á bakinu. Hann hafði einnig grímu sem þakti andlitið og sá hann út um hálfgegnsæar hvítar linsur. Hann hafði tækjabelti og vefdrífurnar undir búningnum. Þá hefur hann einnig notað eftirtalin tæki: lítil köngulóarlöguð staðsetningartæki, vasaljós, innrautt vasaljós, vefhylki og næturlukt.

Aðalpersónur

[breyta | breyta frumkóða]
  • Peter Parker: Peter Parker þarf að lifa erfiðu einkalífi og um leið að axla ábyrgð sem ofurhetjan, Köngulóarmaðurinn.
  • May frænka: Frækna Peters sem styður hann ávallt og er eina fjölskyldan hans.
  • Ben frændi: Frændi Peters og var hans eina föðurímynd. Peter, með samviskubit yfir dauða hans, gerðist Köngulóarmaðurinn.
  • Mary Jane Watson: Byrjaði sem vinkona Peters en svo varð persóna hennar og vinátta hennar og Peters dýpri sem leiddi til þess að þau byrjuðu saman og giftust. Oft þarf Peter að bjarga henni.
  • J. Jonah Jameson: Aðalritstjóri og eigandi Daily Bugle, blaðsins sem Peter vinnur hjá sem ljósmyndari. Jameson hefur óbeit á Köngulóarmanninum.
  • Felicia Hardy: Felicia er vinkona Peters og gerist seinna þjófurinn Svarta Kisa, og verður seinna ástfanginn af Köngulóarmanninum.
  • Dr. Curt Connors: Eðlisfræðikennari Peters og góður vinur hans og hjálpar honum oft. Eitt skiptið eftir að hafa reynt að láta aflimaðan handlegg sinn vaxa með eðlugenum stökkbreytist hann í illmennið Eðluna.
  • Norman Osborn: Miljarðamæringur og kaupsýslumaður. Eftir mislukkaða tilraun breytist hann í illmennið Græna Púkann (e. Green Goblin).
  • Harry Osborn: Sonur miljarðamæringsins Norman Osborn. Verður seinna einn af vinum Peters en fetar svo í fótspor föður síns til að hefna dauða hans.
  • Gwen Stacy: Kærasta Peters Parker og dóttir lögreglustjórans. Græni Púkinn drepur hana og veldur það Peter miklum andlegum sársauka.
  • Flash Thompson: Stríddi Peter í miðskóla en verður seinna einn af vinum hans.
  • Robbie Robertson: Einn af ritstjórunum Daily Bugle og trúir því að Köngulóarmapurinn sé hetja.
  • Betty Brant: Ritari Jameson sem verður skotin í Peter og seinna verða þau bara vinir.

Köngulóarmaðurinn hefur þurft að glíma við fjöldann allan af skúrkum með einhvers konar ofurmætti. Óvinirnir eru Græni Púkinn, sem var Norman Osborn og varð geðveikur eftir tilraun til að auka styrkleika sinn og klæddist búningi með púkagríma og flaug um á svifdreka; Dr. Kolkrabbi (e. Dr. Octopus), vísindamaðurinn Dr. Ottó Oktavíus sem er með fjóra vélarma á bakinu; Eðlan (e. The Lizard), sem er kennari Peters og eðlisfræðingurinn Dr. Curt Connors sem stökkbreyttits í risaeðlu; Eitur (e. Venom), sem var blaðamaðurinn Edward Charles Brock sem komst í snertingu við sambýlisveruna sem var fyrst á Köngulóarmanninum; Sandmaðurinn (e. Sandman), sem er glæpamaðurinn Flint Marko sem stökkbreyttist í lifandi sand; Svartálfurinn (e. Hobgoblin), sem var upphaflega tískuhönnuðurinn Roderick Kingsley og líkist Græna Púkanum; Seinni Græni Púkinn (e. The Second Green Goblin), sem var Harry Osborn sem fetar í fótspor föður síns; og Blóðbað (e. Carnage), sem var geðsjúklingurinn og fjöldamorðinginn Kletus Casady og kemst í snertning við afkvæmi Eiturssambýlisveruna.

Teiknimyndirnar og kvikmyndirnar

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta teiknimyndaserían um Köngulóarmanninn var fyrst sýnd 1967 undir nafninu Spider-Man og lauk 1970. Síðan kom barnaþátturinn The Electric Company - Spidey Super Stories á 8. áratungnum. Árið 1977 voru sýndir leiknir sjónvarpþættir, The Amazing Spider-Man, þar sem Nicolas Hammond lék Lóa en þeir entust ekki lengi. 1978 voru leiknu japönsku þættirnir Spider-Man sýndir aðeins í Japan og lauk 1979. Köngulóarmaðurinn kom svo út í tveimur teiknimyndaseríum 1981 undir nöfnunum Spider-Man (1981-82) og Spider-Man and His Amazing Friends (1981-83). Árið 1994 kom út teiknimyndasería sem bar nafnið Spider-Man: The Animated Series og entist til 1998. Árið 1999 var byrjað að sýna teiknimyndaþættina Spider-Man Unlimited og entist ekki lengi. 2002 var fyrsta leikna kvikmyndin um Köngulóarmanninn frumsýnd þar sem Tobey Maguire lék aðalhlutverkið. Ári síðar voru teiknimyndaþættirnir Spider-Man: The New Animated Series sýndir en þeir byggðust lauslega á kvikmyndinni. Framhaldið af fyrstu myndinni var frumsýnd 2004 og glímdi Köngulóarmaðurinn þar við Dr. Kolkrabba. Þriðja myndin var frumsýnd 4. maí 2007 og barðist hann þar við Sandmanninn, Nýja Púkann og Eitur. Ný teiknimyndasería verður sýnd 2008 undir nafninu The Spectacular Spider-Man. Árið 2012 var myndasyrpan endurræst með myndinni The Amazing Spider-Man með Andrew Garfield sem Köngulóarmaðurinn. Myndin öðlaðist svo framhald 2014 en náði ekki þéna inn nógu mikinn pening og var hætt við þriðju myndina. Næst kom Köngulóarmaðurinn fram í Marvel-kvikmyndaheiminum í Captain America: Civil War árið 2016 þar sem hann var leikinn af Tom Holland. Næsta kvikmyndin kom 2017 undir nafninu Spider-Man: Homecoming aftur leikinn af Holland og svo birtist hann í næstu tveimur Avengers-myndunum 2018 og 2019. Framhaldið af Homecoming væntanlegt 2019.