Fara í innihald

Joseph Thorson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Joseph Thorarinn Thorson (eða Joseph T. Thorson) (15. mars 18896. júlí 1978) var vestur-íslenskur lögfræðingur, dómari og ráðherra í stjórn William Lyon Mackenzie Kings á árum seinni heimsstyrjaldar. Hann er sá Vestur-Íslendinga sem náð hefur einna lengst innan kanadíska stjórnkerfisins. Joseph var á efri árum heiðraður með íslensku fálkaorðunni. Bróðir hans var Charles Thorson, teiknimyndahöfundur.

Foreldrar Joseph, Stefán Þórðarson (Stephen Thorson) Jónssonar frá Bryggju í Biskupstungum, og Sigríður Þórarinsdóttir frá Ásakoti í Biskupstungum, fluttu til Kanada árið 1887 og þar fæddist hann tveimur árum síðar. Joseph var lögfræðingur að mennt og útskrifaður úr háskólum í Englandi, Kanada og á Íslandi. Hann barðist eftir nám í fyrri heimsstyrjöldinni. Joseph var fyrst kosinn á þing í Kanada fyrir frjálslynda árið 1930 og var síðar ráðherra á seinni heimsstyrjaldarárunum og var skipaður dómsforseti við ríkisdómstól Kanada 1943 og gegndi því starfi til 1960 er hann hætti vegna aldurs.

Joseph var sagður dugmikill baráttumaður fyrir þeim málum sem honum þóttu máli skipta, barðist til dæmis á árinu 1972 hatrammlega gegn nýjum tungumálalögum í Kanada. En að þeim lögum stóð sonur hans Donald Thorson, sem var aðstoðardómsmálaráðherra. Skömmu áður en Joseph Thorson lést, höfðu honum verið fluttar fréttir af því að Donald sonur hans hefði verið skipaður í Áfrýjunardómstól Ontarios-fylkis.

Joseph lést í sjúkrahúsi í Ottawa, 89 ára gamall. Hafði hann hryggbrotnað í apríl þegar bíll hans rann til og lenti á vegg austurríska sendiráðsins beint á móti heimili hans í Rockcliffe. Í kanadískum dagblöðum stóð að hann, Joseph Thorson, sem 16 árum fyrr hafði sloppið lifandi úr skothríð árásarmanna í Brasilíu, hafi gengið heim til sín áður en hann féll saman.

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.