Johan Peringskiöld

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Johan Peringskiöld.

Johan Peringskiöld (eða Peringskjöld) (6. október 165424. mars 1720) var sænskur fornfræðingur, þjóðminjavörður 1693–1719. Hann hét Johan Peringer fram til 1693, þegar hann var aðlaður, en breytti þá eftirnafninu.

Hann fæddist í Strängnäs. Foreldrar hans voru Laurentz Fredrik Peringer kennari og Anna Andersdotter. Hann varð stúdent frá Uppsalaháskóla 1677, og fór að taka að sér verkefni fyrir Sænska fornfræðaráðið 1680. Árið 1682 var honum falið, með Johan Hadorph, að fara í rannsóknarferðir um landið og teikna upp gamlar minjar og rúnasteina. Urðu þar til fyrstu drög að hinu mikla verki um rúnasteina, sem kom út árið 1750 undir nafninu Bautil. Hann hafði strax á námsárunum í Uppsölum vakið athygli fyrir færni sína í teikningu og gerð myndamóta, og eru teikningar hans af horfnum minjum nú dýrmætar heimildir.

Eftir að hann varð fastur starfsmaður hjá Fornfræðaráðinu 1687, einbeitti hann sér að því að draga saman efni í sænskt fornbréfasafn, ættfræðiheimildir og æviskrár. Í hallarbrunanum 1697 eyðlögðust 18 bindi af því safni, en Peringer lét vinna aftur það sem hægt var og halda áfram á sömu braut. Einnig hélt hann áfram rannsóknum á fornum minjum. Árið 1693 varð Peringer ritari við Fornfræðaráðið (sem þá fékk nafnið Antikvitetsarkivet) og þjóðminjavörður, og var aðlaður sama ár og tók upp nafnið Peringskiöld. Á árunum 1698–1711 var hann einnig þýðandi íslenskra fornrita. Peringskiöld lét af embætti þjóðminjavarðar 1719 og varð þá fulltrúi í stjórnarráðinu. Hann dó í Stokkhólmi árið eftir.

Johan Peringskiöld hafði um sumt svipuð viðhorf til fræðistarfa og Olof Rudbeck, var full djarfur í ályktunum og þarf að nota rit hans með gætni, t.d. ættartölurit. En hann var mjög atorkusamur við að draga saman heimildir sem annars hefðu glatast. Eru þessi söfn varðveitt í Konunglega bókasafninu í Stokkhólmi og Ríkisskjalasafninu og eru mikil að vöxtum. Þar eru m.a. drög að miklu verki um sænskar minjar og sögustaði: Swea och Göta minnings-merken, og komu út tvö bindi um Tíundaland, 1710 og 1719.

Johan Peringskjöld beitti sér fyrir söfnun og útgáfu íslenskra handrita. Hans verður einna lengst minnst fyrir útgáfu sína á Heimskringlu Snorra Sturlusonar (1697–1700), sem var frumútgáfa bókarinnar á íslensku, og með sænskri og latneskri þýðingu varð hún aðgengileg fræðimönnum á Norðurlöndum og víðar. Bókin er í stóru broti og allur frágangur hennar með aðalsbrag. Guðmundur Ólafsson fornritafræðingur átti talsverðan þátt í þeirri útgáfu.

Johan Peringskjöld giftist fyrst (1687) Elisabeth Eliædotter (d. 1707). Seinni kona hans (1711) var Sophia Polus, greifynja. Sonur hans af fyrra hjónabandi var Johan Fredrik Peringskiöld (1689–1725) fornfræðingur og þjóðminjavörður.

Helstu rit og útgáfur[breyta | breyta frumkóða]

  • Snorri Sturluson: Heims Kringla, Eller Snorre Sturlusons Nordländske Konunga Sagor 1–2, Stockholmiæ 1697 og 1700. — Frumútgáfa íslenska textans, sænsk þýðing eftir Guðmund Ólafsson endurskoðuð af J.P., latnesk þýðing eftir Johan Peringskjöld.
  • Johannes Cochlæus: Vita Theodorici, regis Ostrogothorum, 1699. — Ævisaga Þiðriks, konungs Austgota.
  • Historia Hialmari Regis Biarmlandiæ Atque Thulemarkiæ, um 1700. — Falsað rit, fyrsta útgáfan kom út 1690 með öðrum titli, sbr. Fiske-skrána.
  • Wilkina Saga, Eller Historien Om Konung Thiderich af Bern Och hans Kämpar samt Niflunga sagan, Stockholmis 1715. — Þiðriks saga af Bern, á íslensku, sænsku og latínu. Að sænsku þýðingunni unnu Johan Hadorph o.fl. Guðmundur Ólafsson bjó textann til útgáfu.
  • Johannes Messenius: Scondia illustrata, seu Chronologia de rebus Scondiæ, hoc est, Sueciæ, Daniæ, Norvegiæ, atque una Islandiæ, Gronlandiæque, Stockholmiæ 1700–1705.
  • Then första boken af Swea och Götha minnings-merken vthi Uplandz första del Thiundaland, 1710.
  • Monumenta ullerakerensia...; eller Ulleråkers Häradz minnings-merken, med Nya Upsala, 1719.
  • En book af menniskionen slächt och Jesu Christi börd, 1713.
  • Ättar-tal för Svea och Götha konunga-hus, 1725. — Gefið út af syni hans. Ritið var tekið saman um 1692.
  • Bautil, det är: alle Svea ok Götha rikens runstenar, upreste ifrån verldenes år 2000 til Christi år 1000, Stockholm 1750. — Um sænska rúnasteina, að nokkru eftir aðra. Johan Göransson gaf út.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]