Fara í innihald

Joachim Murat

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Murat-ætt Konungur Napólí
Murat-ætt
Joachim Murat
Joachim Murat
Ríkisár 1. ágúst 1808 – 19. maí 1815
SkírnarnafnJoachim Murat
Fæddur25. mars 1767
 Labastide-Fortunière, Frakklandi
Dáinn13. október 1815 (48 ára)
 Pizzo, Kalabríu, Konungsríki Sikileyjanna tveggja
GröfPère-Lachaise-grafreitur, Castello di Pizzo, Napólí
Konungsfjölskyldan
Faðir Pierre Murat-Jordy
Móðir Jeanne Loubières
DrottningKarólína Bonaparte (1800–1815)
BörnAchille, Marie Letizia, Napoléon Lucien Charles, Louise Julie Caroline

Joachim Murat (25. mars 1767 – 13. október 1815) var franskur marskálkur og flotaforingi í þjónustu Napóleons Bónaparte á tíma franska keisaraveldisins. Fyrir þjónustu sína gaf Napóleon Murat furstatign árið 1804, gerði hann að stórhertoga af Berg árið 1805 og síðan að konungi konungsríkisins Napólí árið 1808. Murat var einnig tengdabróðir Napóleons og var giftur yngri systur hans, Karólínu, frá árinu 1800. Murat var þekktur fyrir að vera skrautgjarn og vel klæddur, sérstaklega á konungsstólnum.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Murat fæddist árið 1767 og rak fjölskylda hans gistiheimili.[1] Foreldrar hans vonuðust til þess að hann myndi leggja fyrir sig prestsnám en Murat mun ekki hafa verið vel fallinn í það nám; hann var nautnaseggur og fljótur að safna skuldum og komast upp á kant við samnemendur sína.[2] Um það leyti sem hann var kominn á skólaaldur braust franska byltingin út. Murat strauk úr skólanum og gekk í franska herinn en neyddist fljótt til að segja sig úr hernum og gerast vinnumaður á veitingahúsi föður síns.[1]

Murat gekk fljótt aftur í herinn og komst í lífvarðasveitina (Garde national), þar sem hann kynntist Napóleon Bónaparte. Murat varð rómaður fyrir að vera fær og hugrakkur riddaraforingi sem barðist jafnan í fremstu víglínu og særðist aldrei þrátt fyrir að vera ávallt auðþekkjanlegur vegna skrautklæða sinna. Napóleon sá hæfileika Murats og tók hann undir verndarvæng sinn. Þegar Napóleon var orðinn fyrsti ræðismaður franska lýðveldisins gerði hann Murat að hershöfðingja og gaf honum systur sína, Karólínu, að konu.[1] Þegar Napóleon varð svo keisari Frakklands varð Murat konungur franska leppríkisins Napólí með Karólínu sem drottningu sína.

Eftir að Napóleon fór halloka í Rússlandsherför sinni árið 1812 var Murat fljótur að svíkja fyrrverandi velgjörðamann sinn þar sem hann óttaðist að hann myndi sjálfur missa konungssæti sitt í Napólí ef hann fylgdi keisaranum áfram. Þegar Napóleon sneri aftur úr útlegð sinni á Elbu gekk Murat aftur í lið með honum. Napóleon bað hins vegar ósigur í hinsta sinn í orrustunni við Waterloo árið 1815 og var sendur í útlegð til Sankti Helenu. Í kjölfarið var Murat sviptur konungsríki sínu og rekinn frá Napólí.

Murat flúði til Korsíku og reyndi þar að safna liði til þess að endurheimta Napólí en var þess í stað handtekinn og dæmdur til dauða. Murat var tekinn af lífi þann 13. október 1815 og gaf skotsveitinni sjálfur skipun um að skjóta:

„Hermenn! Gerið skyldu yðar! Miðið á hjarta mitt en látið höfuð mitt í friði. Hleypið af!“[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Joachim Murat“, Æskan, (29.05.1902), bls. 61.
  2. Louis Clavel, « Une mésaventure du jeune Joachim Murat en 1787 », Bulletin de la Société des Études du Lot, no Tome CII, 4e fascicule,‎ 1981, bls. 362.


Fyrirrennari:
Joseph Bonaparte
Konungur Napólí
(1. ágúst 180819. maí 1815)
Eftirmaður:
Ferdinand 4.