Alfred Wegener

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Alfred Wegener

Alfred Wegener (1. nóvember 1880 í Berlínnóvember 1930 á Grænlandi) var þýskur jarð-, veður- og heimskautafræðingur. Hann er helst þekktur fyrir að vera upphafsmaður landrekskenningarinnar, þrátt fyrir að hún væri ekki meðtekin í vísindaheiminum fyrr en nokkuð eftir andlát hans.

Æviferill[breyta | breyta frumkóða]

Nám[breyta | breyta frumkóða]

Alfred Lothar Wegener fæddist í Berlín og gekk þar í skóla. Hann nam eðlisfræði, veðurfræði og stjörnufræði í háskólum í Berlín, Heidelberg og Innsbruck. 1905 lauk hann doktorsritgerð í stjörnufræði við háskólann í Berlín en sneri sér svo að öðrum vísindagreinum. Að hans áliti var ekki mikið eftir að gera í stjörnufræðigeiranum. Auk þess væru stjörnufræðingar alltof bundnir við stjörnustöð sína. Wegener vildi vera miklu frjálsari. 1906 fór Wegener ásamt einum bræðra sinna í loftbelgsflug með veðurathugunartækjum og settu þá heimsmet í flugi í loftbelg er þeir flugu í 52 tíma samfleytt.

Fyrsta Grænlandsferðin[breyta | breyta frumkóða]

1906 fór Wegener í fyrsta sinn til Grænlands. Hann var þá meðlimur rannsóknarliðs undir stjórn Dana sem átti að kortleggja og kanna norðausturströnd Grænlands en það var eini hluti af strandlengju Grænlands sem enn var ókönnuð. Við Danmarkshavn útbjó Wegener fyrstu veðurathugunarstöð Grænlands. Í einni sleðaferðinni létust danski leiðangursstjórinn og tveir rannsóknarmenn. Frá 1908 til upphafs heimstyrjaldarinnar fyrri kenndi Wegener við háskólann í Marburg. Þar skrifaði hann sína fyrstu bók. Einnig viðraði hann í fyrsta sinn hugmyndir um að heimsálfurnar hafi rekið í sundur í fyrndinni. Landrekskenningin var þó langt í frá fullmótuð. Í Marburg kvæntist hann Else Köppen.

Önnur Grænlandsferð[breyta | breyta frumkóða]

Áður en brúðkaupið fór fram fór Wegener í annað sinn til Grænlands. Aftur var leiðangursstjórinn danskur, J.P. Koch að nafni. Þetta var sumarið 1912. Á leiðinni var komið við á Íslandi. Þar voru keyptir voru nokkrir hestar sem leiðangursmenn hugðust nota á ísbreiðum Grænlandsjökuls. Áður en haldið var frá Íslandi var farin æfingarferð með hestana um Ódáðahraun og Vatnajökul. Þar bættist nýr liðsmaður í hópinn, Vigfús Sigurðsson, sem seinna hlaut viðurnefnið Grænlandsfari. Hans hlutverk var einkum að sjá um hestana en í leiðangrinum kom raunar í ljós að hann var þúsundþjalasmiður og hagur á tré og járn og laginn við hverkyns vélar og tæki. Frá Íslandi var siglt norður með austurströnd Grænlands og var ráðgert að fara yfir jökulinn, þar sem hann er hvað breiðastur, yfir til vesturstrandarinnar. Þeir reistu sér hús, sem þeir kölluðu Borg, til vetursetu á jöklinum við austurjaðarinn. Þar voru gerðar veðurathuganir og borað í jökulinn. Það var í fyrsta sinn í sögunni sem borað var í heimskautajökul. Í einni könnunarferðinni féll Koch leiðangursstjóri í sprungu og fótbrotnaði. Hann gréri þó sára sinna og komst með í ferðina yfir jökulinn. Ferðin sjálf var farin í vetrarlok og stóð fram á sumarið 1913. Vegalengdin var um 1200 km í loftlínu eða nærri tvöfalt lengri leið en Fridtjof Nansen fór 1888. Ferðin gekk áfallalaust, en við vesturströndina komu up óvæntir erfiðleikar og vistirnar kláruðust áður en þeir náðu til byggða. Það var nánast fyrir tilviljun að þeir gátu gert vart við sig og danski presturinn í Upernavik fann þá er hann var á leið til fjarlægrar kirkju. Að ferð lokinni hélt Wegener áfram að kenna í Marburg.

Hermaður og prófessor[breyta | breyta frumkóða]

Alfred Wegener og Rasmus Villumsen á Grænlandi 1930

Í upphafi heimstyrjaldarinnar fyrri var Wegener umsvifalaust kallaður í herinn og var óbreyttur hermaður í Belgíu. Þar var mikið barist og særðist hann tvisvar. Í kjölfarið var hann settur í veðurdeild hersins en í henni ferðaðist hann um allt þýska ríkið og utan þess, svo sem til Balkanslanda og Eystrasaltslanda. Samt sem áður átti hann nægan tíma aflögu til að halda skrifum sínum áfram. Mitt í stríðinu gaf hann út aðalverk sitt, sem fjallaði um landrek sem vísindalega kenningu. En einmitt sökum stríðsins fékk bókin hvergi hljómgrunn. Eftir stríð starfaði Wegener á veðurstofunni í Hamborg, en fékk svo prófessorsstöðu í Graz í Austurríki. Á meðan birtust fleiri rit eftir Wegener sem fjölluðu um landrek, en öll fengu þau harða dóma. Til marks um það var haldið þing um landrek í New York 1926 og þar höfnuðu allir þátttakendur kenningu Wegeners um landrek.

Síðasta Grænlandsferðin[breyta | breyta frumkóða]

1930 fór Wegener í þriðja sinn til Grænlands og nú sem aðalstjórnandi mikils vísindaleiðangurs. Á leið til Grænlands var komið við á Íslandi og keyptir hestar. Þar réðist Vigfús Grænlandsfari til ferðarinnar og tveir aðrir Íslendingar með honum. Leiðangurinn endaði illa. Ekki aðeins vegna þess að ekki tókst að hrinda þeim áformum í veðurfarsrannsóknum í framkvæmd sem leiðangurinn átti að sjá um, heldur einnig sökum þess að Wegener og einn aðstoðarmanna hans létu lífið. Wegener sjálfur fannst ekki fyrr en um vorið eftir og kom þá í ljós að hjartað hafði gefið sig af of mikilli áreynslu. Aðstoðarmaður hans týndist og hefur ekki fundist síðan.

Landrek[breyta | breyta frumkóða]

Steingervingar plantna og dýra styðja landrekskenninguna

Það voru fleiri en Alfred Wegener sem sáu að útlínur vesturstrandar Afríku og austurstrandar Suður-Ameríku væru líkar. En hann var fyrsti vísindamaðurinn sem hóf að kanna málið frekar. Hin almenna skoðun jarðfræðinga á þessum tíma var að höfin væru að dýpka og meginlöndin væru að sökkva vegna þess að jörðin væri að skreppa saman hægt og hægt. Þannig hljóðaði kenningin um myndun meginlandanna. Wegener hafnaði þessum rökum. Hann taldi að meginlöndin væru hálffljótandi eyjar sem bærust hægt úr stað. Jörðin væri ekki að minnka, það sæist til dæmis á Skandinavíu, sem raunar var að lyftast eftir farg ísaldarjökulsins. Í fyrndinni hafi verið til eitt stórt meginland sem þannig hafi klofnað í sundur. Bæði steintegundir og steingervingar á samsvarandi stöðum í Afríku og Suður-Ameríku gáfu sterklega til kynna að meginlöndin hafi rekið í sundur. Fram að þessu höfðu vísindamenn talið að landbrú hafi verið til milli meginlandanna og dýrin þannig komist á milli, en þegar Wegener kannaði botn Atlantshafsins, kom Atlantshafshryggurinn í ljós. Hryggurinn liggur hins vegar ekki milli meginlandanna, heldur eftir endilöngu Atlantshafi. Landbrúin væri því útilokuð. Á Grænlandi fann Wegener kolefni sem bara hefði getað myndast í mjög hlýju loftslagi. Einnig fann hann ummerki eftir jökla á hlýjum svæðum jarðar, svo sem í Sahara. Ennfremur taldi Wegener að fjallgarðar heims hafi myndast er meginlöndin hafi rekist saman í fyrndinni. Stóra vandamál Wegeners í kenningum sínum var að honum tókst ekki að finna neina orsök fyrir landreki og gat því aldrei útskýrt fyrir vísindaheiminum hvaða kraftar væru að verki og hvers vegna. Ein af síðustu hugmyndum hans um orsök landreksins var hitinn í iðrum jarðar, sem í dag er reyndar meginkenningin um orsök landreksins.

Eftirmáli[breyta | breyta frumkóða]

Wegener fann engan hljómgrunn fyrir kenningum sínum. Alls staðar í vísindaheiminum var þeim hafnað, ef til vill vegna þess að Wegener tókst ekki að safna nægum staðreyndum eða sönnunum. Það var ekki fyrr en í upphafi 8. áratugarins að stakir vísindamenn höfðu safnað nægum gögnum að landrekskenningin lifnaði við af alvöru. Í dag er landrekskenningin ein meginstoð jarðfræðinnar og nafn Alfreds Wegeners er órjúfanlegur hluti af henni.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • „Hvað getið þið sagt mér um Alfred Wegener?“. Vísindavefurinn.