Jónsmessa
Jónsmessa er fæðingarhátíð Jóhannesar skírara og ber upp á 24. júní. Til eru ritaðar heimildir um að skrifa nafn Jóhannesar skírara Jón eða Jóan skírari eða baptisti og þaðan er heitið Jónsmessa, frekar en Jóhannesarmessa komið. Hún er eini fæðingardagur dýrlings sem haldinn er helgur utan eina af sjö helstu messum Maríu guðsmóður, en einn þeirra, 8. september er áætlaður fæðingardagur hennar.
Uppruni
[breyta | breyta frumkóða]Þegar Rómverjar á 1. öld f.Kr. tóku upp júlíanska tímatalið var haldið up á 24. júní sem lengsta dag ársins og haldin forn sumarsólstöðuhátíð og sambærileg vetrarsólstöðuhátíð sem stysta dag ársins þann 24. desember. Var það líkt og víðast hvar annars staðar á þeim tíma að haldið hefur verið upp á sólstöður að sumri og vetri.
Þegar Rómarkirkjan ákvað nokkrum öldum seinna að haldið skyldi upp á fæðingardaga Jesú Krists og Jóhannesar skírara á þessum fornu Rómversku sólstöðuhátíðum miðaði hún við júlíanska tímatalið, en vissi þá ekki að stjarnfræðileg nákvæmni tímatalsins var ekki rétt og munaði 3. dögum á hinum raunverulegu sólhvörfum og tímatalinu. Samkvæmt Nýja testamentinu, Lúkasarguðspjalli 1:26 og 1.36, átti Jóhannes skírari að hafa fæðst sex mánuðum á undan Jesú. Jónsmessa átti því að vera á sumarsólstöðum en jól, fæðingarhátíð Krists á vetrarsólstöðum. En vegna þess að júlíanska tímatalið var ekki rétt settu þeir eftir sinni bestu vitneskju fæðingarhátíðir þeirra á 24. júní og 24. desember. Þegar tímatalið var leiðrétt og sólstöðurnar færðar á sína réttu stjarnfræðilegu daga, sem eru um 21. júní og 21. desember, var samt áfram haldið í fyrri dagsetningar og því eru Jónsmessa og jól þremur dögum eftir stjarnfræðilegar sumar-og vetrarsólstöður.[1]
Í Norður-Evrópu höfðu sólstöðuhátíðirnar ætíð haft meira gildi en sunnar í álfunni, væntanlega vegna þess hve mikill munur er á lengsta og stysta degi ársins þar. Voru til dæmis á þessum dögum mikil blót á Norðurlöndunum. Þegar Ólafur konungur Tryggvason var búinn að kristna Norðmenn virðist hann hafa viljað bæta landmönnum upp hin fornu blót með því að setja niður ársfjórðungslegar hátíðir í stað hinna ársfjórðungslegu blóta. Í einu fornriti segir svo:
„... feldi blót og blótdrykkjur og lét í stað koma í vild við lýðinn hátíðardrykkjur jól og páskar, Jónsmessu munngát og haustöl að Mikjálsmessu.“
Forn Norsk lög geta þess einnig að hver bóndi í Frostaþingi skyldi eiga tiltekið magn af öli á Jónsmessu líkt og um jól.
Jónsmessa á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Jónsmessa virðist aldrei hafa verið mikil hátíð á Íslandi þótt ætla megi að yfir henni hafi verið mikil helgi í kaþólskum sið og jafnvel lengur. Helgina má mæla í því að milli tuttugu til þrjátíu kirkjur voru helgaðar Jóhannessi skírara einum eða honum ásamt einhverjum öðrum dyrlingi. Jónsmessa var einnig ekki feld niður úr tölu íslenskra helgidaga fyrr en 1770, löngu eftir siðaskipti, sem bendir til þess að yfir deginum hafi ríkt þónokkur helgi langt umfram kaþólskan sið.
Hve ólík hátíð Jónsmessa var á íslandi er talið að rekja megi til náttúrufarslega aðstæðna og hvenær hentugast var út frá þeim að halda Alþingi.
Á þessum tíma ársins var sauðburði oftast lokið, búið að rýja fé og reka á fjall. Búið að verka tún en sláttur ekki hafinn. Því var þessi tími einmitt hentugasti tími sumars til þess að kasta mæðinni og gera sér glaðan dag. En einmitt þessvega er talið að Alþingi hafi verið sett niður á þessum tíma því þetta var jafnframt sá tími sem flestir gátu komist frá til þess að þinga.
Á þjóðveldistímanum kom þingið saman um miðjan júní og stóð í tvær vikur. Er líklegt þótt ekki séu til af því neinar frásagnir eða ritaðar heimildir að fólk hafi gert sér þar glaðan dag samhliða alvarlegri fundarhöldum á þingstaðnum.
Eins er það með venjur á Jónsmessunótt, að á íslandi var ekki sama trúin á mikil drauga eða nornalæti, kanski vegna þess að þær verur þola illa dagsins ljós og þessi nótt nær dagsbjört og því ekki neitt myrkur til að hræðast hvað leynst gæti í því. Þó þótti Jónsmessunótt ein af fjórum mögnuðustu nóttum ársins ásamt jólanótt, nýjársnótt og þrettándanótt en allar þessar nætur eru nálægt sólhvörfum. Margur af þeim átrúnaði sem þessum nóttum tengdist var hinn sami, eins og að þær væru góðar til útisetu á krossgötum, kýr tali og selir fari úr hömum sínum.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Af hverju er nafnið Jónsmessa dregið?“. Vísindavefurinn. (Skoðað 13.06.2019)
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Árni Björnsson (2000). Saga daganna.