Fara í innihald

Frostaþing

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Minnisvarði á Þinghæðinni við Lögtún.

Frostaþing eða Frostuþing – (norræna: Frostuþing) – var að fornu sameiginlegt þing fyrir Þrændalög og nálæg fylki.

Frostaþing var eitt af fjórum landshlutaþingum í Noregi, og var haldið við bæinn Lögtún í sveitarfélaginu Frostu eða Frosta í Þrændalögum (staðset í fylkinu sem hét Norður-Þrændalög), sjá hnit. Á nálægum bæ, Lögsteini, er klettahæð sem talið er að geti verið „lögbergið“ þar sem þingmenn voru ávarpaðir. Frostaþing hafði ásamt Gulaþingi meira vægi í norska stjórnkerfinu en landshlutaþingin austanfjalls í Noregi.

Upphaf og umdæmi[breyta | breyta frumkóða]

Óvíst er hvenær Frostaþingið kom til, en heimildir benda til þings þar eftir 900, og e.t.v. er það mun eldra.

Upphaflega var þetta sameiginlegt þing fyrir átta forn fylki í Þrændalögum, sem nú eru ekki lengur til nema sem hluti af Norður- og Suður-Þrændalögum:

Innþrænsku fylkin:

Útþrænsku fylkin:

Síðar bættust við Mæri og Raumsdalur og Naumdælafylki. Frostaþingslögin giltu einnig í Norður-Noregi, og var Hálogaland síðar laustengt Frostaþingi, en þó með sérstakt þing. Jamtaland (Jämtland) og Herjárdal (Härjedalen), nú í Svíþjóð, höfðu svipaða stöðu á meðan Norðmenn höfðu þar ítök. Sunnmæri, sem var um tíma undir Frostaþingi, var síðar (e.t.v. eftir 1100) vegna legu sinnar lagt undir Gulaþing.

Að fornu var Eyraþing í Niðarósi annar þingstaður fyrir Þrændalög, og er deilt um hver verkaskipting þessara tveggja þinga var.

Í heimildum frá um 1400 er í stað Frostaþings-lögmanns farið að tala um lögmanninn í Þrándheimi. Vitað er um þinghald á gamla þingstaðnum (Frostu) árin 1560 og 1572, en fyrir 1594 var búið að flytja þinghaldið til bæjarins í Þrándheimi (Niðarósi).

Nú á dögum er í Noregi millidómstig, sem skiptist í 6 umdæmi, m.a. „Frostating lagmannsrett“, sem nær yfir fylkin Norður-Þrændalög, Suður-Þrændalög og Mæri og Raumsdal, og er haldið í Þrándheimi.

Þinghaldið[breyta | breyta frumkóða]

Á 12. öld var Frostaþing sett á Pétursmessu-aftann, þ.e. 28. júní, en Magnús lagabætir lét færa þingsetningu yfir á Bótólfsmessu-aftann (16. júní). Alls voru tilnefndir 400 þingmenn úr Þrændalögum, og 85 frá Norðmæri, Raumsdal og Naumudal. Þeir fengu bóndafé eða þingfararfé úr heimahéraði. Menn áttu að mæta fastandi á þingið, og bannað var að flytja öl á þingstaðinn. Prestur „sá er bók skal ráða“ (þ.e. lesa upp lögbókina) setti þingið með því að hringja stóru klukkunni í kirkjunni í Lögtúni. Síðar sá lögmaðurinn um það verk.

Með styrkingu konungsvaldsins í Noregi veiktist löggjafarhlutverk landshlutaþinganna. Þó þurfti Magnús lagabætir að leggja lögbækur sínar undir þingin til staðfestingar til þess að þær teldust vera gild lög. Þingin voru einnig dómþing og samráðsvettvangur um stjórn fylkjanna og úrlausn mála. Þau höfðu því einnig stjórnmálalegt hlutverk, þó að það sé e.t.v. ekki að fullu ljóst.

Frostaþings-innsiglið[breyta | breyta frumkóða]

Frostaþings-innsiglið sýnir Magnús konung lagabæti á Jónsmessu 1274, þar sem hann situr í hásæti og afhendir lögmanninum á Frostaþingi Frostaþingslögin nýju, þ.e. Frostaþings-útgáfuna af Landslögum Magnúsar lagabætis. Innsiglið er varðveitt á bréfi sem dagsett er 1. júní 1453, sjá Diplomatarium Norvegicum VIII, no. 349.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Trygve Knudsen: Frostating. Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder, 4, Rvík 1959:654-656.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Frostatinget“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 28. júlí 2009.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

63°34′00″N 10°42′10″A / 63.56667°N 10.70278°A / 63.56667; 10.70278