Jón forseti (togari)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jón forseti var fyrsti togarinn eða botnvörpungurinn, sem smíðaður var sérstaklega fyrir Íslendinga. Hann var smíðaður á Englandi árið 1906 fyrir útgerðarfélagið Alliance hf. í Reykjavík, en hann sigldi í fyrsta sinn til heimahafnar 22. janúar 1907. Íslendingar höfðu áður eignast grunnslóðartogarann Coot notaðan, en Jón forseti var úthafstogari. Með komu Jóns forseta hófst bylting í atvinnusögu íslensks sjávarútvegs og atvinnulífs, en sagt hefur verið að þá hafi tækniöld hafist á Íslandi. Halldór Kr. Þorsteinsson var fyrsti skipstjóri Jóns forseta.

Jón forseti þótti stór togari á þeirra tíma mælikvarða, 233 brúttórúmlestir. Eins var mjög til hans vandað, svo mjög raunar, að hann var talinn jafngóður þeim togurum, sem þá voru bestir á Englandi. Hann stóð þeim jafnvel framar að því leyti að við smíði hans hafði hann var sérstaklega styrktur til siglinga á norrænum slóðum. Jón forseti var úr járni að mestu leyti, bæði skrokkur og yfirbygging. Í honum var gufuvél og var ganghraði um 10 mílur á klukkustund. Troll Jóns forseta var í meginatriðum af sama tagi sem enn tíðkaðist 100 árum síðar, en þó miklum mun minna, aðeins um 40 metrar að lengd (svipað og togarinn), og riðið úr hampi. Jón forseti var síðutogari eins og allir togarar þess tíma.

Nafn togarans var til heiðurs Jóni Sigurðssyni, helsta leiðtoga sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, en til þess var tekið að valsmerkið, hið nýja merki heimastjórnarinnar, var við sigluhún, þegar skipið kom til landsins. [1]

Jón forseti strandaði um 1 leytið að nóttu til á rifi við Stafnes á Reykjanesskaga (milli Sandgerðis og Hafna) í illviðri þann 27. febrúar 1928. Fyrstu skip komu togaranum til aðstoðar um fimm klukkustundum seinna en gátu lítið aðhafst vegna veðurs. Á togaranum var 25 manna áhöfn og tókst með harðfylgi manna úr landi að bjarga 10 þeirra, en 15 fórust með skipinu.

Þetta slys varð mjög til að ýta á eftir stofnun slysavarnadeilda á vegum Slysavarnafélags Íslands. Fyrsta björgunarsveit á vegum þess, var Sigurvon í Sandgerði, síðan kom Þorbjörn í Grindavík. Manntjónið í þessu slysi varð meðal annars til þess að Mæðrastyrksnefnd var stofnuð enda misstu mörg börn þarna föður sinn og fjölskyldan þar með fyrirvinnu.

Minnisvarði um strand togarans Jóns forseta var afhjúpaður á Stafnesi hinn 27. ágúst 2009.[2]

Fleiri skip hafa borið þetta nafn síðar, þar á meðal nýsköpunartogarinn Jón forseti (oft nefndur nýi Jón forseti), sem smíðaður var fyrir Alliance 1948.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Íslenzkt botnvörpuskip“. timarit.is. 23. janúar, 1907. Sótt 2. júní, 2013.
  2. „Minnisvarði um Jón forseta afhjúpaður“. visir.is. 28. ágúst, 2009. Sótt 2. júní, 2013.[óvirkur tengill]