Ingimundur gamli Þorsteinsson
Ingimundur gamli Þorsteinsson var landnámsmaður í Vatnsdal í Húnaþingi og bjó á Hofi. Frá honum og afkomendum hans segir í Vatnsdæla sögu.
Í Landnámu segir frá því að Þorsteinn faðir Ingimundar, sonur Ketils raums hersis í Raumsdal í Noregi og Mjallar dóttur Áns bogsveigis hafi að áeggjan föður sín vegið Jökul son Ingimundar jarls af Gautlandi en áður en Jökull dó gaf hann Þorsteini líf og gekk hann síðan að eiga Þórdísi systur Jökuls. Ingimundur sonur þeirra ólst upp hjá Þóri í Hefni. Voru synir hans, Grímur og Hrómundur, fóstbræður Ingimundar og er sagt að Heiður völva hafi spáð fyrir þeim að þeir ættu allir eftir að búa í ófundnu landi vestur í hafi.
Seinna varð Ingimundur mikill víkingur og herjaði jafnan á Bretlandseyjum ásamt Sæmundi suðureyska vini sínum. Einhverju sinni þegar þeir sneru heim til Noregs var Haraldur hárfagri í þann veginn að leggja til orrustu við óvini sína í Hafursfirði og gekk Ingimundur í lið með konungi en Sæmundur ekki. Eftir sigurinn í Hafursfjarðarorrustu gifti konungur Ingimundi Vigdísi dóttur Þóris jarls þegjanda. Nokkru síðar fór Ingimundur til Íslands með ráði konungs því hann festi hvergi yndi og nam þá Vatnsdal allan „upp frá Helgavatni og Urðarvatni fyrir austan“ og bjó á Hofi. Hann er sagður hafa fundið birnu með tvo húna á Húnavatni og fært dýrin Haraldi konungi og hafi það verið í fyrsta sinn sem menn í Noregi sáu hvítabirni. Að launum hafi hann fengið skip með viðarfarmi og siglt á heimleiðinni fyrstur manna fyrir Skaga.
Sæmundur suðureyski fór einnig til Íslands og nam land í Sæmundarhlíð í Skagafirði. Hrolleifur Arnaldsson eða Arnhallsson, bróðursonur Sæmundar, kom til hans ásamt Ljót móður sinni kom til Sæmundar sem vísaði honum til landa í Hrolleifsdal og þar nam Hrolleifur land. Hann lenti í deilum við Una í Unadal, vó son hans og var gerður héraðssekur. Sæmundur sendi þau mæðgin þá til Ingimundar gamla, sem tók við honum og fékk honum búsetu í Oddsás gegnt Hofi. Hann lenti þó fljótt í deilum við syni Ingimundar og kom til bardaga. Ingimundur, sem þá var orðinn gamall og blindur, lét fara með sig til þeirra til að stilla til friðar en Hrolleifur skaut spjóti í gegnum hann. Ingimundur leyndi sárinu og lét smalasvein teyma hestinn undir sér heim og sat dauður í öndvegi þegar synir hans komu heim.
Ingimundarsynir eltu Hrolleif uppi, náðu honum og drápu. Þorsteinn sonur Ingimundar bjó á Hofi eftir föður sinn, Jökull bjó á Jökulstöðum, Þórir fékk goðorðið og bjó á Undirfelli, Högni fékk skipið Stíganda, Smiður bjó á Smiðsstöðum.