Fara í innihald

Hafursfjarðarorusta

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hafursfjarðarorusta er talin einn mikilvægasti atburður í sögu Noregs og átti mikinn þátt í landnámi Íslands.[1] Helsta heimildin um Hafursfjarðarorustu er Haralds saga hins hárfagra í Heimskringlu Snorra Sturlusonar.

Orustunnar er einnig getið í Egils sögu en Þórólfur Kveldúlfsson barðist þar með Haraldi og særðist. Sumir hafa álitið að Egils saga hljóti að vera rituð af Snorra, en Snorri var niðji Egils Skallagrímssonar. Skrifaði Svíinn Per Wieselgren sérstaka ritgerð um að svo geti ekki verið, því að orðalag Egils sögu og Heimskringlu sé of ólíkt (Forfattarskapet till Eigla, 1927). Þessu mótmælti þó Sigurður Nordal.

Orustan[breyta | breyta frumkóða]

Í Hafursfjarðarorustu barðist Haraldur hárfagri við fjóra smákonunga í Hafursfirði, skammt sunnan við Stafangur, og sigraði. Orustan hefur verið dagsett 18. júlí 872 og er 18. júlí haldinn hátíðlegur sem „Hafursfjarðardagurinn“, en nákvæm tímasetning orustunnar er þó óþekkt. Sumir sagnfræðingar telja að hún hafi verið háð skömmu eftir 880 og reikna það út frá aldri Haralds.

Smákóngarnir sem Haraldur barðist við, voru skv. Heimskringlu:

  • Eiríkur konungur á Hörðalandi, féll
  • Súlki konungur af Rogalandi, féll ásamt Sóta jarli bróður sínum
  • Kjötvi hinn auðgi, konungur af Ögðum, flýði, Þórir haklangur sonur hans féll
  • Hróaldur hryggur og Haddur hinn harði af Þelamörk (e.t.v. ekki konungar)

Eftir orustuna náði Haraldur yfirráðum í Vestur-Noregi og gat með réttu talið sig konung Noregs. Annars var sameining Noregs ferli sem tók margar aldir. Þegar Haraldur féll frá skiptist landið milli sona hans í nokkur smáríki. Noregur sameinaðist ekki að fullu fyrr en Knútur ríki varð konungur í öllu landinu um 1028 og síðar þegar Haraldur harðráði braut á bak aftur andstöðu höfðingja á Upplöndum eftir 1060. Á þessum tíma réðu danskir konungar miklu Austanfjalls í Noregi. Margt bendir til að smákóngarnir frá Ögðum og Þelamörk hafi í raun verið lénsmenn Danakonungs og verið gerðir út til að brjóta Harald á bak aftur, því að hann ógnaði ítökum Danakonungs á svæðinu og meðfram ströndum Skagerak.

Nútímarannsóknir og minnismerki[breyta | breyta frumkóða]

Kafarar hafa leitað í Hafursfirði að minjum um orustuna, en ekkert hefur fundist. Óvíst er hvar nákvæmlega orustan var, en því hefur verið haldið fram að vígið sem Kjötvi konungur flýði í sé við „Ytrabergið“ í sveitarfélaginu Sola. Þar hefur verið reistur minnisvarði, sem var afhjúpaður af Ólafi konungi á 1100-ára hátíðinni 1972. Árið 1983 var reist minnismerki um Hafursfjarðarorustu við Mylluvík (Møllebukta) innarlega í Hafursfirði: Sverð í kletti.

Á Hafursfjarðardeginum 18. júlí 1872 var reistur minnisvarði, Haraldshaugurinn, við Haugasund í Vestur-Noregi. Þá var haldið upp á það að 1000 ár voru liðin frá Hafursfjarðarorustu. Fullyrt hefur verið að Haraldur hárfagri hafi verið grafinn þar í grennd.

Engar samtímaheimildir eru til um orustuna, og því má draga í efa að hún hafi verið háð. Engu að síður er hún mikilvægur kapítuli í sögu Noregs vegna áhrifa sögunnar á sjálfsmynd Norðmanna.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Slaget i Hafrsfjord“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 23. júní 2009.
  • Krag, Claus (1999): 18. juli 1872 Et hus med mange rom. Arkeologisk museum i Stavanger Rapport 11B s. 505-510 – Arkeologisk museum i Stavanger, Stavanger.
  • Masdalen, Kjell-Olav: Fra Lindesnes til Rygjarbit. Aust-Agder-Arv 2006.