Fara í innihald

Ibn al-Nafis

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Ibn Nafis)
Titilsíða á handriti eftir Ibn al-Nafis

Ala-al-din abu Al-Hassan Ali ibn Abi-Hazm al-Qarshi al-Dimashqi (arabíska: علاء الدين أبو الحسن عليّ بن أبي حزم القرشي الدمشقي ), betur þekktur sem Ibn al-Nafis (arabíska: ابن النفيس ), var arabískur miðaldalæknir (fæddur 1213, dáinn 1288), þekktastur fyrir rannsóknir sínar á hringrás blóðsins í mannslíkamanum.

Ibn al-Nafis fæddist í Damaskus árið 1213, eða þar um bil. Hann lærði læknisfræði við Bimaristan al Noori spítalann þar í borg. Á þessum tíma var Damaskus ein helsta höfuðborg mennta og vísinda í heiminum. Ibn al-Nafis varð vitni að miklum erfiðleikum sem tengdust krossferðunum og innrásum Mongóla í Bagdad. Eyðileggingin sem þetta hafði á allt starf fræðimanna á þessum tíma var gríðarleg og reyndu Ibn al-Nafis og samtíðarmenn hans að endurreisa þann ljóma sem hafði verið yfir íslömsku gullöldinni og tókst það þegar upp var staðið. Þegar Ibn al-Nafis var 23 ára fluttist hann til Kaíró og hóf störf á Al-Nassri sjúkrahúsinu en svo seinna meir á Al-Mausouri sjúkrahúsinu þar sem að hann varð síðar yfirlæknir. Hann naut lífsins í Kaíró, varð ríkur og naut þess að umgangast yfirstéttina sem og ráðandi lækna og aðra meðlimi fræðasamfélagsins. Hann var svo gerður að líflækni Baybars sóldáns[1].

Fræðastörf og arfleifð

[breyta | breyta frumkóða]

Á íslömsku gullöldinni komu fram fræðimenn, vísindamenn og kennarar úr arabaheiminum sem færðu ferska strauma í vísindasöguna. Þeir véfengdu margar af kenningum Grikkja og Rómverja og kynntu til sögunnar margar þeirra kenninga sem lögðu grunninn að nútíma vísindum [2]

Ibn al-Nafis var aðeins 29 ára gamall þegar hann gaf úr sitt mikilvægasta rit, Athugasemdir við líffærafræði í Kanónu Avicenna, sem innihélt byltingarkenndar skoðanir á lungnahringrásinni og hjartanu. Fræðimenn höfðu allt frá annarri öld haldið því fram að blóðið færi frá vinstri hjartaslegli til þess hægri í gegnum ósýnileg göng sem væru á hjartaskiptinni, skilrúminu sem aðskilur hjartahólfin, og blandaðist þar lofti sem byggi til anda sem dreifðist þaðan út um líkamann. Ibn al-Nafis rengir þetta í bók sinni og segir að skiptin sem aðskilur vinstri og hægri hjartaslegla væri ekki hol og þar af leiðandi gæti blóð ekki flust þar á milli. Þar sem það er enginn samgangur milli hægri og vinstri hjartaslegla, og það eru engin ósýnileg göng þar á milli, þá fer blóðið frá hægra hólfi niður með slagæðinni niður í lungun dreifist þar um lungun og blandast lofti. Blóðið fer svo aftur til vinstri hjartahólfsins þar sem því er dreift út í líkamann. Ibn al-Nafis sagði einnig að það hlyti að vera samgangur á milli lungnaslagæðar og lungnaæða[1][2]

Meðal annarra ritverka Ibn al-Nafis má nefna mjög yfirgripsmikla alfræðibók um læknisfræði sem var stærsta bók síns tíma og er enn þann dag í dag álitin stórverk. Ibn al-Nafis er ekki síst markverður fyrir það að hann brúar í raun stórt bil í læknisfræði milli þess sem átti sér stað á annarri öldinni og þess sem var svo farið að rannsaka á sextándu öld.[2]

Ibn al-Nafis skrifaði ekki bara læknisfræðirit, hann skrifaði einnig bækur um lög, heimspeki, félagsfræði og stjörnufræði. Auk þess skrifaði hann fyrstu arabísku skáldsöguna sem fjallaði um lítið barn sem var alið upp á einangraðri eyðieyju en komst að lokum í samband við umheiminn.[2]

Það er svo skemmtilegt aukaatriði að Ibn al-Nafis komst ekki til vitundar vesturlandabúa fyrr en snemma á 20. öld þegar að ungur Egypti sem var að vinna að doktorsritgerð sinni á bókasafni í Berlín fann handritið að bók Ibn al-Nafis um blóðrásina fyrir tilviljun. Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvort að Michael Servetus sem gaf út bók sína árið 1553 og fjallaði um svipað efni, hafi vitað af Ibn al-Nafis og hvort hann hafi eignað sér eitthvað af því sem Ibn al-Nafis hafði uppgötvað 300 árum áður.[1]

Heimildaskrá

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 A. Shuja. 2011. Ibn Al-Nafis “great writer”. Independent Reviews, jan til mar, 2011. Sótt 22. október 2011 af indepreviews.com[óvirkur tengill]
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 J. B. West. 2008. Ibn al-Nafis, the pulmonary circulation, and the Islamic Golden Age. Journal of Applied Physiology, 105, 1877-1880.