Hvannadalshnjúkur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Hvannadalshnúkur)
Hvannadalshnjúkur

Hæð: 2.109,6 metrar
Staðsetning: Ísland
Fjallgarður: Mið-Atlantshafshryggurinn
Gerð: Eldkeila
Aldur bergs:
Síðasta gos: 1727
Staðsetning Hvannadalshnjúks

Hvannadalshnjúkur eða Hvannadalshnúkur[a] er hæsti tindur eldkeilunnar undir Öræfajökli og jafnframt hæsti tindur Íslands. Samkvæmt mælingum frá 2005 er hæð hans 2.109,6[b] metrar yfir sjávarmáli. Tindurinn er staðsettur innan Vatnajökulsþjóðgarðs og er vinsæll hjá fjallgöngufólki, reyndu sem og óreyndu. Tindurinn er ekki flókinn uppgöngu og þarfnast ekki mikillar reynslu eða tækni í fjallgöngum, gangan krefst samt mikils úthalds þar sem oftast er gengið á tindinn og niður aftur á sama deginum. Hækkunin er rúmir 2000 metrar, gangan tekur oftast 12-14 klst í heild.

Hvannadalshnjúkur hefur tvær almennar uppgönguleiðir. Önnur þeirra, svokölluð Virkisjökulsleið, er fremur erfið og tæknileg, aðallega fyrir reynda fjallagarpa en hin leiðin, upp frá Sandfelli, er öruggari og mun auðveldari. Síðarnefnda leiðin er mjög vinsæl, sérstaklega nú til dags og verður henni hér lýst. Göngunni er skipt í 3 þrep. Fyrsta þrep er venjuleg en frekar brött ganga frá 100 metrum upp í 1100 metra. Þar er áð og farið í línur. Oftast eru línurnar flokkaðar eftir þrótti og hrausti göngumannanna, þ.e.a.s. þeir með mesta hraðann og úthaldið eru saman í línu, á meðan fólk sem vill taka göngunni fremur rólega eru saman. Með þessu kerfi helst gangan í samræmi við getu hvers og eins. Í hverri línu er einn leiðsögumaður sem gengur fremst, sprungur kunna nefnilega að leynast þegar ofar dregur þar sem gangan er núna einungis á jökli það sem eftir er. Annað þrep er frá 1100 metrum upp í 1800 metra, þessi partur af göngunni er mjög einhæfur og reynir á þolinmæði og viljastyrk þátttakenda. Þessi 700 metra hækkun er gengin einungis á mjallhvítum jöklinum þangað til komið er upp á Öræfajökulinn sjálfan, á jafnsléttu. Þar tekur við þriðja og síðasta þrep þar sem gengið er á jafnsléttu í talsverðan tíma og þangað til að komið er að hnjúknum sjálfum. Hann stendur nokkuð sjálfstæður upp úr jöklinum og er um 200 metra hár. Undir hnjúknum þarf að setja á sig brodda vegna þess hversu bratt er síðasta spölinn. Af toppi Íslands er gríðarlega fallegt og gott útsýni ef skyggni er gott. Það sést m.a. til Hrútfjallstinda, Þumals og fleiri fjalla ofan Skaftafell sem virka fremur lítil frá þessu sjónarhorni.

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

  1. Jafn rétt er að skrifa „hnúkur“ og „hnjúkur“. „Hnjúkur“ er sú stafsetning sem notuð er í þeim landshluta sem Hvannadalshnjúkur er (út um Suðausturland, Austurland, og Norðurland) en „hnúkur“ er algengari í Reykjavík, Suðurlandi, og Vesturlandi.[1]
  2. Hæð fjallsins var áður talin 2.119 metrar en samkvæmt mælingu Landmælinga Íslands í ágúst 2005 er hann 2.109,6 metrar.[2]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Hvort er réttara að skrifa Kárahnúkar eða Kárahnjúkar og eins Hvannadalshnúkur eða Hvannadalshnjúkur?“. Vísindavefurinn. Sótt 16. mars 2021.
  2. „Hvannadalshnjúkur 2110 metrar“. www.mbl.is. Sótt 16. mars 2021.