Hugleikur (leikfélag)
Hugleikur er leikfélag áhugafólks um leiklist. Það var stofnað í Reykjavík árið 1984. Félagið hefur þá sérstöðu meðal íslenskra leikfélaga að leikverkin sem það hefur sýnt eru nánast öll samin af meðlimum hópsins og því alfarið sprottin úr íslensku þjóðlífi. Oft á tíðum hefur verið leitað fanga í þjóðsagnaarfinum, í sögu þjóðarinnar og í gullaldarbókmenntunum en nútímaleg minni hafa einnig verið tekin til meðferðar. Söngur og tónlist hafa jafnan sett svip sinn á sýningar hópsins. Hver sem vill getur orðið félagi í Hugleik. Tilgangur félagsins er að skapa vettvang fyrir áhugafólk um leiklist og gefa því tækifæri til að stíga á svið eða starfa að öðrum þáttum leiksýninga.
Á umliðnum árum hafa félagar í Hugleik sett upp tugi leikrita í fullri lengd og hundruð stuttverka. Mörg leikrita félagsmanna hafa verið sýnd af áhugaleikfélögum um land allt.
Heilskvöldssýningar Hugleiks:
1984 – Bónorðsförin
1985 – Skugga-Björg
1986 – Sálir Jónanna
1987 – Ó, þú...
1988 – Um hið átakanlega, sorglega og dularfulla hvarf ungu brúðhjónanna Indriða og Sigríðar daginn eftir brúðkaupið og leitina að þeim
1989 – Ingveldur á Iðavöllum
1990 –Yndisferðir, Aldrei fer ég suður
1991 – Sagan um Svein sáluga Sveinsson í Spjör og samsveitunga hans
1992 – Fermingarbarnamótið
1993 – Stútungasaga, Ég bera menn sá
1994 – Hafnsögur
1995 – Fáfnismenn
1996 – Páskahret
1997 – Embættismannahvörfin
1998 – Sálir Jónanna ganga aftur
1999 – Nóbelsdraumar, Völin og kvölin og mölin
2000 – Ég sé ekki Munin
2001 – Víst var Ingjaldur á rauðum skóm
2002 – Kolrassa
2003 – Undir hamrinum
2004 – Sirkus, Kleinur, Memento mori (með Leikfélagi Kópavogs)
2005 – Patataz, Enginn með Steindóri, Jólaævintýri Hugleiks
2006 – Systur, Lán í óláni, Einu sinni var...
2007 – Epli og eikur, Bingó (með Leikfélagi Kópavogs)
2008 – Útsýni, 39½ vika
2009 – Ó, þú aftur...
2010 – Hannyrðir og hagleiksmenn, Rokk
2011 – Helgi dauðans, Einkamál.is, Gamli góði Villi – Sjeikspír í höndum Hugleiks
2012 – Sá glataði, Læknisleikir - Tsékhov í hugleikrænni atferlismeðferð
2013 – Spilaborgir
2014 – Stund milli stríða
2015 – Sæmundur fróði (með Tónlistarskólanum í Reykjavík), Stóra hangikjöts-, Orabauna- og rófumálið: Taðreyktur sakamálatryllir
2016 – Feigð
2018 - Hráskinna
2019 - Gestagangur
2023 - Húsfélagið
Hugleikur fékk viðurkenningu á degi íslenskrar tungu árið 2006 og leiksýningin Rokk var valin athyglisverðasta áhugaleiksýningin 2009-10 af Valnefnd Þjóðleikhússins. Sömu sögu er að segja um Stund milli stríða sem hlaut þessa viðurkenningu 2014.
Aðsetur og æfingarhúsnæði Hugleiks er á Langholtsvegi 109-111 í Reykjavík. Núverandi formaður er Sesselja Traustadóttir.