Hoyvíkursamningurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hoyvíkursamningurinn (færeyska: Hoyvíkssáttmálin) er fríverslunarsamningur á milli Íslands og Færeyja sem kenndur er við bæinn Hoyvík í Færeyjum þar sem skrifað var undir hann 31. ágúst 2005.

Samningurinn er sá fyrsti sinnar tegundar sem færeysk stjórnvöld gera við annað ríki og er einnig víðtækasti fríverslunarsamningurinn sem íslensk stjórnvöld hafa gert. Samningurinn tekur meðal annars til vöruviðskipta, þjónustuviðskipta, frjálsrar farar fólks og búseturéttar, stofnsetningarréttur, fjármagnsflutninga og fjárfestinga, samkeppni, ríkisaðstoðar og opinberra innkaupa. Þá tekur samningurinn einnig til fullrar fríverslunar með landbúnaðarvörur en Ísland hefur aldrei áður samið um fulla fríverslun með landbúnaðarvörur. Samningurinn leggur einnig bann við mismunun af öllu tagi.

Takmarkanir á fjárfestingum útlendinga í sjávarútvegi eru þó undanþegnar í samningnum og eru áfram í gildi í báðum löndunum.

Samningnum er einnig ætlað að efla samvinnu landanna á öllum sviðum sem snerta hagsmuni þeirra, þar á meðal má nefna menntun, menningu, samgöngur, orkumál, umhverfismál, heilbrigðismál o.s.frv.

Færeyska Lögþingið samþykkti samninginn 2. maí 2006 með 24 atkvæðum gegn 2 en 4 sátu hjá. Alþingi samþykkti hann 3. júní sama ár með öllum greiddum atkvæðum (46).[1] Einnig þarf danska þingið að staðfesta hann til þess að hann taki gildi.

Á ársfundi Vestnorræna ráðsins 21. ágúst 2006 var samþykkt ályktun þess efnis að kannaðir yrðu möguleikarnir á aðild Grænlands að samningnum, þannig yrði til vestnorrænt fríverslunarsvæði.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Ræða Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra á viðskiptadegi, í Norðurlandahúsinu í Færeyjum 6. apríl 2006“. Sótt 30. júlí 2006.
  • „Færeyska lögþingið samþykkir fríverslunarsamning við Ísland“. Sótt 30. júlí 2006.
  • „Ferill málsins á Alþingi“. Sótt 30. júlí 2006.
  • „Føroyar og Ísland gerast eitt búskaparøki“. Sótt 30. júlí 2006.
  1. [1]

Tengill[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.