Stríð Frakklands og Hollands
Stríð Frakklands og Hollands eða Hollenska stríðið (franska: La Guerre de Hollande, hollenska: Hollandse Oorlog) var stríð sem Frakkland, Svíþjóð, Biskupsfurstadæmið Münster, Erkibiskupsdæmið Köln og England háðu gegn Hollenska lýðveldinu og bandamönnum þess 1672-8. Stríðinu lauk með friðarsamningum í Nijmegen sem voru undirritaðir frá ágúst til desember 1678. Helsta ástæða stríðsins var að Loðvík 14. leit á Hollendinga sem hindrun í því að leggja Spænsku Niðurlönd undir Frakkland og minntist þess líka að þeir höfðu aðstoðað Spán í Valddreifingarstríðinu 1667-8. England leit svo á að hollenski flotinn ógnaði öryggi þess og Svíar samþykktu að ráðast inn í Brandenborg ef þeir hygðust styðja Hollendinga. Englendingar hættu síðan við þátttöku í stríðinu 1674 en þrátt fyrir það unnu Frakkar mikilvæga sigra bæði á landi og sjó. Við friðarsamningana fengu þeir framgengt kröfum sínum um hluta af Spænsku Niðurlöndum, meðal annars héraðið Franche-Comté.
Kristján 5. hugðist nýta sér að Svíar voru uppteknir í bardögum við Brandenborg til að leggja Skán aftur undir Danmörku og réðist á Svíþjóð 1675. Þetta stríð var kallað Skánska stríðið. Við friðarsamninga ári eftir Nijmegen fengu Svíar öll lönd sín aftur.