Fara í innihald

Hey

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Múgi og rúllur í Noregi

Hey (eða taða) kallast þurrkuð grös og nytjajurtir sem nýtt eru til fóðrunar gripa, á Íslandi einkum nautgripa, sauðfjár og hesta. Hey nýtist einnig sem undirburður og til landgræðslu. Heyleifar kallast moð. Algengar tegundir sem nýttar eru í hey eru innan grasaættarinnar en einnig belgjurtir og jurtir af krossblómaætt. Vinna við heyannir kallast heyskapur og þegar honum er lokið eru haldin töðugjöld.

Framleiðsla[breyta | breyta frumkóða]

Menn moka lausu heyi á vörubíl árið 1936

Bóndinn reynir að slá túnin sín þegar útlit er fyrir þurrk. Besta fóðurgildið fæst þegar grösin eru enn í geldvext, það er að segja áður en grasið skríður og fer í kynvöxt. Hey skiptist í tvo flokka eftir verkun:

Þurrhey[breyta | breyta frumkóða]

Þurrhey hefur þurrefnainnihald milli 60 til 85% og er gjarnan bundið í bagga eða keyrt laust inn í hlöðu. Í hlöðunni er notuð súgþurrkun til að þurrka það enn meira. Er heyið er hirt laust er notaður blásari til að blása heyinu inn í hlöðuna. Slíkur blásari hefur gjarnan dreifikerfi svo ekki þarf að moka heyinu til með handafli. Baggafæriband er notað við baggana og er þeim raðað með handafli.

Blásarinn nýtist bæði til að blása inn lausu heyi og til að þurrka heyið eftir að það kemur í stabbann. Ef ekki á að nýta súgþurrkun verður heyið að vera 83-85% þurrt áður en það kemur í hlöðuna til að það verði ekki fyrir skemmdum af völdum myglusveppa og hitamyndunar örvera.

Á hlöðugólfinu er ýmist grindur eða stokkar sem heyið liggur á og er loftinu blásið undir þá. Það stígur síðan upp í gegnum heyið og þurrkar það á leið sinni upp og út. Súgþurrkunarstokkar, sem leiða loftið frá blásara í heystabba, eru ýmist niðurgrafnir undir miðju hlöðunnar endilangri eða meðfram langvegg. Ólíkar útfærslur eru á kerfunum en þau virka á svipaðan hátt. Loftið sleppur loks út up stromp á þaki hlöðunnar.

Vothey[breyta | breyta frumkóða]

Vothey (eða súrhey) er ýmist verkað í súrheysturn, rúllur eða (flat)gryfjur. Við votheysverkun fæst heildarverkun á allt hey - sem dregur úr fóðurbreytingum. Þetta á þó ekki við verkun í rúllur, því hver rúlla verkast ólíkt. Algengt þurrefnisinnihald votheys er 25 til 50% en rúllur með grænfóðri geta verið enn blautari.

Heyi er ýmist blásið í turnana eða er sett upp með færibandi. Á hverjum turni eru svo göt þar sem er hægt að koma heyinu út um. Í rúllurnar er allt hey bundið með bindivél og lang oftast pakkað í plast. Í gryfjur flytur maður heyið með sjálfhleðsluvagni og er grasið þá ýmist slegið með sláttutætara, sem kastar því strax upp á vagn, eða á „hefðbundinn hátt“ þar sem heyið er slegið í sér ferð og síðan tekið upp með vagni.

Þurrkun[breyta | breyta frumkóða]

Forþurrkun á velli er algengasta tegund heyþurrkun en hún byggir á varmafræðilegri þurrkun þar sem vatni er breytt í gufu með sólarorku. Vindur sér síðan um að flytja raka á brott frá flekknum. Önnur aðferð er sú aflfræðilega aðferð sem er minna notuð en þar er vatni pressað úr heyinu. Hún dugar aðeins skammt.

Forþurrkun á velli[breyta | breyta frumkóða]

Forþurrkun á velli er lang algengasta aðferðin við þurrkun heysins um allan heim. Hún byggir á því að breiða heyið til þerris og er sólarorkan notuð til að flytja vatnið brott úr plöntufrumunum. Vindur sér um að flytja raka loftið á brott og bera að nýtt, þurrt loft sem getur tekið til sín raka. Þurrkvöllurinn skiptir miklu máli í þessari aðferð en grasstubbarnir, sem ekki voru slegnir, þjóna þeim tilgangi að lofta undir heyið við þurrkun. Þegar heyið hefur náð tilteknum þurrefnainnihaldi er það annað hvort bundið eða flutt til frekari þurrkunar; gjarnan súgþurrkunar. Forþurrkun er einnig notuð við votheysgerð en þá er framhaldandi þurrkun ekki notuð.

Súgþurrkun[breyta | breyta frumkóða]

Eiginleiki Blásari Vifta
Loftmagn Minna Meira
Loftþrýstingur Meiri Minni
Aflnýting Minni Meiri
Hæð stabba Meiri Minni

Súgþurrkun byggir á því að heyinu er keyrt í hlöðu og það þurrkað með blásara eða viftu. Undir hlöðugólfinu er sérstakt stokka- eða grindakerfi, þar sem lofti er blásið undir og leitar það upp í gegnum heystabbann og þurrkar það. Þetta er mjög mikilvægt til að taka allan raka úr heyinu og ef til vill einhverja hitamyndun sem myndast við örverustarfsemi. Sérstakt þurrkbelti myndast í stabbanum og leitar hann ofar eftir því sem heyið þornar. Við súgþurrkunina eru ýmist notaðar viftur eða miðflóttaaflsblásarara. Eiginleikar þeirra eru ólíkir eins og sést í töflunni.

Hesjur[breyta | breyta frumkóða]

Hey þurrkað á hesjum

Í Noregi er siður að þurrka hey á svokölluðum hesjum, griðingalengjum sem slegið er upp á sláttuteigunum í miðri ljánni. Hesjurnar eru oftast lóðréttir staurar (með vír eða láréttum stöngum á milli) og eru einkum til að þurrka hey en líka korn. Þar er heyið geymt fram eftir sumri og síðar flutt beint í búpening eða í hlöðu til geymslu.

Hirðing[breyta | breyta frumkóða]

Algengustu aðferðirnar við hirðingu er að keyra heim í hlöðu, flatgryfju, turn eða binda í rúllubagga.

Laust þurrhey[breyta | breyta frumkóða]

Lausu þurrheyi er keyrt heim á heyhleðsluvagni eða vörubílspalli og það flutt inn í hlöðu ýmist með færibandi eða heyblásara og dreifikerfi. Það er þurrkað með súgþurrkun og skornir passlegir teningar í hvert skipti sem gefið er. Heyinu er jafnað um hlöðuna með heydreifikerfi.

Smábaggar í hlöðu[breyta | breyta frumkóða]

Smábaggar (gjarnan 80*45*30) eru bundnir með garni og þeir þurrkaðir með súgþurrkun á sama hátt og laushey. Baggarnir eru fluttir inn í hlöðu á færibandi og þeir lagðir á hliðina. Að auki eru lögin krosslögð til að fá sem besta nýtingu á súgþurrkunarkerfið. Þurrkbeltið í heyinu verður flóknara því ásamt því að eitt stór myndast í stabbanum myndast í hverjum og einum bagga sér þurrkbelti. Þannig geta baggar verið skraufaþurrir að utan en myglaðir eða ornaðir að innan.

Hey í turnum og gryfjum[breyta | breyta frumkóða]

Á 20. öldinni var vothey verkað í steinsteypta turna og gryfjur um allan heim og er víða enn stundað. Einnig eru til stálturnar þar sem heyið er gjarnan 50-60% þurrt og saxað - slíkt hey kallast heymeti (e. haylage af hay (þurrhey) og silage (vothey)) og turnarnir heymetisturnar. Þeir hafa gjarnan losunarbúnað í botninn.

Vothey er hirt með sjálfhleðsluvagni og því keyrt heim að turni eða gryfju. Þar er því blásið upp í turninn eða notað færiband til að ferja það upp. Gjarnan er notaður svokallaður saxblásari sem saxar heyið um leið og hann blæs því upp. Þegar allt hey sumarsins er komið í turninn er mikilvægt að fergja það, gjarna með votheyssteinum sem voru steinsteyptar einingar sem pössuðu ofan í turninn, og loks útiloka aðstreymi súrefnis sem annars myndi spilla heygæðum.

Á sama hátt er fyllt í flatgryfjur nema þá þarf ekki blásara eða færibandi. Traktor er notaður til að þjappa í gryfjuna til að útiloka súrefni úr fóðrinu. Ofan á gryfjunar er svo lagður plastdúkur og ýmislegt lauslegt notað sem farg s.s. dekk eða steinar.

Við verkun í turna og gryfjur þarf að passa að afrennsli fóðursins fari ekki út í viðkvæm vatnsból eða læki og ofauðgi (mengi) lífríkið þar.

Hey í plasti[breyta | breyta frumkóða]

Rúlluhey[breyta | breyta frumkóða]

Verkun í rúllur breiddist út á 9. og 10. áratug 20. aldar vegna þess hve hagkvæmt það var að geta geymt heyið úti við. Rúlluhey er ýmist mikið eða lítið forþurrkað eftir því hvernig nýtingin er ætluð. Rúllurnar eru bundnar með garni eða neti og hjúpaðar plasti sem myndar lofttæmi. Þannig getur heyið geymst í að minnsta kosti 2 ár án þess að eyðileggjast. Gallinn við rúllurnar er að flatarmál geymslunnar er mun meira en t.d. í turni eða gryfju og á súrefni því „fleiri“ leiðir inn að heyinu.

Ferbaggar[breyta | breyta frumkóða]

Sérstakar ferbaggavélar þróuðust eftir að rúlluvélarnar komu á markaðinn og eru litlu baggabindivélarnar fyrirmynd þeirra. Bagginn myndast í baggahólfinu og sér stimpill um að þjappa í baggana. Þeir eru bundnir með garni og pakkað, stundum tveimur saman, í plast.

Hey í plastpylsum[breyta | breyta frumkóða]

Til er sú aðferð að verka hey í svokallaðar plastpylsur. Þá er sérstakar mötunar- og þjöppunarvélar notaðar til að þrýsta fersku eða forþurrkuðu heyi í plastpylsur. Slíkar pylsur er hægt að geyma úti eins og rúllur og stórbagga. Pylsurnar geta verið 45-60 metra langar og þurfa helst að hvíla á sléttu undirlagi, fjarri jarðvatni.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

  • Bjarni Guðmundsson (2002). Heyverkun. Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Hvanneyri.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]