Hermann Lindemann
Hermann Lindemann (29. október 1910 – 23. júlí 2002) var þýskur knattspyrnumaður og þjálfari Knattspyrnufélagsins Fram.
Ævi og störf
[breyta | breyta frumkóða]Hermann Lindemann lék knattspyrnu í um aldarfjórðung, með ýmsum liðum í heimalandi sínu. Sumarið 1938 var hann í þýsku úrvalsliði sem heimsótti Ísland, en um þær mundir var hann framherji hjá Eintracht Frankfurt. Í kjölfar heimsóknarinnar vaknaði sú hugmynd hjá forsvarsmönnum Fram að fá Lindemann til að þjálfa Framliðið sumarið 1939.
Framarar urðu Íslandsmeistarar þetta sumar, í fyrsta sinn frá árinu 1925. Jafnframt héldu þeir í mikla keppnisför til Danmerkur í tengslum við afmælismót Danska knattspyrnusambandsins, þar sem leikið var við úrvalslið nokkurra landshluta. Lindemann tók þátt í nokkrum þeirra viðureigna sem leikmaður.
Eftir að knattspyrnuferlinum lauk, sneri hann sér að þjálfun og sinnti frá starfi frá 1946 til 1970. Vestur-Þjóðverjar stofnuðu ekki landsdeild sína, Bundesliguna, fyrr en 1963. Lindemann þjálfaði í eitt keppnistímabil í henni, veturinn 1969-70, þegar hann stýrði hinu kunna félagi Borussia Dortmund. Þá kom hann liðum sínum í þrígang í úrslitaleik vestur-þýsku bikarkeppninnar, en tapaði í öll skiptin: TSV Alemannia Aachen 1953 og Fortuna Düsseldorf 1957 & 1958.