Fara í innihald

Heilög Barbara

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Altaristafla með myndum af heilagri Barböru í Varsjá.

Heilög Barbara er dýrlingur og píslarvottur í Kristni. Nafn hennar kemur fyrst fram í rómverskum heimildum frá 7. öld og dýrkun hennar má rekja til 9. aldar. Samkvæmt dýrlingasögum um hana var hún dóttir heiðingja sem nefnist Díoskorus. Faðir hennar læsir hana í turni til að loka hana frá umheiminum. Hún var þá orðin kristin á laun og hafnaði bónorði sem faðir hennar bar upp við hana. Þegar faðir hennar kemst að því að hún er kristin hyggst hann drepa hana. Hún er dregin fyrir héraðsstjórann sem lætur pynta hana á hryllilegan hátt en sár hennar gróa fyrir kraftaverk. Að lokum er hún dæmd til dauða og faðir hennar heggur sjálfur af henni höfuðið. Hann er síðan sleginn eldingu. Kraftaverk eiga sér síðan stað við gröf Barböru.

Barbara er oft sýnd með hlekki við turn eða haldandi á turni. Stundum heldur hún á pálmagrein.

Barbara var dýrkuð á miðöldum og var verndardýrlingur námumanna, byssusmiða, fallbyssuliða og annarra sem unnu með sprengiefni og áttu því á hættu að bíða bráðan bana við vinnu sína. Hún var ein af hjálpardýrlingunum fjórtán sem gott þótti að heita á. Enn í dag er hún álitin verndardýrlingur hermanna og jarðfræðinga. Seinna dró úr átrúnaði á hana þar sem saga hennar var ekki talin eiga sér neina stoð í veruleikanum. Árið 1969 var hún fjarlægð úr dýrlingadagatali kaþólsku kirkjunnar. Messudagur hennar er 4. desember.

Í Kapelluhrauni við Straumsvík eru tóftir gamallar kapellu sem talið er að hafi verið helguð heilagri Barböru því Barbörulíkneski fannst þar við fornleifakönnun. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík í eldgosi árið 1151 og yfir veginn sem lá suður með sjó og til Vatnsleysustrandar. Nýr vegur var síðan ruddur yfir hraunið og þá hefur kapellan verið reist ferðamönnum til halds og trausts. Barbara hefur þótt eðlileg til áheita gegn eldgangi og jarðeldi. Íslenskir jarðfræðingar hafa haldið upp á heilaga Barböru og lengi var einskonar Barbörusöfnuður til á Orkustofnun og ÍSOR sem hélt árlegar Barbörusamkomur á Barbörumessu eða þar um kring.[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Jarðfræðingar halda Barbörumessu“. Morgunblaðið. 4. desember 1998. Sótt 2. janúar 2020.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.