Fara í innihald

Kapelluhraun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kapelluhraun (syðsti hluti þess nefnt Nýibruni) er hraun á norðurhluta Reykjanesskaga sunnan Hafnarfjarðar hjá Straumsvík og er hluti af hraunum sem runnu árið 1151 í Krýsuvíkureldum. Kapelluhraun er úfið apalhraun og rann úr gossprungu sem var alls um 25 km löng. Sunnan á skaganum rann þá einnig Ögmundarhraun í sjó fram. Kapelluhraun rann aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Í sama gosi rann hraun frá röð minni gíga sem liggur meðfram Undirhlíðum og norður um Gvendarselshæð. Rann það m.a. niður í Kaldárbotna. Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu.

Kapelluhraun er nefnt svo eftir lítilli tóft þar sem var kapella. Um miðja 20. öldina fannst þar lítið líkneski af heilagri Barböru en hún var sögð góð til áheita gegn eldsgangi hvers konar. Kapellan stóð í miðjum vegarslóða sem menn höfðu rutt gegnum hraunið en hann hefur nú verið eyðilagður með öllu að undanskildum tuttugu metra kafla við rústir kapellunnar. Kapellutóftin er á fornminjaskrá.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.