Hálseitlar
Hálseitlar (stundum nefnt eitlur, kverkeitlur, eða hálskirtlar) eru eitlar í hálsi og koki. Þeir eru hluti af sogæðakerfinu og ónæmiskerfinu. Hlutverk þeirra er að kynna framandi efni fyrir ónæmisfrumunum sem búa í eitlunum, ónæmisfrumurnar geta þá ræst ónæmissvar ef þær halda að efnið geti verið sýkill. Þar sem hálseitlarnir sjá þau framandi efni sem við öndum að okkur og kyngjum er algengt að sýking komist í þá og að þeir verði bólgnir.[1]
Bólga í hálseitlum kallast hálseitlabólga og er undirflokkur hálsbólgu. Hálseitlar verða oft bólgnir og þrútna við kvef vegna veirusýkingar, streptókokka-sýkingu, einkirningasótt, barnaveiki og fleiri sýkingar.
Hjá þeim sem fá endurteknar hálseitlasýkingar er mögulegt að fjarlægja eitlana. Aðgerðin kallast hálseitlataka (eða hálskirtlataka). Hálseitlataka er mjög umdeild aðgerð þar sem ávinningurinn er oft vægur eða skammvinnur, aðgerðin er ekki áhættulaus, og vísbendingar eru um að aðgerðin leiði til verra ónæmiskerfis, sér í lagi hjá börnum. Vegna þessa er hálseitlataka ekki jafn algeng og hér áður fyrr.[2][3]
Hálseitlar eru oft nefndir hálskirtlar, en mælst er gegn þeirri notkun þar sem þetta eru eitlar (hluti ónæmiskerfisins) en ekki kirtlar (líffæri sem seyta efni).[1]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hver er munurinn á eitlum og kirtlum?“ Vísindavefurinn, 9. febrúar 2006
- ↑ Windfuhr JP, Chen YS, Remmert S (febrúar 2005). „Hemorrhage following tonsillectomy and adenoidectomy in 15,218 patients“. Otolaryngology--Head and Neck Surgery. 132 (2): 281–6. doi:10.1016/j.otohns.2004.09.007. PMID 15692542.
- ↑ Østvoll E, Sunnergren O, Ericsson E, Hemlin C, Hultcrantz E, Odhagen E, Stalfors J (mars 2015). „Mortality after tonsil surgery, a population study, covering eight years and 82,527 operations in Sweden“. European Archives of Oto-Rhino-Laryngology. 272 (3): 737–43. doi:10.1007/s00405-014-3312-z. PMID 25274044.