Gulvestungar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Gulu vestin)
Mótmælasamkoma gulvestunga í Vesoul í austurhluta Frakklands.

Gulvestungar (franska: Gilets jaunes) eru frönsk mótmælahreyfing sem hafa reglulega mótmælt stjórnarstefnum Emmanuels Macron Frakklandsforseta frá því í október árið 2018. Mótmælin eru kennd við gul endurskinsvesti sem mótmælendurnir klæðast, en samkvæmt frönskum lögum verða slík vesti að vera í öllum bílum. Mótmælaalda gulu vestanna hefur breiðst út til nokkurra nágrannaríkja Frakklands, meðal annars til Belgíu.[1]

Í upphafi voru mótmælin gegn nýjum eldsneytisskatti sem stjórn Macrons hugðist setja en fljótlega tóku mótmælin á sig mun breiðari mynd og hafa almennt beinst gegn háum kostnaði lifnaðar, hárri skattbyrði verkastétta og lágum launum í Frakklandi.[2] Mótmælahreyfingin er ómiðstýrð og rekur uppruna sinn til samfélagsmiðla eins og Facebook. Þar sem hreyfingin lýtur engri ákveðinni forystu er stefna hennar óljós og kröfur hennar mjög á reiki.[3] Í sumum tilfellum hafa mótmælendurnir reynst ósammála innbyrðis um markmið hreyfingarinnar.[4] Andstæðingar Macrons bæði lengst til hægri, þar á meðal Marine Le Pen, og lengst til vinstri, þar á meðal Jean-Luc Mélenchon, hafa lýst yfir stuðningi við hreyfinguna.

Mótmælin hafa leitt til þess að hætt var við eldsneytisskattinn sem var kveikjan að hreyfingunni.[5] Í ávarpi til þjóðarinnar lofaði Macron forseti jafnframt 100 evra hækkun á lágmarkslaunum og að fallið yrði frá áætlunum um aukna skattlagningu á lægstu tekjuhópa landsins.[6] Mótmælin hafa þó haldið áfram.[7]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „„Gulu vest­in" mót­mæla í Brus­sel“. mbl.is. 8. desember 2018. Sótt 15. desember 2018.
  2. „Verslunargötur helstu túristaborgar heims í herkví rétt fyrir jól“. Kvennablaðið. 10. desember 2018. Sótt 15. desember 2018.
  3. Egill Helgason (11. desember 2018). „Hin afskaplega ósamstæða stefna Gulu vestanna“. DV. Sótt 15. desember 2018.
  4. Egill Helgason (9. desember 2018). „Gulu vestin og vandi Macrons“. DV. Sótt 15. desember 2018.
  5. Þórgnýr Einar Albertsson (7. desember 2018). „Fastur á milli steins og sleggju“. Vísir. Sótt 15. desember 2018.
  6. „Lof­ar launa­hækk­un­um og skattaí­viln­un­um“. mbl.is. 10. desember 2018. Sótt 15. desember 2018.
  7. „Gulu vest­in safn­ast sam­an í Par­ís“. mbl.is. 15. desember 2018. Sótt 15. desember 2018.