Jean-Luc Mélenchon

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Jean-Luc Mélenchon
Jean-Luc Mélenchon
Jean-Luc Mélenchon árið 2017.
Fæddur 19. ágúst 1951 (1951-08-19) (68 ára)
Tanger, Marokkó
Starf/staða Stjórnmálamaður
Stjórnmálaflokkur Sósíalistaflokkurinn (1977–2008)
Vinstriflokkurinn (2008-2016)
Óbugað Frakkland (2016-)
Undirskrift
Heimasíða https://melenchon.fr

Jean-Luc Mélenchon (f. 19. ágúst 1951) er franskur stjórnmálamaður og formaður vinstriflokksins Óbugaðs Frakklands (franska: La France insoumise eða FI).

Mélenchon gekk í franska Sósíalistaflokkinn árið 1976. Hann var kjörinn í sveitarstjórn Massy árið 1983, héraðsstjórn Essonne árið 1985 og á franska þingið árið 1986. Hann var menntamálaráðherra Frakklands frá 2000 til 2002 í ríkisstjórn Lionels Jospin.

Mélenchon var meðlimur í vinstri væng Sósíalistaflokksins þar til á flokksþingi flokksins í Reims árið 2008. Á þinginu lýsti Mélenchon því yfir að hann hyggðist segja sig úr flokknum og stofna sinn eigin flokk, Vinstriflokkinn (franska: Parti de gauche eða PG). Mélenchon var meðformaður Vinstriflokksins til ársins 2014.

Mélenchon var kjörinn á Evrópuþingið fyrir Vinstrifylkinguna (franska: Front de gauche), kosningabandalag Vinstriflokksins og Kommúnistaflokksins, og endurkjörinn árið 2014. Mélenchon bauð sig fram til forseta fyrir Vinstrifylkinguna árið 2012 og lenti í fjórða sæti í fyrstu umferð, með 11,10% atkvæða.[1] Árið 2016 stofnaði Mélenchon flokkinn Óbugað Frakkland og bauð sig fram til forseta á ný. Hann hlaut 19,58% atkvæða og lenti aftur í fjórða sæti í fyrri umferðinni.

Eftir kosningarnar var Mélenchon kjörinn á franska þingið fyrir fjórða kjördæmi Bouches-du-Rhône[2] og gerðist leiðtogi nýs þingflokks Óbugaðs Frakklands. Hann hefur verið áberandi rödd í stjórnarandstöðunni gegn Emmanuel Macron Frakklandsforseta.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Décision Déclaration premier tour présidentielle 2012 du 25 avril 2012“ (franska). 26. apríl 2012. Sótt 7. desember 2018.
  2. Élections législatives de 2017, interieur.gouv.fr