Jean-Luc Mélenchon

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jean-Luc Mélenchon
Jean-Luc Mélenchon árið 2017.
Fæddur19. ágúst 1951 (1951-08-19) (72 ára)
StörfStjórnmálamaður
FlokkurSósíalistaflokkurinn (1977–2008)
Vinstriflokkurinn (2008-2016)
Óbugað Frakkland (2016-)
Vefsíðahttps://melenchon.fr
Undirskrift

Jean-Luc Mélenchon (f. 19. ágúst 1951) er franskur stjórnmálamaður og formaður vinstriflokksins Óbugaðs Frakklands (franska: La France insoumise eða FI).

Mélenchon gekk í franska Sósíalistaflokkinn árið 1976. Hann var kjörinn í sveitarstjórn Massy árið 1983, héraðsstjórn Essonne árið 1985 og á franska þingið árið 1986. Hann var menntamálaráðherra Frakklands frá 2000 til 2002 í ríkisstjórn Lionels Jospin.

Mélenchon var meðlimur í vinstri væng Sósíalistaflokksins þar til á flokksþingi flokksins í Reims árið 2008. Á þinginu lýsti Mélenchon því yfir að hann hyggðist segja sig úr flokknum og stofna sinn eigin flokk, Vinstriflokkinn (franska: Parti de gauche eða PG). Mélenchon var meðformaður Vinstriflokksins til ársins 2014.

Mélenchon var kjörinn á Evrópuþingið fyrir Vinstrifylkinguna (franska: Front de gauche), kosningabandalag Vinstriflokksins og Kommúnistaflokksins, og endurkjörinn árið 2014. Mélenchon bauð sig fram til forseta fyrir Vinstrifylkinguna árið 2012 og lenti í fjórða sæti í fyrstu umferð, með 11,10% atkvæða.[1] Árið 2016 stofnaði Mélenchon flokkinn Óbugað Frakkland og bauð sig fram til forseta á ný. Hann hlaut 19,58% atkvæða og lenti aftur í fjórða sæti í fyrri umferðinni.

Eftir kosningarnar var Mélenchon kjörinn á franska þingið fyrir fjórða kjördæmi Bouches-du-Rhône[2] og gerðist leiðtogi nýs þingflokks Óbugaðs Frakklands. Hann hefur verið áberandi rödd í stjórnarandstöðunni gegn Emmanuel Macron Frakklandsforseta.

Í desember árið 2019 var Mélenchon dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að ógna fulltrúum yfirvalda sem höfðu verið að rannsaka styrktargreiðslur til hans. Hann var jafnframt sektaður um átta þúsund evrur.[3]

Mélenchon bauð sig aftur fram í forsetakosningum Frakklands árið 2022. Hann lenti í þriðja sæti í fyrri umferð kosninganna þann 10. apríl á eftir Emmanuel Macron og Marine Le Pen, með 22 prósent atkvæða.[4]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Décision Déclaration premier tour présidentielle 2012 du 25 avril 2012“ (franska). 26. apríl 2012. Sótt 7. desember 2018.
  2. Élections législatives de 2017, interieur.gouv.fr
  3. Atli Ísleifsson (9. desember 2019). „Leiðtogi franskra vinstri öfgamanna dæmdur fyrir að ógna lögreglu“. Vísir. Sótt 9. desember 2019.
  4. Pétur Magnússon (11. apríl 2022). „Meginstraumurinn í frönskum stjórnmálum hruninn“. RÚV. Sótt 23. apríl 2022.