Guðrún frá Lundi
Guðrún Baldvina Árnadóttir (3. júní 1887 – 22. ágúst 1975) sem notaði jafnan höfundarnafnið Guðrún frá Lundi var íslenskur rithöfundur sem var einn vinsælasti og afkastamesti skáldsagnahöfundur þjóðarinnar á sinni tíð.[1] Bækur Guðrúnar seldust jafnan mjög vel og voru lengi útlánahæstu bækur íslenskra bókasafna.
Ferill
[breyta | breyta frumkóða]Guðrún fæddist á Lundi í Stíflu í Fljótum í Skagafirði, ein af ellefu börnum Árna Magnússonar og Baldvinu Ásgrímsdóttur. Hún ólst upp í Lundi til ellefu ára aldurs og kenndi sig jafnan við þann bæ sem rithöfundur. Á unglingsárum átti hún heima á Höfðaströnd og Skaga. Árið 1910 giftist hún Jóni Þorfinnssyni og bjuggu þau lengi á Ytra-Mallandi á Skaga en fluttu til Sauðárkróks árið 1940 og áttu þar heima til æviloka.
Guðrún skrifaði mikið þegar hún var barn og unglingur en ekkert þann tíma sem hún var húsmóðir í sveit. Eftir að hún flutti á Sauðárkrók hóf hún skriftir að nýju og fyrsta bindi Dalalífs, fimm binda skáldsögu hennar (samtals 2189 bls.), kom út árið 1946, þegar Guðrún var 59 ára, og náði miklum vinsældum. Eftir það sendi hún frá sér eina bók á ári allt til 1973, nema árið 1969. Hún skrifaði því samtals 26 bækur en sögurnar eru færri því sumar skáldsagna Guðrúnar voru í nokkrum bindum.
Guðrún sækir efnivið sinn í sveitalífið og allar bækur hennar nema ein gerast í sveit, flestar um eða upp úr aldamótum 1900. Guðrún frá Lundi skrifaði fyrst og fremst sjálfri sér og öðrum til ánægju. Bækur hennar eru þjóðlegar skemmtibókmenntir en um leið raunsæjar og henni þykir takast einstaklega vel að lýsa hversdagslífi og daglegu amstri. Bækur hennar nutu framan af lítils álits meðal bókmenntafræðinga og ritdómara en þær hafa lifað og haldið vinsældum og í rauninni má segja að Guðrún hafi skapað sérstaka bókmenntagrein sem nýtur æ meiri viðurkenningar.
Ritaskrá
[breyta | breyta frumkóða]- Dalalíf, 1946–1951, 5 bindi (1: Æskuleikir og ástir; 2: Alvara og sorgir; 3: Tæpar leiðir; 4: Laun syndarinnar; 5: Logn að kvöldi).
- Afdalabarn, 1950.
- Tengdadóttirin, 1952–1954, 3 bindi (1: Á krossgötum; 2: Hrundar vörður; 3: Sæla sveitarinnar).
- Þar sem brimaldan brotnar, 1955. — Fyrra bindi af tveimur.
- Römm er sú taug, 1956. — Síðara bindi af tveimur.
- Ölduföll, 1957.
- Svíður sárt brenndum, 1958. — Fyrsta bindi af þremur.
- Á ókunnum slóðum, 1959. — Annað bindi af þremur.
- Í heimahögum, 1960. — Þriðja bindi af þremur.
- Stýfðar fjaðrir (3 bindi), 1961–1963.
- Hvikul er konuást, 1964.
- Sólmánaðardagar í Sellandi, 1965. — Fyrsta bindi af þremur.
- Dregur ský fyrir sól, 1966. — Annað bindi af þremur.
- Náttmálaskin, 1967. — Þriðja bindi af þremur.
- Gulnuð blöð, 1968.
- Utan frá sjó (4 bindi), 1970–1973.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1991873 Guðrún fékk 1376 atkv., Nordal 153. Alþýðublaðið, 10. september 1959
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Sigurjón Björnsson: „Guðrún frá Lundi og sögur hennar.“ Skagfirðingabók 31, 2008:6–38.
- „Guðrún Árnadóttir frá Lundi. Af vef Héraðsbókasafns Skagfirðinga“.