Gagnfræðaskóli Reykvíkinga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gagnfræðaskóli Reykvíkinga sem síðar hét Gagnfræðiskóli Vesturbæjar var gagnfræðaskóli í Reykjavík. Hann var stofnsettur 1928 og skólastjóri frá stofnun og til ársins 1944 var Ágúst H. Bjarnason. Skólinn var oft kallaður Ágústarskólinn eftir fyrsta skólastjóranum. Skólinn var einkaskóli en fékk styrk úr ríkis- og bæjarsjóði en var aðallega rekinn af kennslugjöldum sem nemendur greiddu.

Skólinn var stofnaður á sínum tíma vegna aðgangstakmarkana að menntaskólanum en margir nemendur fengu ekki skólavist í menntaskóla, þó þeir hefðu staðist inntökupróf til 1. bekkjar gagnfræðadeildar. Það voru foreldrar og vandamenn þessara nemenda sem settu skólann á stofn og var skipulag hans með sama hætti og gagnfræðadeild Menntaskólans. Fyrsti bekkur var á fyrstu hæð í Iðnskólahúsinu við Tjörnina.

Með nýjum lögum var sú skipan var gerð á gagnfræðanámi að gagnfræðapróf skyldi tekið eftir tveggja ára nám en lærdómsdeildarnámið lengdist samtímis í fjögur ár. Frá hausti 1941 og meðan Gagnfræðaskóli Reykvíkinga starfaði til ársins 1947, var 4. bekkur í skólanum.

Skólinn varð ríkisskóli árið 1947 og nafni hans var breytt frá hausti 1948 í Gagnfræðaskóli Vesturbæjar. Skólinn var þá í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu. Haustið 1958 flutti Gagnfræðiskóli Vesturbæjar að Hringbraut 121 (JL húsið) eftir að Gagnfræðaskólinn á Hringbraut 121 flutti í nýtt húsnæði og breytti um nafn og varð Hagaskóli. Árið 1969 hætti skólinn starfsemi.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]