Fara í innihald

Grænumýrartunga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Grænumýrartunga í Hrútafirði

Grænumýrartunga er eyðibýli í Hrútafirði. Grænumýrartunga var einu sinni helsta kennileiti norðan Holtavörðuheiðar og viðkomustaður ferðamanna. Húsið í Grænumýrartungu var byggt árið 1925 og hafði heimarafstöð (eigin vatnsaflsvirkjun). Þetta var framúrstefnuleg bygging á sínum tíma. Jörðin hefur verið í eyði frá 1967, en síðast bjó sama ætt þarna samfellt í þrjá ættliði um hundrað ára skeið. Í garðinum var eitt elsta grenitré á íslandi. Grænumýrartunga var líka innsti byggði bær í Hrútafirði til 1967. Þá urðu Óspaksstaðir innsti byggði bærinn.

Árið 2003 fékk Slökkvilið Bæjarhrepps í Strandasýslu, gamla íbúðarhúsið í Grænumýrartungu fyrir brunaæfingu. Þakplötur höfðu losnað og einhverjir óprúttnir aðilar höfðu gengið berserksgang þar innan dyra með sleggjum, svo að varasamt gat verið að fara inn í húsið. Stuttu eftir brunaæfinguna var húsið í Grænumýrartungu svo rifið. Eina byggingin sem stendur ennþá er útihús.

Þekktast var býlið Grænumýrartunga sem áfangastaður á leiðinni yfir heiðina og skjól norðan heiðar á árum áður. Sunnan heiðarinnar var Fornihvammur efsti bær í Norðurárdal. Þar var gistihús, sem er horfið fyrir alllöngu. Nú er Holtavörðuheiðin ekki lengur sá farartálmi sem áður var. Þessi tvö býli, hvort sínum megin heiðarinnar, voru eins konar gistihús, viðkomustaðir ferðamanna og landpósta og öruggt skjól í vondum vetrarveðrum.