Fornihvammur
Fornihvammur er eyðibýli efst í Norðurárdal í Borgarfirði og var áður síðasti bær áður en lagt var á Holtavörðuheiði. Þar var um árabil rekið veitinga- og gistihús.
Fornihvammur var gömul eyðijörð í eigu Hvammskirkju í Norðurárdal þegar Einar Gilsson frá Þambárvöllum byggði þar upp að nýju árið 1853. Bærinn varð þegar áningarstaður ferðamanna sem fóru yfir heiðina þrátt fyrir þrengsli og lítil efni ábúenda en árið 1883 byggðu hjónin Davíð Bjarnason og Þórdís Jónsdóttir þar rúmgóðan bæ í því skyni að veita ferðamönnum beina.
Þegar hafið var að gera bílfæran veg norður var ljóst að umferð um Holtavörðuheiði mundi aukast mjög og varð úr að ríkissjóður keypti jörðina og Vegagerðin lét reisa þar gistihús sumarið 1926. Það var svo stækkað 1947 og gátu eftir það 50 manns gist þar og um 150 manns fengið þar mat samtímis. Áætlunarbílar milli Reykjavíkur og Akureyrar áttu þar fastan viðkomustað. Ábúendur í Fornahvammi höfðu jörðina leigulaust gegn því að sjá um rekstur gisti- og veitingahússins, Vegagerðinni að kostnaðarlausu.
Eftir því sem vegirnir bötnuðu fækkaði þó viðkomum í Fornahvammi og umhverfið þótti ekki hafa upp á margt að bjóða fyrir almenna ferðamenn. Svo fór að gistihúsið hætti starfsemi vorið 1974 og jörðin fór í eyði. Þann 5. október 1983 var húsið brennt til grunna því það var talið ónýtt.