Flateyjarskagi
Flateyjarskagi, einnig þekktur sem Gjögraskagi eða Flateyjardalsskagi er skaginn sem liggur á milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa. Grenivík er innarlega á skaganum vestanverðum, en utan hennar og nærliggjandi býla er skaginn allur í eyði. Fram á miðja tuttugustu öld var byggð á skaganum í Fjörðum, á Flateyjardal og Látraströnd, auk Keflavíkur, eins afskekktasta bæjar landsins.
Skaginn var lengst af nafnlaus en í upphafi 21. aldar fór mönnum að þykja þörf á nafni en ekki náðist samkomulag um hvert það skyldi vera. Skaginn skiptist á milli Grýtubakkahrepps, sem nú er í Eyjafjarðarsýslu, og Þingeyjarsveitar og var kosið um nöfn í báðum sveitarfélögum árið 2010. Íbúar Grýtubakkahrepps kusu nafnið Gjögraskagi með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða en í Þingeyjasveit hlaut nafnið Flateyjarskagi langflest atkvæði. Þá var ákveðið að leita álits Örnefnanefndar, sem mælti með nafninu Flateyjarskagi, en fram hefur komið að íbúar Grýtubakkahrepps sætta sig illa við það og er líklegast að bæði heitin verði áfram notuð um skagann.