Giambattista Basile
Giambattista Basile (um 1575 – 23. febrúar 1632) var ítalskt skáld og þjóðsagnasafnari, bróðir söngkonunnar og tónskáldsins Adriana Basile og tónskáldsins Lelio Basile.
Hann fæddist í Kampaníu en gerðist sem ungur maður málaliði hjá Lýðveldinu Feneyjum og vann sem hermaður í nýlendu þess, Krít. Þar kynntist hann bókmenntamönnum og hóf ritstörf. Um 1611 fylgdi hann systur sinni til Mantúu og gerðist hirðmaður Vincenzo Gonzaga.
Síðar sneri hann aftur til Napólí og bjó þar til dauðadags. Adriana, systir hans, lét gefa þar út eftir dauða hans verkið sem hann er þekktastur fyrir, Lo cunto de li cunti eða Fimmdægru, þar sem tíu sagnakonur segja hver sína sögu í fimm daga, alls fimmtíu sögur. Hann er talinn hafa byggt sögurnar á ævintýrum sem hann heyrði á ferðum sínum fyrir Feneyjar eða smásögum unnum upp úr þeim. Sögurnar eru skrifaðar á mállýsku Napólíbúa, napóletönsku. Þær eru ritaðar í stíl hirðbókmennta barokktímans. Sumar af þessum sögum rötuðu síðar inn í sagnasöfn franskra rithöfunda á 17. og 18. öld á borð við Madame d'Aulnoy og Charles Perrault, og þjóðsagnasafn Grimmsbræðra á 19. öld. Sem dæmi má nefna sögurnar Mjallhvít og dvergarnir sjö (La schiavottella), Öskubuska (Cenerentola), Þyrnirós (Sole, Luna e Talia) og Garðabrúða (Petrosinella).