Fráfærur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Fráfærur kallaðist það þegar ær og lömb voru aðskilin á vorin til þess að unnt væri að nytja mjólkina. Þær voru tíðkaðar á hverjum bæ á Íslandi um margar aldir. Lömbin voru kefld þannig að þau náðu ekki að sjúga mæður sínar en þó meira um að stíað væri, lömbin lokuð inni þangað til fært var frá.

Fráfærnatími var um Jónsmessu til forna en mánuðurinn á undan var svonefnd stekktíð, en þá voru lömbin enn með mæðrum sínum en sett í lambakró á stekknum á kvöldin og höfð þar um nóttina en ærnar gengu lausar á meðan og voru svo mjólkaðar að morgni, áður en lömbunum var hleypt út. Þetta var líka kallað að stía lömbin og stóð yfirleitt í um tvær vikur. Allan geldfénað var skylda að reka á afrétt, eingöngu mátti málnytupeningur (ær sem eru mjólkaðar) vera heima eða í seljum á sumrin. Í Jónsbók var ákvæði um að geldur peningur skyldi vera farinn úr heimahögum þegar tveir mánuðir væru liðnir af sumri og ekki mátti reka fé aftur heim fyrir tvímánuð (síðustu viku í ágúst) en í réttarbót Eiríks konungs Magnússonar frá 1294 var því breytt þannig að hreppsstjórnarmenn ákváðu hvenær fé yrði rekið á fjall og heim eftir því sem hentaði. [1]

Þegar lömbin voru um það bil sex vikna voru þau svo rekin á fjall eða í haga fjarri ánum og látin sjá um sig sjálf en ærnar hafðar heima og mjólkaðar kvölds og morgna. Smalinn sat yfir þeim, að minnsta kosti á daginn. Ær sem fært hafði verið frá og voru mjólkaðar kölluðust kvíaaær. Stundum var setið yfir lömbunum fyrstu vikuna og voru þau þá oft höfð í hafti svo auðveldara væri að halda þeim saman. Sauðamjólkin var mikið notuð til skyrgerðar, ein sér eða blönduð kúamjólk, en einnig var gert úr henni smjör og ostar.

Fráfærur tíðkuðust fram á 20. öldina en lögðust víðast hvar af á árunum 1915-1940, meðal annars vegna mikillar verðhækkunar á lambakjöti á stríðsárunum fyrri, svo að það borgaði sig betur að láta lömbin njóta mjólkurinnar en mjólka ærnar. Síðast var fært frá svo vitað sé á Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði sumarið 1951 eða 1952. Síðasti fráfærusmalinn á Íslandi var Kristján Bersi Ólafsson, síðar blaðamaður, ritstjóri, kennari og skólameistari í Flensborg. Fráfærur á Kirkjubóli má sjá í Vestfjarðamynd Guðlaugs Rósinkrans, sem Kjartan Ó. Bjarnason tók sennilega um 1950. Kvikmynd Ósvaldar Knudsens, Fráfærur, er tekin á Kirkjubóli. Myndin var frumsýnd 1958, en tekin upp fyrr, líklega 1955. Þær fráfærur voru leiknar fyrir kvikmyndagerðarmanninn.

Nú er líka talað um fráfærur þegar átt er við aðskilnað afkvæmis og móður, t.d. gríss frá gyltu.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Jónas Jónsson, Landbúnaðarsaga Íslands, 3. bindi, bls. 12, Skrudda, 2013