Fara í innihald

Geðhvörf

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Geðhvörf, eða geðhvarfasýki, er geðsjúkdómur sem einkennist af sveiflum milli góðs hugarástands, örlyndis og þunglyndis. Geðhvörfum er almennt skipt niður í geðhvörf I, geðhvörf II og hverfilyndi (geðhvörf III). En keimlíkt ástand getur einnig komið fram við notkun lyfja, fíkniefna eða af öðrum læknisfræðilegum ástæðum.

Til að fá greiningu á geðhvörfum I þarf viðkomandi að hafa upplifað maníu (eða örlyndi) að minnsta kosti einu sinni á ævinni. Það má vel vera að atvikið komi í kjölfar hýpómaníu eða þunglyndis, sem eru algeng meðal þeirra með geðhvörf I, þó eru þau ekki nauðsynleg forsenda fyrir greiningu. Hins vegar til að fá greiningu á geðhvörfum II, þarf viðkomandi að hafa upplifað hýpómaníu einu sinni á ævinni sem og meiriháttar þunglyndi. DSM-5 (The Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders) gerir ráð fyrir því að þunglyndi einpóla sjúklinga sé eins og þunglyndi geðhvarfasjúkra.[1]

Sífellt fleiri eru að greinast með geðhvörf og sjúkdómsgreiningin talin færast í aukana, sérstaklega greining á geðhvörfum II. Sú aukning gæti endurspeglað breytingu á vitund fólks og leit eftir aðstoð, minni fordómum, bættari skimun og aðferðafræði, eða raunverulegri aukningu á röskuninni.[2] Sjúkdóminn er almennt talinn vangreindur[1] en skipulagt mat á klínískum þáttum getur aukið líkur á réttri greiningu sé því beitt áður en til greiningastaðla DSM eða ICD sé sótt. Þetta er gert með því að fara ítarlega í gegnum sögu sjúklingsins.[3]

Dreifing og greining

[breyta | breyta frumkóða]

Lífstíðaralgengi

[breyta | breyta frumkóða]

Lífstíðaralgengi geðhvarfa I og II eru álitin vera 0,6% og 0,3-0,4%, og leggst sjúkdómurinn jafnt á milli kynjanna. Áætlað algengi röskunarinnar er mjög misjafnt eftir tíma og svæðum, en sá breytileiki er háður breytingum í mælingaraðferðum.[1] Ágætt er þó að minnast að tíðni geðhvarfarófsins er talin vera um 2,4-5,5%.[4][5] Geðhvörf geta valdið verulegri skerðingu á starfshæfni og félagslegri virkni. Alþjóðlega rannsóknin um sjúkdómsbyrði (e. The Global Burden of Disease Study) setti röskunina í sjötta sæti af ástæðum örorku af öllum læknisfræðilegum sjúkdómum í heiminum.[6] Ástæðan fyrir því er einna helst vegna þess hversu snemma röskunin birtist, og hve krónísk hún er yfir ævi þeirra sem glíma við hana. [7]

Snemmbundin og síðbundin veikindi

[breyta | breyta frumkóða]

Talsverður munur er á einstaklingum sem veikjast snemma (e. early onset), en það er ýmist skilgreint sem fyrsta atvik fyrir 18-21 ára aldur,  í samanburði við þá sem veikjast seint (e. late onset). Einstaklingar sem veikjast snemma glíma við alvarlegri einkenni, iðulega meira af geðrofseiginleikum og fleiri atvikum, þá einkum blönduðum atvikum. [8] Sem og er viðkomandi líklegri til að eiga frekar við felmtursröskun, fíknivanda, sjálfsvígstilraunir, og svara síður fyrirbyggjandi litíum meðferð. Náskyldir ættingjar þessara sjúklinga eru í meiri hættu á að glíma við geðtruflanir, og sýna alvarlegri svipgerð þessara truflana.[9][10][11] Að veikjast snemma eykur líkur á því að viðkomandi glími við fleiri samkvilla, og lengri tími líður á milli fyrsta atviks og meðferðar, í samanburði hjá þeim sem veikjast seinna á ævinni.[12] Snemmbundin veikindi eru ekki sjaldgæf í sjálfu sér en þau eru erfið í greiningu.[13]

Upphafsmeðferð og rangar greiningar

[breyta | breyta frumkóða]

Þættir á borð við að veikjast snemma á lífsleiðinni, vera af eldri árgerð, ásamt ýmsum sálfélagslegum þáttum eins og að vera karlkyns, giftur, lítið menntaður og í minnihlutahópi, ýtir undir það að viðkomandi sækir sér enga, eða mjög seint, upphafsmeðferð.[14] Því miður er algengt að fólk með geðhvörf fái ranga greiningu á eigið sjúkdómsástandi.[15] Um 40% greindra geðhvarfasjúklinga hafa áður verið ranglega greindir með meiriháttar þunglyndi og má sjá að það líði að jafnaði 7-8 ár þar til rétt greining kemur fram.[16][17] Greiningarferlið er ennfremur flækt með þeirri staðreynd að margir sækja sér aldrei aðstoð, og telja eigin erfiðleika hluta af daglegu lífi.[15]

Sjálfsvíg og tengd hegðun

[breyta | breyta frumkóða]

Áætlað er að um 25-50% þessara sjúklinga muni gera a.m.k. einu sinni tilraun til sjálfsvígs á ævinni,[18] [19][20][21] [22] og ná 15-20% þeirra að ljúka ætlunarverki sínu.[23] [24] Sjálfsvíg eru a.m.k. 30 sinnum algengari í þessum hópi en  á meðal almennings.[25] [26] Tímabil þunglyndis eða blandað ástands tvöfaldar líkur á sjálfsvígstilraun.[27] Með blönduðu ástandi er átt við að einkenni maníu eða hýpómaníu séu til staðar í samblandi við einkenni þunglyndis. Einnig aukast líkur sjálfsvígs á meðal einstaklinga sem upplifa hraðar sveiflur (e. rapid cycling).[28] Tæplega helminga sjálfsvígstilrauna má líta á sem kall á hjálp frekar en raunverulega löngun sjúklingsins til að deyja.[29] Sjálfsvígstilraunir eru 2-3 sinnum algengari meðal kvenna, [25] en karlmenn eru fjórum sinnum líklegri til að deyja við athæfið.[30][20] Þriðjungur allra tilfella eiga sér stað fyrsta árið eftir greiningu,[30] einkum hjá yngri sjúklingum.[31] Um helmingur þeirra sem veikjast á fullorðins árum upplifa einhverntímann á ævinni sjálfsvígshugleiðingar, en þessi tala hækkar upp í þrjá af hverjum fjórum hafi einstaklingurinn fyrst veikst sem barn.[32] Tilraunir til sjálfsvíga eru algengastar hjá einstaklingum á aldrinum 18-34 ára, og meðal einstaklinga sem eru óvinnufærir, hafa skilið við maka sinn,[33] glíma við fíknivanda,[20] kvíða, mikið magn sjálfsvígshugsana og alvarlegri einkenni þunglyndis. [34] Einnig hefur ofbeldi í barnæsku, einkum kynferðisofbeldi,[35][36][37] og heilaskaði af völdum áverka, áhrif á ákvörðun einstaklings til að reyna sjálfsvíg. Mikilvægt er að minnast á að hlutlæg mæling á alvarleika einkenna skipti ekki höfuðmáli, heldur er það upplifun sjúklingsins á einkennum sínum sem eykur líkur á sjálfsvígstilraunum.[38]

Fyrirbyggjandi þættir

[breyta | breyta frumkóða]

Sjálfsvíg eru færri í þéttbýlum, meðal tekjuhærri einstaklinga, á svæðum þar sem hlutfall geðlækna og lækna eru hærri og þar sem ríki og sveitafélög eyða meira í geðheilsu.[39] Sjúklingar á litíumi eru fimm sinnum ólíklegri til að reyna sjálfsvíg en þeir sem ekki taka lyfið.[40][41] Litíum er lífsbjargandi í mörgum tilfellum fyrir þá sem glíma við lyndisraskanir og er það iðulega notað þó að viðkomandi sé ekki með einkenni, en það er fyrirbyggjandi gagnvart þunglyndi og maníu. Helsta vandamálið með lyfið eru hugsanleg eitrunaráhrif. Stundum eru flogalyf notuð sem geðsveiflulyf, en þau eru ekki eins góð í að hindra sjálfsmorð og litíum. [42]

Rannsakendur hafa í gegnum tíðina skoðað mögulegar orsakir geðhvarfa. Flestir samþykkja hinsvegar að það sé engin ein orsök. Þeir telja frekar að margir þættir vinni saman til að mynda veikindi sem auka líkurnar á geðhvörfum.[43] Geðhvörf hafa tilhneigingu til að ganga í fjölskyldum. Ýmsar erfðarannsóknir gefa til kynna að fólk sé með ákveðin erfðaefni sem auka líkurnar á því að þróa með sér sjúkdóminn.[44] Börn sem eiga foreldri eða systkini með geðhvörf eru mun líklegri til að þróa sjúkdóminn í samanburði við börn sem hafa enga fjölskyldusögu um sjúkdóminn. Erfðir eru þó ekki eini áhættuþátturinn fyrir geðhvörf. Rannsóknir á eineggja tvíburum hafa sýnt að annar tvíburinn þrói ekki alltaf með sér geðhvörf þótt hinn tvíburinn sé með sjúkdóminn.[45] Þess vegna telja rannsóknarmenn að fleiri þættir séu að verkum í þróun geðhvarfa. Vísindamenn hafa skoðað orsök m.t.t. taugarannsókna, sem og lyfja, enda virðast skapsveiflur, þunglyndi og oflæti oft temprast við lyfjagjöf. [43]

Taugarannsóknir

[breyta | breyta frumkóða]

Aukin notkun myndgreininga á borð við kvik-segulómunar (e. functional magnetic resonance imaging, fMRI), segulómunar (e. magnetic resonance imaging, MRI) og jáeindarskanna (e. positron emission tomography) hafa gefið til kynna að heili einstaklinga með geðhvörf sé á einhver hátt afbrigðilegur í samanburði við heilbrigðan heila eða aðrar raskanir. Ein MRI rannsókn gaf til kynna að framennisbörkurinn (e. prefrontal cortex) hjá fullorðnum einstaklingum með geðhvörf sé minni og sýni almennt lægri virkni en hjá einstaklingum sem ekki eru með sjúkdóminn.[46][47]

Framennisbörkurinn er talinn hafa umsjón yfir stýrifærni (e. executive function) heilans á borð við þrautalausnir og ákvarðanatökur.[48] Þessi hluti heilans sem og tengingar hans við önnur svæði heilans, halda áframa að þroskast fram að fullorðinsárunum. Þetta gæti útskýrt ástæðuna fyrir því að geðhvörf hefjast yfirleitt á unglingsárum, og hvernig afbrigðileiki á þessu svæði gæti haft áhrif þar á. Atugun svæðisins gæti hjálpað rannsakendurm að greina geðhvörf fyrr og veita snemmbúið inngrip svo hægt sé að hægja á framgangi sjúkdómsins.[49][50]

Geðhvörf meðal barna og unglinga

[breyta | breyta frumkóða]

Tíðni geðhvarfa er talin vera um 1-3% meðal barna og unglinga. Vegna ungs aldurs, tilveru samkvilla, og möguleika á mismunandi túlkun á manískum einkennum, er mjög erfitt að greina geðhvörf í börnum. Börn með einkenni undir greiningaviðmiðum og hafa fjölskyldusögu af geðhvörfum, eru í mikilli hættu á að fá sjálf geðhvörf I og II. Hvort tveggja einstaklingar sem ná greiningarviðmiðum og þeir sem ekki ná þeim eru í aukinni hættu á sálfélagslegum vandamálum, notkun fíkniefna, sjálfsvígi, lagalegum vandamálum, og nýtingu félagskerfis. Til að greina börn og unglinga með maníu eða hýpómaníu má nota DSM greiningakerfið fyrir fullorðna. Hins vegar verður að sýna aðgát. Einkenni verða að vera til staðar sem eru ekki í samræmi við þroskastig barnsins.[51]

Greiningaviðmið DSM-5

[breyta | breyta frumkóða]

Viðmið maníu

[breyta | breyta frumkóða]

A. Tímabil þar sem óeðlilegt og viðvarandi hækkað geðslag eða pirringur gerir vart við sig. Ásamt óeðlilegri og viðvarandi orku eða markmiðis drifnni hegðun. Þetta þarf að vara í að minstakosti í eina viku og vera til staðar mest af deginum, næstum alla daga.

B. Að á þessu tímabili séu þrjú eða fleiri einkenni til staðar í miklum mæli, fjögur ef pirringur er eingöngu til staðar og þau sýni fram á marktæka breytingu frá annars hefðbundinni hegðun:

1. Aukið sjálfsálit eða mikilmennska.
2. Minnkuð svefnþörf eins og að upplifa sig úthvíldan eftir eingöngu 3 klukkustunda svefn.
3. Talar meira en venjulega eða þrýstingur til að tala.
4. Mikið hugmyndaflug eða hraðar hugsanir.
5. Utan við sig / truflast auðveldlega (lýst af viðkomandi eða af öðrum).
6. Vinna að ákveðnu marki, félagslega, í vinnu eða skóla, kynferðislega eða óróleiki, með öðrum orðum marklaus hegðun.
7. Óhófleg þátttaka í atferli sem veitir ánægju en mun líklega hafa í för með sér mjög neikvæðar afleiðingar.
Til dæmis óhófleg kaupgleði, vafasamar breytingar á kynhegðun eða slæmar fjárfestingar.

C. Lyndisröskunin er næg til að valda alvarlegri skerðingu í félags- eða starfshæfni eða svo sjúkrahúsavistun sé þörf til að koma í veg fyrir að sjúklingurinn skaði sjálfann sig eða aðra eða ef geðrofseinkenni eru til staðar.

D. Atvikið má ekki rekja til líffræðilegra áhrifa efnis, lyfja eða fíkniefna, eða annars læknisfræðilegs ástands.  

Viðmið hýpómaníu

[breyta | breyta frumkóða]

A. Alveg eins og A. liður liður í skilgreiningu maníu.

B. Alveg eins og B. liður liður í skilgreiningu maníu.

C. Atvikið hefur án efa áhrif á virkni einstaklingsins og er ástandið honum annars óeðlilegt þegar hann er einkennalaus.

D. Lyndisröskunin og breytingin í virkni er svo að aðrir taka eftir því.

E. Atvikið er ekki nógu alvarlegt til að það hafi áhrif á einstaklinginn félagslega, né heldur á starfshæfni eða heldur til að þurfi sjúkrahúsvist. Ef að til staðar eru geðrofseinkenni þá er atvikið skilgreint sem manía.

F. Alveg eins og D. liður í skilgreiningu maníu.

Meðferð við geðhvörfum

[breyta | breyta frumkóða]

Þrátt fyrir gagnsemi lyfja má búast við betri útkomu í framgangi sjúkdómsins ef sálfræðimeðferðum er beitt samhliða.[52] Meðferðir á borð við sálarfræðslu (e. psychoeducation), hugræna atferlismeðferð, meðferð í samskiptum og félagslegum ryþma (e. IPSRT eða interpersonal and social rhyrthm therapy) og fjölskyldumiðaðri meðferð (family-focused therapy) eru einna helst notuð. [53][54][55]

Sálarfræðsla

[breyta | breyta frumkóða]

Sálarfræðsla er áhrifaríkt meðferðarform sem hindrar hrösun og eykur meðferðarheldni.[56] [57] Fræðslan er nauðsynleg forsenda í góðum vinnubrögðum og hún tryggir rétt einstaklingsins til að vera upplýstur um  eigin röskun.[56] Hér er einstaklingum hjálpað í því að koma augu á hættulega eða vafasama hegðun og bera snemma kennsl á viðvörunareinkenni bakslags. Með þessu eyðir fólk minni tíma í atvikum og getur fólk minnkað hrösunartíðni um allt að 40%.[58][59][60] Sjúklingurinn er fenginn til að skilja flókna samspilið milli einkenna sinna, persónuleika, eigins umhverfis, aukaverkana lyfja, og það að bera ábyrgð á eigin sjúkdóm.[56] Fræðslan miðar er að bættari félags- og starfshæfni[61] og unnið er sérstaklega að því að draga úr fordómum hjá einstaklingnum sjálfum gagnvart eigin sjúkdóm og ástandi. [56]

Hugræn atferlismeðferð, HAM

[breyta | breyta frumkóða]

Hugræn atferlismeðferð eða HAM miðar að því að hjálpa fólki að bera kennsl á og breyta skaðlegu eða neikvæðu hugsunarferli og hegðun.[53] Talsverð sönnun er fyrir áhrifaríki HAM við þunglyndi[62] og kvíða.[63][64][65][66][67] Um 75% geðhvarfasjúklinga glíma einnig við kvíða og eyða þessir einstaklingar iðulega lengri tíma í atviki, eru líklegri til að hrasa og njóta minna gagn af geðsveiflulyfjum.[68] Fjölmargar rannsóknir hafa athugað hugrænt mynstur hjá fólki með geðhvörf en niðurstöður hafa verið á reiki, einkum vegna takmarkanna í úrtaksstærð, óklínískra úrtaka, mismunandi skilgreiningar á jafnlyndi (e. euthymia) og ónæga stjórn á núliggjandi sálmeinisþáttum. Engu síður vísa sönnunargögn til þess að geðhvarfasjúkir sýna sambærilegt hugrænt mynstur og má sjá hjá einstaklingum með einpóla þunglyndi, þó með sérkenni eins og markmiðar drifinni hegðun, fullkomnunaráráttu, sjálfsgagnrýni, sjálfstæði og næmni fyrir umbunum.[69][70][71][72][73][74][75][76][77][78]

Hugræn núvitundar-meðferð, MBCT

[breyta | breyta frumkóða]

Hugræn núvitundar-meðferð (e. mindfulness-based cognitive therapy, MBCT) er einnig árangursríkt meðferðarform. Meðferðin er dregin af núvitund sem er æfingarkerfi til að auka sjálfsþekkingu, persónulega hæfni, sjálfsstjórn og ánægju. Rannsóknir hafa sýnt að núvitund dragi úr hvatvísi sem er algengur undanfari sjálfsvígstilrauna.[79][80] Í MBCT eru lykileiningar hugrænnar meðferðar og þjálfun í núvitundar-hugleiðslu sameinaðar. [80] MBCT getur dregið úr þunglyndis- og kvíðaeinkennum og komið í veg fyrir hrösun.[80][79] Hugræn virkni á borð við athygli getur verið skert hjá einstaklingum með geðhvörf, og getur meðferðarformið þar af leiðandi aukið vanlíðan. En MBCT meðferð hefur gefið til kynna að hún getur aukið framkvæmdavirkni, minni, hæfni, frumkvæði í verkefnum og hvata til að ljúka þeim.[81][82]

Meðferð í samskiptum og félagslegum ryþma, IPSRT

[breyta | breyta frumkóða]

Meðferð í samskiptum og félagslegum ryþma var sérstaklega hönnuð fyrir sjúklinga með geðhvörf en hún leggur áherslu á að hjálpa einstaklingum að bæta úr samböndum sínum við aðra og að hafa reglu á daglegri rútínu. T.d. með reglulegum svefnvenjum  má fyrirbyggja maníu. Meðferðarformið má beita hvort sem þegar einstaklingur er einkennamikill eða laus.[83][53] Fjölskyldumiðuð meðferð hjálpar sjúklingum einnig með samskipti, en hér taka fjölskyldumeðlimir þátt. Með þessari aðferð er unnið að því að auka bjargráð fjölskyldunnar í heild sinni, bæta samskipti og úrlausn vandamála.[53] Sálarfræðsla er hluti af þessu ferli.[84]

Í róti hugans - Kay Redfield Jamison. Mbl.is

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 American Psychiatric Association (2013). Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders, Fifth Edition: DSM-5. American Psychiatric Association.
  2. Parker, G. og Fletcher, K. (2014). „Differentiating bipolar I and II disorders and the likely contribution of DSM-5 classification to their cleavage“. Journal of Affective Disorders. 152–154: 57–64. doi:10.1016/j.jad.2013.10.006.
  3. Phelps, J. og Ghaemi, S. N. (2012). „The mistaken claim of bipolar overdiagnosis: solving the false positives problem for DSM-5⁄ICD-11“. Acta Psychiatrica Scandinavica. 126 (6): 395–401. doi:10.1111/j.1600-0447.2012.01912.x.
  4. Angst, J. (1998). „The emerging epidemiology of hypomania and bipolar II disorder“. Journal of Affective Disorders. 50 (2–3): 143–151. doi:10.1016/S0165-0327(98)00142-6.
  5. Merikangas, K. R. (2011). „Prevalence and correlates of bipolar spectrum disorder in the World Mental Health Survey initiative“. Arch Gen Psychiatry. 63 (3): 241–251. doi:10.1001/archgenpsychiatry.2011.12.
  6. Lopez, A. D. (1998). „The global burden of disease, 1990–2020“. Nature Medicine. 11 (4): 1241–1243. doi:10.1038/3218.
  7. World Health Organization (2002). The World Health Report 2002 – Reducing Risks, Promoting Healthy Life. Höfundur.
  8. Lish, J. D. (1994). „The National Depressive and Manic-depressive Association (DMDA) survey of bipolar members“. Journal of Affective Disorder. 4 (31): 281–294. doi:10.1016/0165-0327(94)90104-X.
  9. Schürhoff, F. (2000). „Early and late onset bipolar disorders: two different forms of manic-depressive illness?“. Journal of Affective Disorders. 58 (3): 215–221. doi:10.1016/S0165-0327(99)00111-1.
  10. Coryell, W. (2013). „Age of onset and the prospectively observed course of illness in bipolar disorder“. Journal of Affective Disorders. 146 (1): 34–38. doi:10.1016/j.jad.2012.08.031.
  11. Perlis, R. H. (2004). „Long-term implications of early onset in bipolar disorder: data from the first 1000 participants in the systematic treatment enhancement program for bipolar disorder (STEP-BD)“. Biological Psychiatry. 55 (9): 875–881. doi:10.1016/j.biopsych.2004.01.022.
  12. Suominen, K. (2007). „Early age at onset of bipolar disorder is associated with more severe clinical features but delayed treatment seeking“. Bipolar Disorders. 9 (7): 698–705. doi:10.1111/j.1399-5618.2007.00388.x.
  13. Leboyer, M. (2005). „Age at onset in bipolar affective disorders: a review“. Bipolar Disorders. 7 (2): 111–118. doi:10.1111/j.1399-5618.2005.00181.x.
  14. Wang, P. S. (2005). „Failure and delay in initial treatment contact after first onset of mental disorders in the National Comorbidity Survey Replication“. Arch Gen Psychiatry. 62 (6): 603–613. doi:10.1001/archpsyc.62.6.603.
  15. 15,0 15,1 Kasper, S. (2003). „Issues in the treatment of bipolar disorder“. European Neuropsychopharmacology. 13 (2): 37–42. doi:10.1016/S0924-977X(03)00076-2.
  16. Ghaemi, S. N. (2000). „Diagnosing bipolar disorder and the effect of antidepressants: a naturalistic study“ (PDF). The Journal of Clinical Psychiatry. 61 (10): 804–808. Sótt 2015.
  17. Ghaemi, S. N. (1999). „Is bipolar disorder still underdiagnosed? Are antidepressants overutilized?“. Journal of Affective Disorders. 52 (1–3): 135–144. doi:10.1016/S0165-0327(98)00076-7.
  18. Chen, Y. (1996). „Lifetime rates of suicide attempts among subjects with bipolar and unipolar disorders relative to subjects with other axis I disorders“. Society of Biological Psychiatry. 39 (10): 896–899. doi:10.1016/0006-3223(95)00295-2.
  19. Lopez, P. (2001). „Suicide attempts in bipolar patients“. The Journal of Clinical Psychiatry. 62 (12): 963–966.
  20. 20,0 20,1 20,2 Simon, G. E. (2007). „Risk of suicide attempt and suicide death in patients treated for bipolar disorder“. Bipolar Disorders. 9 (5): 526–530. doi:10.1111/j.1399-5618.2007.00408.x.
  21. Tsai, S. (1999). „Characteristics and psychosocial problems of patients with bipolar disorder at high risk for suicide attempt“. Journal of Affective Disorders,. 52 (1–3): 145–152. doi:10.1016/S0165-0327(98)00066-4.
  22. Valtonen, H. M. (2005). „Suicidal ideation and attempts in bipolar I and II disorder“. The Journal of Clinical Psychiatry. 66 (11): 1456–1462.
  23. Gonda, X. (2012). „Suicidal behavior in bipolar disorder: epidemiology, characteristics and major risk factors“. Journal of Affective Disorders. 143 (1–3): 16–26. doi:10.1016/j.jad.2012.04.041.
  24. Malafosse, A. (2005). „Genetics of suicidal behavior“. merican Journal of Medical Genetics Part C. 133 (1): 1–2. doi:10.1111/j.1399-5618.2004.00101.x.
  25. 25,0 25,1 Engström, C. (2004). „Bipolar disorder. III: harm avoidance a risk factor for suicide attempts“. Bipolar Disorders. 6 (2): 130–138. doi:10.1111/j.1399-5618.2004.00101.x.
  26. Grunebraun, M. F. (2006). „Correlates of suicide attempt history in bipolar disorder: a stress-diathesis perspective“. Bipolar Disorders. 8 (5): 551–557. doi:10.1111/j.1399-5618.2006.00304.x.
  27. Oquendo, M. A., Waternaux, C., Brodsky, B., Parsons, B., Haas, G. L., Malone, K. M.; og fleiri (2000). „Suicidal behavior in bipolar mood disorder: clinical characteristics of attempters and nonattempters“. Journal of Affective Disorders. 59 (2): 107–117. doi:10.1016/S0165-0327(99)00129-9.
  28. Coryell, W., Soloman, D., Turvey, C., Keller, M., Leon, A. C., Endicott, J.; og fleiri (2003). „The long-term course of rapid-cycling bipolar disoder“. Arch Gen Psychiatry. 60 (9): 914–920. doi:10.1001/archpsyc.60.9.914.
  29. Kessler, R. C., Borges, G. og Walters, E. E. (1999). „Prevalence of and risk factors for lifetime suicide attempts in the National Comorbidity Survey“. Arch Gen Psychiatry. 56 (7): 617–626. doi:10.1001/archpsyc.56.7.617.
  30. 30,0 30,1 Tondo, L., Lepri, B. og Baldessarini, R. J. (2007). „Suicidal risks among 2826 Sardinian major affective disorder patients“. Acta Psychiatr Scand. 116 (6): 419–428. doi:10.1111/j.1600-0447.2007.01066.x.
  31. Ösby, U., Brandt, L., Correia, N., Ekbom, A. og Sparén, P. (2001). „Excess mortality in bipolar and unipolar disorder in Sweden“. Arch Gen Psychiatry. 58 (9): 844–850. doi:10.1001/archpsyc.58.9.844.
  32. Carter, T. D. C., Mundo, E., Parikh, S. V. og Kennedy, J. L. (2003). „Early age at onset as a risk factor for poor outcome of bipolar disorder“. Journal of Psychiatric Research. 37 (4): 297–303. doi:10.1016/S0022-3956(03)00052-9.
  33. Szádóczky, E., Vitrai, J., Rihmer, Z. og Füredi, J. (2000). „Suicide attempts in the Hungarian adult population. Their relation with DIS/DSM-III-R affective and anxiety disorders“. Eur Psychiatry. 15 (6): 343–347. doi:10.1016/S0924-9338(00)90501-7.
  34. Sokero, T. P., Melatin, T. K., Rytsälä, H. J., Leskelä, U. S. og Lestelä-Mielonen, P. S. (2005). „Prospective study of risk factors for attempted suicide among patients with DSM−IV major depressive disorder“. The British Journal of Psychiatry. 186: 314–318. doi:10.1192/bjp.186.4.314.
  35. Brent, D. A., Oquendo, M., Birmaher, B., Greenhill, L., Kolko, D., Stanley, B.; og fleiri (2002). „Familial pathways to early-onset suicide attemt risk for suicidal behavior in offspring of mood-disordered suicide attempters“. Arch Gen Psychiatry. 59 (9): 801–807. doi:10.1001/archpsyc.59.9.801.
  36. Leverich, G. S., Altshuler, L. L., Frye, M. A., Suppes, T., Keck, P. E. Jr., McElroy, S. L.; og fleiri (2003). „Foctors associated with suicide attempts in 648 patients with bipolar disorder in the Stanley Foundation bipolar network“. The Journal of Clinical Psychiatry. 64 (5): 506–515.
  37. Leverich, G. S., McElroy, S. L., Suppes, T., Keck, P. E. Jr., Denicoff, K. D., Nolen, W. A.; og fleiri (2002). „Early physical and sexual abuse associated with an adverse course of bipolar illness“. Biological Psychiatry. 51 (4): 288–297. doi:10.1016/S0006-3223(01)01239-2.
  38. Mann, J. J., Waternaux, C., Haas, G. L. og Malone, K. M. (1999). „Toward a clinical model of suicidal behavior in psychiatric patients“. Am J Psychiatry. 156 (2): 181–189. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. júlí 2019. Sótt 2014.
  39. Tondo, L., Albert M. J. og Baldessarini, R. J. (2006). „Suicide rates in relation to health care access in the United States: an ecological study“. The Journal of Clinical Psychiatry. 67: 517–523. doi:10.4088/JCP.v67n0402.
  40. Baldessarini, R. J., Tondo, L., Davis, P., Pompili, M., Goodwin, F. K. og Hennen, J. (2006). „Decreased risk of suicides and attempts during long-term lithium treatment: a meta-analytic review“. Bipolar Disorders. 8 (5p2): 625–639. doi:10.1111/j.1399-5618.2006.00344.x.
  41. Isometsä, E. T. (2000). „Suicide [útdráttur]“. Current Opinion in Psychiatry. 13 (2): 143–147. Sótt 2014.
  42. Nolen-Hoeksema, S. (2011). Abnormal Psychology. McGraw Hill.
  43. 43,0 43,1 Sinacola, R. S og Strickland, T. S. (2012). Basic psychopharmacology for councelors and psychotherapist. Pearsons education.
  44. Sklar, P., Ripke, S., Scott, L. J., Andreassen, O. A., Cichon, S.; og fleiri (2011). „Large-scale genome-wide association analysis of bipolar disorder identifies a new susceptibility locus near ODZ4“. Nature genetics. 43 (10): 977. doi:10.1038/ng.943.
  45. Blackwood, D. H., Visscher, P. M., og Muir, W. J. (2001). „Genetic studies of bipolar affective disorder in large families“ (PDF). The British Journal of Psychiatry. 178 (41): 134–136. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 12. mars 2016. Sótt 5. febrúar 2015.
  46. Blumberg, H. P. (2008). „The Next Wave in Neuroimaging Research in Pediatric Bipolar Disorder“. Journal Of The American Academy Of Child & Adolescent Psychiatry. 47 (5): 483–485. doi:10.1097/CHI.0b013e318168457f.
  47. Chepenik, L. G., Raffo, M., Hampson, M., Lacadie, C., Wang, F.; og fleiri (2010). „Functional connectivity between ventral prefrontal cortex and amygdala at low frequency in the resting state in bipolar disorder“. Psychiatry Research. 182 (3): 207–210.
  48. Mansouri, F. A., Tanaka, K., og Buckley, M. J. (2009). „Conflict-induced behavioural adjustment: a clue to the executive functions of the prefrontal cortex“. Nature Reviews Neuroscience. 10 (2): 141–152. doi:10.1038/nrn2538.
  49. Blumberg, H. P. (2008). „The Next Wave in Neuroimaging Research in Pediatric Bipolar Disorder“. Journal Of The American Academy Of Child & Adolescent Psychiatry. 47 (5): 483–485. doi:10.1097/CHI.0b013e318168457f.
  50. Chepenik, L. G., Raffo, M., Hampson, M., Lacadie, C., Wang, F.; og fleiri (2010). „Functional connectivity between ventral prefrontal cortex and amygdala at low frequency in the resting state in bipolar disorder“. Neuroimaging. 182 (3): 207–210.
  51. Birmaher, B. (2013). „Bipolar disorder in children and adolescents. Child and Adolescent Mental Health“. 18 (3): 140–148. doi:10.1111/camh.12021.
  52. Yatham, L. N., Kennedy, S. H., Parikh, S. V., Schaffer, A., Beaulieuc, S., Alda, M; og fleiri (2013). „Canadian network for mood and anxiety treatments (CANMAT) and international society for bipolar disorders (ISBD) collaborative update of CANMAT guidelines for the management of patients with bipolar disorder: update 2013“. Bipolar Disorders. 15 (1): 1–44. doi:10.1111/bdi.12025.
  53. 53,0 53,1 53,2 53,3 National Institute of Mental Health (2008). „Bipolar Disorder“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 31. júlí 2013. Sótt 25. janúar 2014.
  54. Miklowitz, D. J., Otto, M. W., Frank, E., Reilly-Harrington, N. A., Kogan, J. N. Sachs, G. S.; og fleiri (2007). „Intensive psychosocial intervention enhances functioning in patients with bipolar depression: results from a 9-month randomized controlled trial“. Am J Psychiatry. 164 (9): 1340–1347. doi:10.1176/appi.ajp.2007.07020311.
  55. Reinares, M., Sánchez-Moreno, J. og Fountoulakis, K. N. (2014). „Psychosocial interventions in bipolar disorder: what, for whom, and when“. Journal of Affective Disorders. 156: 46–55. doi:10.1016/j.jad.2013.12.017.
  56. 56,0 56,1 56,2 56,3 Colom, F. og Lamb, D. (2005). „Psychoeducation: improving outcomes in bipolar disorder“. European Psychiatry. 20 (5–6): 359–364. doi:10.1016/j.eurpsy.2005.06.002.
  57. Vieta, F., Sánchez-Mereno, J., Goikolea, J. M., Popova, E. og Bonnin, C. M. (2009). „Psychoeducation for bipolar II disorder: an exploratory, 5-year outcome subanalysis“. Journal of Affective Disorders. 112 (1–3): 30–35. doi:10.1016/j.jad.2008.03.023.
  58. Miklowitz, D. J., Otto, M. W., Frank, E., Reilly-Harrington, N. A., Wisniewski, S. R., Kogan, J. N.; og fleiri (2007). „Psychosocial treatments for bipolar depression a 1-year randomized trial from the systematic treatment enhancement program“. Arch Gen Psychiatry. 64 (4): 419–426. doi:10.1001/archpsyc.64.4.419.
  59. Scott, J., Colom, F., Popova, E., Benabarre, A., Cruz, N., Valenti, M.; og fleiri (2009). „Long-term mental health resource utilization and cost of care following group psychoeducation or unstructured group support for bipolar disorders: a cost-benefit analysis [útdráttur]“. The Journal of Clinical Psychiatry. 70 (3): 378–386. doi:10.4088/JCP.08m04333.
  60. Scott, J., Colom, F. og Vieta, E. (2006). „A meta-analysis of relapse rates with adjunctive psychological therapies compared to usual psychiatric treatment for bipolar disorders [útdráttur]“. he International Journal of Neuropsychopharmacology. 10 (1): 123–129. doi:10.1017/S1461145706006900.
  61. Perry, A., Tarrier, N., Morriss, R., McCarthy, E. og Limb, K. (1999). „Randomised controlled trial of efficacy of teaching patients with bipolar disorder to identify early symptoms of relapse and obtain treatment“. BMJ. 318 (7177): 149–153. doi:10.1136/bmj.318.7177.149.
  62. Roth, A. og Fonagy, P. (2006). What works for whom? A critical review of psychotherapy research. The Guilford Press.
  63. Brown, T. A., Antony, M. M. og Barlow, D. H. (1995). „Diagnostic comorbidity in panic disorder: effect on treatment outcome and course of comorbid diagnoses following treatment“ (PDF). Journal of Consulting and Clinical Psychology. 63 (3): 408–418. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 30. mars 2005. Sótt 4. febrúar 2015.
  64. Craske, M. G., Farchione, T. J., Allen, L. B., Barrios, V., Stoyanova, M. og Rose, R. (2007). „Cognitive behavioral therapy for panic disorder and comorbidity: More of the same or less of more?“. Behaviour Research and Therapy. 45 (6): 1095–1109. doi:10.1016/j.brat.2006.09.006.
  65. Davis, L., Barlow, D. H. og Smith, L. (2010). „Comorbidity and the treatment of principal anxiety disorders in a naturalistic sample“. Behavior Therapy. 41 (3): 296–305. doi:10.1016/j.beth.2009.09.002.
  66. Storch, Lewin, Farrell, Aldea, Reid, Geffken; og fleiri (2010). „Does cognitive-behavioral therapy response among adults with obsessive–compulsive disorder differ as a function of certain comorbidities?“. Journal of Anxiety Disorders. 24 (6): 547–552. doi:10.1016/j.janxdis.2010.03.013.
  67. Tsao, J. C. I., Mystkowski, J. L., Zucker, B. G. og Craske, M. G. (2005). „Impact ofcognitive-behavioral therapy for panic disorder on comorbidity: a controlled investigation“. Behaviour Research and Therapy. 43 (7): 959–970. doi:10.1016/j.brat.2004.11.013.
  68. Provencher, M. D., Hawke, L. D. og Thienot, E. (2011). „Psychotherapies for comorbid anxiety in bipolar spectrum disorders“. Journal of Affective Disorders. 133 (3): 371–380. doi:10.1016/j.jad.2010.10.040.
  69. Alatiq, Y., Crane, C., Williams, J. M. G. og Goodwin, G. M. (2010). „Dysfunctional beliefs in bipolar disorder: hypomanic vs. depressive attitudes“. Journal of Affective Disorders. 122 (3): 294–300. doi:10.1016/j.jad.2009.08.021.
  70. Alloy, L. B., Abramson, L. Y., Walshaw, P. D., Cogswell, A., Smith, J. M., Neeren, A. M.; og fleiri (2006). „Behavioral Approach System (BAS) sensitivity and bipolar spectrum disorders: a retrospective and concurrent behavioral high-risk design“. Motivation and Emotion. 30 (2): 143–155. doi:10.1007/s11031-006-9003-3.
  71. Alloy, L. B., Abramson, L. Y, Walshaw, P. D., Gerstein, R. K., Keyser, J. D., Whitehouse, W. G.; og fleiri (2010). „Behavioral Approach System (BAS) - Relevant cognitive styles and bipolar spectrum disorders“. J Abnorm Psychol. 118 (3): 459–471. doi:10.1037/a0016604.
  72. Jones, L., Scott, J., Haque, S., Gordon-Smith, K., Heron, J., Caesar, S.; og fleiri (2005). „Cognitive style in bipolar disorder“. The British Journal of Psychiatry. 187: 431–437. doi:10.1192/bjp.187.5.431.
  73. Lam, D. Wright, K. og Smith, N. (2004). „Dysfunctional assumptions in bipolar disorder“. Journal of Affective Disorders. 79 (1–3): 193–199. doi:10.1016/S0165-0327(02)00462-7.
  74. Mansell, W., Paszek, G., Seal, K., Pedley, R., Jones, S., Thomas, N.; og fleiri (2011). „Extreme appraisals of internal states in bipolar I disorder: a multiple control group study“. Cognitive Therapy and Research. 35 (1): 87–97. doi:10.1007/s10608-009-9287-1.
  75. Pardoen, D., Bauwens, F., Tracy, A., Martin, F. og Mendlewicz, J. (1993). „Self-esteem in recovered bipolar and unipolar out-patients“. The British Journal of Psychiatry. 163: 755–762. doi:10.1192/bjp.163.6.755.
  76. Reilly-Harrington, N. A., Miklowitz, D. J., Otto, M. W., Frank, E., Wisniewki, S. R:, Thase, M. E.; og fleiri (2008). „Dysfunctional attitudes, attributional styles, and phase of illness in bipolar disorder“. Cognitive Therapy and Research. 34 (1): 22–34. doi:10.1007/s10608-008-9218-6.
  77. Scott, J., Stanton, B., Garland, A. og Ferrier, I. N. (2000). „Cognitive vulnerability in patients with bipolar disorder“. Psychological Medicine. 30 (2): 467–472. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. mars 2016. Sótt 4. febrúar 2015.
  78. Van der Gucht, E., Morriss, R., Lancaster, G., Kinderman, P. og Bentall, R. P. (2009). „Psychological processes in bipolar affective disorder: negative cognitive style and reward processing“. The British Journal of Psychiatry. 194: 146–151. doi:10.1192/bjp.bp.107.047894.
  79. 79,0 79,1 Perich, T., Manicavasagar, V., Mitchell, P. B., Ball, J. R., og Hadzi‐Pavlovic, D. (2013). „A randomized controlled trial of mindfulness‐based cognitive therapy for bipolar disorder“. Acta Psychiatrica Scandinavica. 127 (5): 333–343. doi:10.1111/acps.12033.
  80. 80,0 80,1 80,2 Williams, J. M. G., Alatiq, Y., Crane, C., Barnhofer, T., Fennell, M. J. V. (2008). „Mindfulness-based cognitive therapy (MBCT) in bipolar disorder: Preliminary evaluation of immediate effects on between-episode functioning“. Journal of Affective Disorders. 107 (1–3): 275.
  81. Howells, F. M., Ives-Deliperi, V. L., Horn, N. R. og Stein, D. J. (2012). „Mindfulness based cognitive therapy improves frontal control in bipolar disorder: A pilot EEG study“. BMC Psychiatry. 12: a-25. doi:10.1186/1471-244X-12-15.
  82. Stange, J., Eisner, L., Hölzel, B., Peckham, A., Dougherty, D.; og fleiri (2011). „Mindfulness-based cognitive therapy for bipolar disorder: Effects on cognitive functioning“. Journal of Psychiatric Practice. 17 (6): 410. doi:10.1097/01.pra.0000407964.34604.03.
  83. Frank, E., Swartz, H. A. og Kupfer, D. J. (2000). „Interpersonal and social rhythm therapy: managing the chaos of bipolar disorder“. Biological Psychiatry. 48 (6): 593–604. doi:10.1016/S0006-3223(00)00969-0.
  84. Reinares, M., Sánchez-Moreno, J. og Fountoulakis, K. N. (2014). „Psychosocial interventions in bipolar disorder: what, for whom, and when“. Journal of Affective Disorders,. 156 (46–55). doi:10.1016/j.jad.2013.12.017.