Fara í innihald

Gautaskurðurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Vatnaleiðin í gegnum Svíþjóð. Kort sem sýnir Gautaskurðinn (dökkblátt) og Gautelfur og Tröllhettuskurðinn.
Gautaskurðurinn milli Vænis og Eystrasalts.

Gautaskurðurinn eða Gautasíki er skipaskurður og vatnaleið í Suður Svíþjóð, milli Vænis (Vänern) og Eystrasalts. Skurðurinn er 182 km langur, þar af eru skipaskurðir 87 km en að öðru leyti liggur leiðin um vötn. Á Gautaskurði eru 58 flóðgáttir og er mesta hæð yfir sjávarmáli er 91,5 m. Skurðurinn var byggður á árunum 1810-32. Hann er lokaður að meðaltali 4 mánuði á ári vegna ísa.

Gautaskurðurinn ásamst Tröllhettuskurðinum myndar siglingaleið milli Kattegat og Eystrasalts um vötnin Vænir (Vänern) og Veitur (Vättern) og árnar Gautelfi og Motalaá. Skurðurinn er ekki fær hafskipum. Það var um 1500 sem fyrst var hugað að siglingaleið milli Gautaborgar um smálensku vötnin til Norrköping en fyrir tíma járnbrauta var slík flutningaleið mikilvæg og eins var með slíkum skurði hægt að sleppa við Eyrarsundtollinn sem Danir tóku af öllum skipum sem fóru um Eyrarsund. Með slíkum skurði væri einnig hægt að hnekkja valdi Hansakaupmanna.