Fara í innihald

Fuzhou

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd af Taixi viðskiptahverfinu í Fuzhou borg í Fujian héraði í Kína.
Horft yfir Taixi viðskiptahverfið í Fuzhou borg í Fujian héraði í Kína. Árið 2020 bjuggu á stórborgarsvæði Fuzhou um 8,3 milljónir manna.
Staðsetning Fuzhou borgar í Fujian héraði í Kína.
Landakort sem sýnir legu Fuzhou borgar (rauðmerkt) í Fujian héraði í Kína.
Kort af legu Fuzhou borgar (rauðmerkt) í Fujian héraði í Kína.

Fuzhou (kínverska: 福州; rómönskun: Fúzhōu; Fu-chou), er höfuðborg og stærsta borg Fujian héraðs í suðausturhluta Alþýðulýðveldisins Kína. Hún er stjórnsýslu-, efnahags- vísinda- menningar- og samgöngumiðstöð héraðsins. Borgin sem nefnd er eftir fjalli í norðri sem kallast Fu, er staðsett í austurhluta héraðsins við norðurbakka ósa Min fljóts stærsta fljóts Fujian, stutt frá mynni þess við Austur-Kínahaf. Min-fljót gefur borginni aðgang að héraðinu og nálægum héruðum Jiangxi og Zhejiang. Fuzhou sem var ein fyrsta opna strandborgin í Kína, er menningarborg með yfir tvö þúsund ára sögu. Árið 2020 bjuggu á stórborgarsvæði Fuzhou um 8,3 milljónir manna.

Staðsetning

[breyta | breyta frumkóða]
Fuzhou borg hefur mikla strandlengju. Myndin sýnir Luoyuan flóa í norðurhluta Fuzhou borgar.
Luoyuan flói í norðurhluta Fuzhou borgar.
Qishan fjöll við suðurbakka Min fljóts, eru meðal margra fjalla í Fuzhou.
Qishan fjöll við suðurbakka Min fljóts, eru meðal margra fjalla í Fuzhou.

Fuzhou er staðsett á norðausturströnd Fujian héraðs, tengist í norður sameiginlega með borgunum Ningde og Nanping, í suður við borgirnar Quanzhou og Putian, og í vestur Sanming borg.

Borgin, sem nefnd er eftir fjalli í norðri sem kallast Fu, er staðsett í austurhluta héraðsins við norðurbakka ósa Min fljóts stærsta fljóts Fujian, stutt frá mynni þess við Austur-Kínahaf. Min-fljót gefur borginni aðgang að héraðinu og nálægum héruðum Jiangxi og Zhejiang.

Fuzhou sem var ein fyrsta opna strandborgin í Kína. Innan borgarinnar er hafnarsvæði sem kallað er Mawei Fuzhou, sem hefur ræktað kínverska skipamenningu og er talið vagga hins nútíma kínverska flota.

Mynd af Fuzhou Hualin musterishöllinni sem byggð var í lok svokallaðra fimmvelda, er talin elsta trébygging í Suður-Kína.
Fuzhou Hualin musterishöllin í Fuzhou borg er talin elsta trébygging í Suður-Kína.
Mynd af Zhenhai turninum í Fuzhou borg. Hann var rifinn meðan á menningarbyltingunni stóð en endurreistur árið 2006.
Zhenhai turninn í Fuzhou borg var rifinn í menningarbyltingunni en endurreistur árið 2006.
Mynd af Fuzhou borg teiknuð af Hollendingum um 1752.
Fuzhou borg teiknuð af Hollendingum um 1752.

Rekja má sögu byggðar á því svæði þar sem Fuzhou er nú, allt til Nýsteinaldar. Fornleifar hafa fundist þar sem taldar eru frá 5000 f.Kr.

Í byrjun 2. f.Kr. var staðurinn kallaður Ye, eða Dongye, og þar var eitt sinn höfuðborg konungsríkisins Min-Yue. Innfæddir íbúar svæðisins voru af Yue þjóðunum, sem var samanstóð af fjölbreyttum ættbálkum sem ekki eru kínverskir og bjuggu að mestu í Suður-Kína.

Eftir að Wudi keisari Hanveldisins (206 f.Kr.— 220 e.Kr.) yfirtók svæðið varð það aðsetur Ye sýslu. Á 2. öld e.Kr. var nafni þess breytt í Houguan og það varð hersetur fyrir austurstrandarsvæðið. Árið 592, eftir landvinninga Suiveldisins í Suður-Kína, fékk svæðið nafnið Min sýsla og á tíma Tangveldisins (618–907) varð það aðsetur Fuzhou héraðs. Eftir An Lushan uppreisnina (755–763) varð svæðið aðsetur hins borgaralega ríkisstjóra Fujian.

Á 9. og 10. öld fjölgaði íbúum Fujian hratt. Á tíma í kínverskri sögu sem kenndur er við fimm ættarveldi og tíu konunga (907–979) var borgin var um skamma hríð höfuðborg hins sjálfstæða konungsríkisins Min (909–945) og hefur æ síðan verið höfuðborg Fujian héraðs.

Á tíma Songveldisins (960–1279) var erlendum viðskiptum beint til Fuzhou borgar, sem einnig varð mikilvæg menningarmiðstöð fyrir keisaradæmið í heild. Borgin dafnaði frá 16. til 19. aldar og velmegun hennar náði hámarki þegar hún var opnað eftir fyrra ópíumstríðið (1839–42). Hún varð síðan aðalhöfn fyrir umfangsmikla teverslun Kína, enda nálægt teframleiðslusvæðum. En með samdrætti í teverslun drógust útflutningsviðskipti Fuzhou saman um helming milli áranna 1874 og 1884. Við tók útflutningur á timbri, pappír og matvælum.

Árið 1866 var höfnin ein af fyrstu helstu tilraunum Kína með vestræna tækni, þegar skipasmíðastöð og vopnabúr voru byggð undir franskri handleiðslu á hafnarsvæði sem kallað er Mawei Fuzhou. Svæðið hefur þannig ræktað kínverska skipamenningu og er talið vagga hins nútíma kínverska flota. Flotakademía við skipasmíðastöðina var sett á laggirnar og varð hún miðstöð fyrir nám í vestrænum tungumálum og tæknivísindum. Var þetta gert sem hluti af áætlun til að styrkja Kína í kjölfar mikils ósigurs landsins í síðara ópíumstríðinu (1856–60). Fljótt dró þó úr áhuga og stuðningi kínverskra yfirvalda á skipasmíðastöðinni.

Allt fram að síðari heimstyrjöld var Fuzhou í meginatriðum viðskiptamiðstöð og höfn, en með tiltölulega lítinn iðnað. Höfnin var hernumin af Japönum á árunum 1940–45.

Fuzhou borg var hernuminn af her kommúnista við litla mótstöðu árið 1949. Á fimmta áratug síðustu aldar varð borgin í víglínu átaka kommúnista við þjóðernissinna í Taívan þar sem borgin varð fyrir sprengjuárásum flugvéla lýðveldisinna. Hundruð manna féllu í sprengjuárás á borgina árið 1955.

Fuzhou varð einnig vettvangur ofbeldifullra átaka í menningarbyltingunni (1966–76) þegar hópar rauðra varðliða börðust með byssum, hver við annan á götum borgarinnar og jafnvel við sveitir kínverska hersins.

Árið 1984, þegar stjórnvöld opnuðu meir hagkerfið fyrir erlendum fjárfestingum, var Fuzhou útnefnd sem ein af „opnum borgum“ Kína. Ýtti það mjög undir hagvöxt borgarinnar.

Lýðfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2020 þegar síðasta manntal var gert í Kína, var íbúafjöldi borgarkjarna Fuzhou 3.723.454 en íbúafjöldi undir lögsögu borgarinnar var 8.291.268.

Mynd frá Taijiang sem hefur verið verslunarhverfi Fuzhou borgar frá fornu fari.
Taijiang verslunarhverfi Fuzhou borgar í Kína.
Mynd af fiskeldi við Fuzhou borg.
Fiskeldi við Fuzhou borg í Kína.

Fuzhou er iðnaðar- viðskipta og samgöngumiðstöð héraðsins. Í borginni er miðstöð viðskiptabanka, hönnunar, verkfræði, pappírsgerðar og prentunar. Framleiðsla á rafeindatækni, járn- og stálvörum, matvöru, og vefnaðar úr silki og bómullar, er umtalsverð. Handverk er áfram mikilvægt og er borgin er þekkt fyrir vandaða húsgagnasmíði og viðarafurðir.

Borgin fær raforku frá vatnsaflsvirkjunum í fjöllunum til norðvesturs.

Menntir og vísindi

[breyta | breyta frumkóða]

Fuzhou er borg vísindarannsókna. Þar eru margar háskólastofnanir og rannsóknarstofnanir. Þrír helstu háskólar borgarinnar eru Fuzhou háskóli, alhliða rannsóknarháskóli stofnaður árið 1958, og telst til lykilháskóla Kína; Kennaraháskóli Fujian sem stofnaður var árið 1907, og landbúnaðar- og skógræktarháskóli Fujian sem stofnaður var árið 1958. Rannsóknarstofnun kínverska vísindaakademíunnar er starfandi í Fuzhou .

Kort af nýju snarlestarkerfi Fuzhou borgar í Kína.
Kort af nýju snarlestarkerfi Fuzhou borgar í Kína.

Fuzhou er mikil hafnarborg, enda ein fyrsta opna strandborgin í Kína. Hafnaraðstaða hefur verið stórbætt á síðustu áratugum. Fuzhou sjálf er ekki lengur aðgengileg sjóskipum en byggt hefur verið upp nútímalent hafnarsvæði sem kallað er Mawei Fuzhou, auk annarrar ytri hafnar, við Guantou á strönd Austur-Kínahafs.

Frá höfninni í Mawei Fuzhou sigla farþegaskip reglulega til Matsu-eyja Taívan. Þá sigla háhraðaferjur á þremur klukkustundum yfir Taívansund til borganna Taípei og Taichung.

Samgöngur á Min fljóti eru mikilvægar fyrir borgina. Skipgengt á fljótinu upp Fujian hérað og til héraðanna Jiangxi og Zhejiang.

Það eru þrír flugvellir í Fuzhou borg: Fuzhou Yixu flugvöllurinn sem í dag er eingöngu ætlaður herflugi; Fuzhou Fuqing Longtian flugvöllur; og Fuzhou Changle alþjóðaflugvöllur. Sá síðast nefndi er í 45 km fjarlægð frá miðborg Fuzhou. Hann er safnvöllur fyrir flugfélögin Xiamen Airlines og Fuzhou Airlines.

Fuzhou er járnbrautarmiðstöð norðurhluta Fujian héraðs. Járnbrautir Wenzhou – Fuzhou og Fuzhou – Xiamen, eru hluti af háhraðalestarkerfi suðausturstrandar Kína. Hefei – Fuzhou háhraðalestin tengir borgina við höfuðborgina Beijing um nærliggjandi Jiangxi hérað á allt að 350 kílómetra hraða.

Í borginni er nýtt umfangsmikið snarlestarkerfi sem opnaði árið 2014. Það nær til 56 kílómetra en unnið er að bæta öðrum 111 kílómetrum við kerfið.

Mynd af Fuzhou borg. Aðsetur borgarstjórnar er til vinstri og viðskiptahverfi miðborgarinnar til hægri
Mynd frá Fuzhou borg. Aðsetur borgarstjórnar er til vinstri og viðskiptahverfi miðborgarinnar til hægri

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]