Friedrich Waismann
Friedrich Waismann | |
---|---|
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 21. mars 1896 |
Svæði | Vestræn heimspeki |
Tímabil | Heimspeki 20. aldar |
Skóli/hefð | rökfræðileg raunhyggja |
Helstu viðfangsefni | vísindaheimspeki, heimspeki stærðfræðinnar, málspeki |
Friedrich Waismann (21. mars 1896 – 4. nóvember 1959) var austurrískur stærðfræðingur, eðlisfræðingur og heimspekingur. Hann var meðlimur í Vínarhringnum og einn meginhugsuður rökfræðilegrar raunhyggju.
Waismann fæddist í Vínarborg. Hann nam stærðfræði og eðlisfræði við Háskólann í Vín. Árið 1922 hóf hann nám í heimspeki undir leiðsögn Moritz Schlick, stofnanda Vínarhringsins. Waismann fluttist til Bretlands árið 1938. Hann kenndi vísindaheimspeki við Cambridge-háskóla frá 1937 til 1939 og heimspeki stærðfræðinnar við Oxford-háskóla frá 1939 til æviloka.
Á árunum 1927 til 1936 ræddi Waismann oft um heimspeki við Ludwig Wittgenstein, einkum heimspeki stærðfræðinnar og málspeki. Waismann tók samtölin upp og þau voru síðar gefin út undir ritstjórn B.F. McGuinness undir titlinum Ludwig Wittgenstein og Vínarhringurinn (e. Ludwig Wittgenstein and the Vienna Circle) (1979). Aðrir heimspekingar Vínarhringsins (þ.á m. Schlick, Rudolf Carnap og Herbert Feigl) ræddu einnig heimspeki við Wittgenstein en ekki jafn mikið og Waismann. Árið 1934 íhuguðu Wittgenstein og Waismann að vinna saman að bók en þegar heimspekilegur ágreiningur kom upp varð ekkert úr þeim áformum.
Í ritinu Inngangur að stærðfræðilegri hugsun: Hugtakamyndun í nútímastærðfræði (e. Introduction to Mathematical Thinking: The Formation of Concepts in Modern Mathematics) (1936) hélt Waismann því fram að stærðfræðileg sannindi væru sönn í krafti venju en ekki af því að þau væru sannreynanleg eða nauðsynlega sönn. Rit hans Lögmál málspekinnar (e. The Principles of Linguistic Philosophy) (1965) og Sýn mín á heimspekina (e. How I See Philosophy) (1968) komu út að honum látnum.