Fara í innihald

Frank Plumpton Ramsey

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Vestræn heimspeki
Heimspeki 20. aldar
Nafn: Frank Plumpton Ramsey
Fæddur: 22. febrúar 1903
Látinn: 19. janúar 1930 (26 ára)
Skóli/hefð: Rökgreiningarheimspeki
Helstu ritverk: „Facts and Propositions“; „On a Problem of Formal Logic“
Helstu viðfangsefni: heimspeki stærðfræðinnar, rökfræði, frumspeki, þekkingarfræði
Áhrifavaldar: Ludwig Wittgenstein, Bertrand Russell, Charles Sanders Peirce
Hafði áhrif á: Ludwig Wittgenstein, Susan Haack

Frank Plumpton Ramsey (22. febrúar 190319. janúar 1930 ) var breskur stærðfræðingur, heimspekingur og hagfræðingur.

Hann fæddist í Cambridge þar sem að faðir hans var forseti Magdalene skólans. Hann hlaut menntun við Winchester skólann áður en að hann sneri aftur til Cambridge til þess að læra stærðfræði við Trinity skólann.

Hann var þekktur fyrir gáfur sínar, og náði að heilla marga fræðimenn í Cambridge. Hann hafði víðtæka þekkingu á mörgum sviðum, og hafði áhuga á nánast öllu. Í stjórnmálum hallaðist hann að vinstristefnu; í trúarbrögðum var hann, að sögn konu sinnar, „herskár trúleysingi“. Í samtali sem hann átti við C. K. Ogden lýsti hann yfir áhuga á því að læra þýsku. Ogden fékk honum málfræðihefti, orðabók og flókna sálfræðiritgerð og sagði honum að nota heftið og bókina og segja sér svo hvað honum fyndist um ritgerðina. Viku síðar hafði Ramsey ekki eingöngu lært þýsku, heldur hafði hann mótað sér andstæðar skoðanir við þá kenningu, sem sett var fram í ritgerðinni. Síðar notaði hann þessa færni til þess að lesa bókina Tractatus Logico-Philosophicus eftir Ludwig Wittgenstein. Honum þótti það mjög tilkomumikið rit og ferðaðist árið 1923 til Austurríkis til þess að ræða um hana við Wittgenstein, sem stundaði þá kennslustörf í litlu þorpi.

Árið 1924 varð hann fræðimaður við Kings skólann, eingöngu 21 árs gamall. Hann afkastaði miklu í rökfræði, hagfræði og heimspeki. Árið 1927 gaf hann út áhrifamikla grein „Facts and Propositions“, þar sem hann lagði til fyrstu ofgnægtarkenninguna um sannleika.

Ein setninganna, sem Ramsey sannaði í ritgerð sinni „On a Problem of Formal Logic“ árið 1930, sem olli straumhvörfum í rökfræði, ber nú nafn hans, Ramsey setningin. Það var fléttufræðileg niðurstaða, sem gaf til kynna að innan allra nægilega stórra kerfa, óháð ringulreiðinni í þeim, væri til einhver reiða.

Hann lagði einnig til hugmyndina um Ramsey verðlagningu í hagfræði, sem gildir í tilfellum þar sem að (stýrður) einokunaraðili vill hámarka ofgnægt hjá neytendum á sama tíma og hann sér til þess að allur kostnaður sé innan skynsamlegra marka.

Ramsey og John Maynard Keynes voru góðir vinir, og vinna hins síðarnefnda á sviði líkindafræði hvatti Ramsey til þess að þróa hugmyndir í bayesískri tölfræði. Bruno de Finetti gerði svipaðar rannsóknir, og vinna þeirra beggja varð þekkt á sjötta áratug 20. aldar.

Heimspekiritgerðir hans voru m.a. „Universals“ (1925), „Facts and Propositions“ (1927), „Universals of Law and of Fact“ (1928), „Þekking“ (1929), „Kenningar“ (1929) og „General Propositions and Causality“ (1929). Sumir heimspekingar telja hann hafa verið, eða hafa haft getu til þess að verða, jafnvel betri heimspekingur en Wittgenstein. Wittgenstein minnist á hann í inngangi að bók sinni Rannsóknum í heimspeki (Philosophiche Untersuchungen) sem áhrifavald, en þó ekki jafn mikinn áhrifavald og Piero Sraffa.

Andlát og arfleið

[breyta | breyta frumkóða]

Ramsey þjáðist af krónísku lifrarvandamáli, og hann lést eftir sýkingu í kjölfar aðgerðar á kviði, aðeins 26 ára gamall. Yngri bróðir Ramseys, Arthur Michael Ramsey, var erkibiskup í Canterbury á árunum 1961 til 1974.