Fara í innihald

Francisco Goya

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Francisco de Goya)
Sjálfsmynd

Francisco José de Goya y Lucientes (30. mars 174616. apríl 1828) var spænskur rómantískur listamaður og myndskeri frá Aragon. Hann var hirðmálari í stjórnartíð Karls 3. og Karls 4. Hann hefur oft verið kallaður síðasti gamli meistarinn og fyrsti meistari nútímans. Hann hafði mikil áhrif á expressjónistana eins og Édouard Manet og Pablo Picasso.

Goya var af miðstéttarfjölskyldu sem bjó í þorpinu Fuendetodos í Aragon. Hann hóf listnám 14 ára undir handleiðslu José Luzán y Martinez en flutti fjórum árum síðar til Madríd til að læra hjá Anton Raphael Mengs. Árið 1773 giftist hann Josefu Bayeu. Hún varð margsinnis ólétt og missti fóstrið í hvert sinn. Aðeins eitt barn þeirra lifði til fullorðinsára. Goya varð hirðmálari spænsku krúnunnar árið 1786 og eftir það fékkst hann aðallega við portrett af aðalsfólki og að hanna myndir fyrir veggteppi í konungshöllinni.

Þótt talsvert sé til af skrifum hans og bréfum, er þar lítið að finna um hugsanir hans og tilfinningar. Hann glímdi við óþekktan sjúkdóm sem gerði hann heyrnarlausan 1793, og eftir það urðu verk hans smám saman dekkri og svartsýnni. Seinni tíma verk hans lýsa myrkri sýn á persónulega hagi og stjórnmálaástandið, og eru í hrópandi ósamræmi við vaxandi velgengni hans á sama tíma. Hann var skipaður rektor Konunglegu listaakademíunnar árið 1795, sama ár og Manuel Godoy gerði óhagstæðan samning við Frakkland. Árið 1799 varð Goya yfirhirðmálari (primer pintor de cámara) sem var æðsta staða listmálara við hirðina. Seint á 10. áratugnum málaði hann Nöktu Maju að beiðni Godoys, undir greinilegum áhrifum frá Diego Velásquez. Árin 1800 til 1801 málaði hann Karl 4. Spánarkonung og fjölskyldu hans, líka undir áhrifum frá Velásquez.

Árið 1807 hóf Napoléon Bonaparte Skagastríðið gegn Spáni. Goya var í Madríd meðan stríðið geisaði og það virðist hafa haft djúpstæð áhrif á hann. Greina má hugmyndir hans af röð prentmynda sem bera titilinn Hörmungar stríðsins, og málverkunum Annar maí og Þriðji maí. Aðrar myndraðir frá þessum tíma eru ætingarnar Los caprichos og Los disparates auk mynda sem fást við geðveiki og geðveikrahæli, nornir, furðuverur og trúarlega og pólitíska spillingu. Myndirnar benda til þess að hann hafi haft áhyggjur bæði af stöðu lands síns og eigin geðheilsu.

Með síðustu verkum hans eru Svörtu málverkin, röð mynda sem hann málaði með olíu á kalkaða veggi heimilis síns sem var nefnt Quinta del Sordo („hús hins heyrnarlausa“) 1819-1823, þar sem hann bjó nær algerlega einangraður. Árið 1824 flutti Goya frá Spáni til Bordeaux í Frakklandi ásamt miklu yngri vinnukonu sinni, Leocadiu Weiss, sem hugsanlega var einnig ástkona hans. Þar lauk hann við myndröð um nautaat, La Tauromaquia, og nokkur önnur stærri verk.

Eftir heilablóðfall sem lamaði annan helming líkama hans, versnandi sjón og lítið aðgengi að efnivið til myndgerðar, lést hann og var grafinn í Frakklandi. Lík hans var tekið upp árið 1919 og fenginn legstaður í kapellunni Real Ermita de San Antonio de la Florida í Madríd. Frægt er að hauskúpuna vantaði, en þegar spænski konsúllinn skrifaði stjórninni í Madríd um þá staðreynd, svöruðu þeir „Sendið Goya, með eða án hauss“.


  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.