Fara í innihald

Fornleifarannsóknir í Reykjavík

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Fornleifarannsóknir í Rvk)

Fornleifarannsóknir í miðborg Reykjavíkur hafa iðulega verið gerðar í tengslum við margskonar framkvæmdir, svo sem vega- og byggingaframkvæmdir. Þó hafa verið gerðar nokkuð margar og umfangsmiklar rannsóknir í miðborginni. Má þá fyrst nefna uppgröftinn við Aðalstræti og Suðurgötu í miðbæ Reykjavíkur á árunum 1971–1975. Við þann uppgröft kom í ljós undirstöður húsa frá 19. öld, og leifar Innréttingana frá 18. öld. Því til viðbótar komu fram bæjarrústir frá miðöldum en elstu leifar sem fundust var veggur í Grjótagötu sem reyndist vera eldri en landnámslagið. Það varð til við ösku- og hraungos í Vatnaöldum um 871 +/- 2 ár.

Fornleifauppgröftur á Arnarhóli

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1993 var grafið í Arnarhól vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Fornleifarannsókninn leiddi í ljós að elsta heimild um Arnarhólsbýlið sé frá miðri 16. öld þegar Viðeyjarkluastur eignast jörðina. Að auki hefur þar verið rekið fangelsi og sveitabær til 1828 þegar gamli sveitabærinn var rifinn. Í uppgreftrinum var komið niður á bæ frá 17. öld sem talin er vera rústir af Arnarhólsbýlinu en öruggt er talið að undir þeim rústum séu leifar af eldri byggingum því að við fyrri framkvæmdir fannst hluti af vegg og var öskulag sem er talið vera frá 1220 ofan við vegginn. Við uppgröftinn fannst einnig rómverskur peningur, en óhemju margar myntir á tímum rómverja og hafa þessir peningar gengið kaupum og sölum í gegnum tíðina og geta því leynst víða, einnig á Íslandi. [1]

  • 1904Tjarnargata 3A, vart varð við mannvistarleifar þegar húsgrunnur var grafinn.
  • 1943Suðurgata 3, mannvistarleifar fundust í kjallara.
  • 1944Tjarnargata 4, margvíslegar mannvistarleifar fundust þegar grunnur var grafinn.
  • 1962Grjótagata 4, þar stóð áður torfbygging sem var kölluð Skálinn og komu í ljós mannvistarleifar við jarðvegsborun.
  • 1971-5Aðalstræti 14-16, þar komu í ljós leifar frá 9., 10., 17., 18. og 19. öld.
  • 1971-5Aðalstræti 18, leifar bygginga frá 10. og 19. öld.
  • 1971-5 – Suðurgata 3, grafið er inn á lóðina.
  • 1983Suðurgata 7, minjar frá 19. öld og húshluti frá 10. öld.
  • 1987Aðalstræti 8, minjar frá 19. öld.
  • 1993Aðalstræti 12 leifar húss frá 10.- 13. öld og á horni Austurstrætis og Aðalsrætis fundust leifar frá 19. öld.
  • 1999 – Aðalstræti 12, hús frá miðöldum og annað frá 18. Öld
  • 1999Tjarnargata 3C, engar húsarústir en mannvistarlög frá því eftir 1500.
  • 2001 – var svo gerður meiriháttar uppgröftur sem leiddi í ljós skálarúst frá 10. öld, sem fannst þegar grafið var fyrir nýju húsi á horni Aðalstrætis og Túngötu. Búið var í skálanum frá því um 930 til 1000. Norðan við skálann fannst veggjabútur sem er enn þá eldri eða frá því um eða fyrir 871 og eru það elstu mannvistarleifar sem fundist hafa á Íslandi.[2]

Fornleifauppgröftur í Viðey

[breyta | breyta frumkóða]

Í tengslum við framkvæmdir við endurbyggingu húsanna í Viðey var gerð fornleifarannsókn við Viðeyjarstofu og hófst uppgröftur 1987 og honum lauk árið 1995. Þetta var fyrsti uppgröftur á Íslandi sem fram fór á klausturstað. Margrét Hallgrímsdóttir fornleifafræðingur hafði yfirumsjón með uppgreftrinum. Fleiri komu að honum, í upphafi þau Sigurður Bergsteinsson, Mjöll Snæsdóttir og Anna Lísa Guðmundsdóttir og síðustu tvö árin Steinunn Kristjánsdóttir. Fjöldi manns unnu við uppgröftinn, íselnskir, sænskir, enskir og danskir nemendur og sérfræðingar. Gefnar voru út árlegar rannsóknaskýrslur auk fjölda greina um árangur rannsóknarinnar eftir Margréti Hallgrímsdóttur og Steinunni Kristjánsdóttur. Umfangsmikil rannsóknagögn, gripir, ljósmyndir og teikningar eru varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands og eru skráð í gagnagrunna. Gripir voru forvarðir og eru varðveittir í safninu.

Ýmislegt óvænt kom í ljós við uppgröft sem ætla má að sé frá tímum Viðeyjarklausturs 1226–1550. Þá fundust leifar af grafreit sem tilheyrt hefur eldri kirkju en þeirra sem nú stendur frá árinu 1766. Skúli fógeti leit reisa Viðeyjarstofu sneri hann framhlið hennar mót suðri og þótti síðan fallegra að snúa kirkjunni eins og þar af leiðandi gröfunum Elstu grafirnar snúa í austur og vestur eins og rúst eldri kirkju gaf til kynna, en þær yngri í norður-suður eins og núverandi kirkja.

Einn merkasti fundurinn voru vaxtöflur og er það merkilegt fyrir þær sakir að það er mjög sjaldgæft að vax geymist svona lengi, en við nánari athugun komu í ljós að á þær voru skrifuð latnesk orð. Einnig fannst mikið af vaðsteinum, krítarpípum, dýrabeinum, myntum, koparhnöppum og vínstaupum. Vaxtöflurnar eru til sýnis á grunnsýningu Þjóðminjasafns Íslands. Þar er einnig til sýnis forn bikar sem aldursgreindur var til 2. aldar e.Kr. og fannst í rústum norðan Viðeyjarstofu.

Áður en fornleifarannsókn hófst hafði fundist innsigli Skúla Magnússonar landfógeta við Viðeyjarstofuþ Skúli lést í Viðey árið 1794.[3]

Björgunaruppgröftur við Hafnarstræti

[breyta | breyta frumkóða]

Veturinn 2006-2007 var unnið að björgunaruppgrefti við vesturenda Hafnarstrætis í Reykjavík. Við uppgröftinn komu í ljós hafnarmannvirki frá 19. öld en einnig vandaður grjóthlaðinn hafnarbakki frá fyrri hluta 19. aldar sem var í einstaklega góðu ástandi.[4]

Fornleifauppgröftur á Alþingisreitnum

[breyta | breyta frumkóða]

Umsjón með verkefninu hafði Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur. Uppgreftri á Alþingisreitnum hófst snemma árs 2008 og lauk í október 2009. Þar fundust margir áhugaverðir gripir, þar á meðal leifar af skreyttum snældusnúð með rúnaletri. Einnig fannst þar stór kolagröf, sem gerð hefur verið rétt eftir árið 871 eins og ráða má af landnámsgjóskunni sem þar er, og einnig járnbræðsluofnar og leifar af stíg gerðum úr viði. Komið var niður á leifar af torfveggjum frá 9. og 10. öld og einnig fannst töluvert af leðri og textíl. Talið er að ýmiss konar vinnsla hafi verið á svæðinu, svo sem fiskverkun og járnbræðsla.

Svæðið afmarkast að austan af bílakjallara Alþingishússins, að sunnan af Vonarstræti, að vestan af Tjarnargötu og að norðan af Kirkjustræti.[5]

Fornleifauppgröftur á Landspítalalóðinni (Grænaborg)

[breyta | breyta frumkóða]

Vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Landspítalalóðinni var óskað að Fornleifavernd ríkisins mundi kanna fornleifar á svæðinu með forrannsókn svo tók við fyrirtækið Antikva ehf. við að grafa sjálfan uppgröftin. Uppgröfturinn hófst í byrjun sumars 2011 og var honum lokið í október 2011, umsjón með verkefninu hafði síðan Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur.

Grænaborg var tómthúsbýli sem Gísli Gíslason og Sigríður Hinriksdóttir byggðu um árið 1830 og talið hafa farið í eyði um 1918. Grænaborg var talin hafa staðið suðvestur af Gamla Landspítalanum þar sem nú er garður. Bæjarstæðið fannst svo suðvestan af Gamla Landspítalanum eins og talið var að hann væri og hefur bærinn verið burstabær eða svo er talið. Talið er að bærinn sé byggður á eldri rústum en miðað við gjóskulög sem eru þar er ekki talið að eldri bær sé mikið eldri.

Í uppgreftrunum fannst nokkuð úrval gripa þar á meðal mikið af flöskum af öllum stærðum og gerðum, lyfjaglös, nokkuð af leirtaui og einnig korði sem er týpa af skrautsverði.[6]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Ragnar Edvardsson (1994)
  2. (FORNLEIFARANNSÓKNIR VIÐ AÐALSTRÆTI 2001).
  3. (Morgunblaðið/RAX 25. ágúst 1989). (Morgunblaðið/Árni Sæberg, 8. júlí 1988).
  4. (Minjar undir malbiki - Fornleifaskráning í þéttbýli.Janúar 2011).
  5. (Framkvæmdasýsla ríkisins, 28. 4. 2010).
  6. (Nýr Landspítali. Fornleifarannsóknir.)
  • FORNLEIFARANNSÓKNIR VIÐ AÐALSTRÆTI 2001. Howell M. Roberts, Mjöll Snæsdóttir & Orri Vésteinsson. Verðandi
  • Fornleifar á Arnarhóli Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1994. Bls. 17.
  • Nýr Landspítali. Fornleifarannsóknir. Sótt 23. febrúar 2012 af [1]
  • Framkvæmdasýsla ríkisins. (28. 4. 2010). Alþingisreitur, fornleifagröftur. Sótt 18. febrúar 2012 af [2]
  • Morgunblaðið/RAX (25. ágúst 1989). Fornleifauppgröfturinn í Viðey: Innsigli Skúla Magnússonar fógeta fundið. Sótt 18. febrúar 2012 af [3]
  • Morgunblaðið/Árni Sæberg (8. júlí 1988). Fornleifauppgröftur í Viðey: Tannskemmdir í beina grindum frá miðöldum. Sótt 18. febrúar 2012 af [4]
  • Oddgeir Isaksen. (Janúar 2011). Minjar undir malbiki - Fornleifaskráning í þéttbýli. Reykjavík : Oddgeir Isaksen. Sótt 18 febrúar 2012 af [5]