Oldsagskommissionen
Oldsagskommissionen (Den kongelige Commission til Oldsagers Opbevaring) – á íslensku: Fornminjanefndin, (Nefndin til varðveislu fornminja eða Hin konunglega nefnd til viðurhalds fornaldarleifa) – var skipuð að konungsboði 22. maí 1807. Verkefni nefndarinnar voru margvísleg, einkum að tryggja varðveislu mikilvægra minja frá fyrri tíð og taka í sína vörslu forngripi sem kynnu að finnast. Söfn nefndarinnar (Det Kongelige Museum for Nordiske Oldsager, öðru nafni Oldnordisk Museum), urðu síðar stofninn að Þjóðminjasafni Dana.
Rasmus Nyerup átti frumkvæðið að skipun nefndarinnar, en hann hafði árið 1805 bent á að margar sögulegar minjar á æskuslóðum hans við þorpið Nyrup á Fjóni, hefðu horfið síðan hann var barn. Eitt af fyrstu verkefnum nefndarinnar var að senda 12 prentaðar spurningar til allra presta í Danmörku, til þess að fá yfirlit yfir fornminjar í landinu. Á grundvelli svarbréfa sem bárust, voru um 200 fornminjar friðaðar á árunum 1809-1811.
Árið 1809 var danski spurningalistinn sendur til presta á Íslandi, en sú sending virðist hafa misfarist, a.m.k. barst aðeins svar frá Hofi í Vopnafirði.
Í árslok 1816 var Finnur Magnússon skipaður í nefndina, auk þess sem Christian Jürgensen Thomsen kom í stað Rasmusar Nyerups sem ritari. Fór nefndin þá að sinna meira íslenskum málum. Lagði hún til að 10 fornminjar á Íslandi yrðu friðaðar, og sendi Kansellíið tilskipun um það til amtmanna á Íslandi, 19. apríl 1817. Meðal minja í þessari fyrstu friðun fornminja á Íslandi, var Borgarvirki, Snorralaug í Reykholti, dómhringur á Þórsnesi á Snæfellsnesi og 7 rúnasteinar.
Vorið 1817 voru sendir spurningalistar á íslensku til allra presta á Íslandi, og bárust á næstu árum fjöldamörg svör, sem gefa athyglisvert yfirlit um fornminjar í landinu. Fyrstu skýrslurnar bárust haustið 1817 og þær síðustu 1823.
Árið 1983 gaf Stofnun Árna Magnússonar út svörin sem nefndin hafði safnað: Frásögur um fornaldarleifar, 1-2. Sveinbjörn Rafnsson sá um útgáfuna.
Skýrslur presta til nefndarinnar voru mikilvæg fyrirmynd þegar Hið íslenska bókmenntafélag réðist í það í árið 1839 að fá presta til að taka saman sóknalýsingar, en þær áttu að verða stofn að nýrri Íslandslýsingu.
Fornminjanefndin gaf út tímaritið Antiqvariske Annaler 1812-1827 (í fjórum bindum). Þar var lýst þekktum og nýfundnum fornminjum, og safnauka Det Kongelige Museum for Nordiske Oldsager. Telja má þetta tímarit undanfara Aarbøger for nordisk Oldkyndighed og Historie.
Með lagabreytingu árið 1849 urðu konunglegu söfnin eign danska ríkisins. Var Fornminjanefndin þá lögð niður.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Danska Wikipedian, 26. desember 2007
- Sveinbjörn Rafnsson (útg.): Frásögur um fornaldarleifar, 1-2 (1983)
- Sveinbjörn Rafnsson. "Oldsagskommissionens præsteindberetninger fra Island: nogle forudsætninger og konsekvenser" Aarbøger for nordisk oldkyndighed og historie 2007. København 2010. s. 225-246.