Fara í innihald

Flugslysin á Mosfellsheiði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sikorsky HH-3E Jolly Green Giant, sama tegund og varnarliðsþyrlan sem fórst.

Flugslysin á Mosfellsheiði voru tvö flugslys sem urðu með um 4 klukkustunda millibili þann 18. desember 1979 á Mosfellsheiði með þeim afleiðingum að 11 manns slösuðust.[1] Fyrra slysið varð þegar flugvél af gerðinni Cessna 172, með fjóra innanborðs, brotlenti á heiðinni. Síðara slysið varð þegar Sikorsky HH-3E björgunarþyrla frá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli[2], með 3 slasaða úr fyrra slysinu, 2 íslenska lækna og 5 manna bandarískri áhöfn hrapaði nokkur hundruð metra frá fyrri slysstaðnum.[3]

Um kl 15:20 var tekið að sakna flugvélar af gerðinni Cessna 172, TF-EKK, en um borð í henni voru franskur flugmaður, Nýsjálendingur og tvær finnskar stúlkur sem störfuðu sem sjúkraþjálfarar á Reykjalundi. Skömmu seinna fannst hún á heiðinni, skammt sunnan Þingvallarvegarins, þar sem hún hafði brotlent og hafnað á hvolfi. Þyrla frá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli fór á vettvang og flutti Nýsjálendinginn til Reykjavíkur. Eftir að hafa tekið tvo lækna Borgarspítalans og eldsneyti hélt þyrlan aftur á slysstaðinn til að sækja Finnana og flugmanninn. Stuttu eftir að þyrlan hóf sig aftur á loft frá slysstaðnum missti hún afl og hrapaði til jarðar nokkur hundruð metra frá flaki Cessna vélarinnar.[3] Eftir seinna slysið voru hinir slösuðu bornir um 1-1,5 km leið að sjúkrabílum sem fluttu þá á Borgarspítalann.[4]

  1. „Kraftaverk að neistaeldurinn skyldi slokkna“. Dagblaðið. 19. desember 1979. Sótt 22. maí 2018.
  2. „Sérfræðingar komnir til að rannsaka þyrluslysið“. Morgunblaðið. 22. desember 1979. Sótt 22. maí 2018.
  3. 3,0 3,1 „Ellefu á sjúkrahús eftir tvö flugslys“. Morgunblaðið. 19. desember 1979. Sótt 22. maí 2018.
  4. „Allt tiltækt lið kallað út á sjúkrahúsin“. Morgunblaðið. 19. desember 1979. Sótt 22. maí 2018.