Fara í innihald

Flugslysið í Ljósufjöllum

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Piper PA-23-250 Aztec vél, sambærileg þeirri sem fórst.

Flugslysið í Ljósufjöllum var flugslys sem varð 5. apríl 1986 um klukkan 13:26 er Piper PA-23-250 Aztec vél Flugfélagsins Ernis, TF-ORM, brotlenti í Ljósufjöllum á Snæfellsnesi.[1] Flugvélin var í leiguflugi frá Ísafirði til Reykjavíkur og með henni voru sex farþegar, þar af hjón með 11 mánaða gamalt barn, ásamt flugmanni.[2] Talið er að flugvélin hafi lent í niðurstreymi og steypst niður í hlíðar Ljósufjalla, suður af Sóleyjardal. Flak vélarinnar fannst í norðurhlíðum Ljósufjalla, í 700 metra hæð, rétt fyrir miðnætti sama dag. Menn frá Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík komust fyrstir á slysstað og voru þá þrír farþegar á lífi í flakinu en einn farþeginn lést í snjóbíl á leið niður af fjallinu.[3]

Slysið var eitt það mannskæðasta í flugsögu Íslands[4][5] og leiddi af sér breytingar á reglugerðum og vinnubrögðum til að auka flæði veðurupplýsinga til flugmanna.[6]

Eftirmálar

[breyta | breyta frumkóða]

Þremur dögum eftir slysið, tók Morgunblaðið viðtal við Pálmar Gunnarsson, sem lifði slysið af við illan leik en missti eiginkonu sína og kornabarn í slysinu.[7] Viðtalið við hann olli talsverðu fjaðrafoki og fékk Morgunblaðið og læknar á Borgarspítalanum sem leyfðu það talsverða gagnrýni fyrir.[8][9]

Niðurstaða rannsóknar Flugslysanefndar og Flugmálastjórnar var að flugvélin hafi lent í niðurstreymi sem leiddi til þess að hún hrapaði í hlíðum Ljósufjalla. Hún komst einnig að þeirri niðurstöðu að hluti orsakarinnar hafi verið flugmaðurinn hafi verið með ófullnægjandi veðurfarsupplýsingar af svæðinu.[10] Það leiddi af sér breytingar í reglugerðum og verklagi til að auka flæði uppfærðra veðurspáa á milli flugmanna og Veðurstofu Íslands. Það leiddi einnig af sér endurskoðun á aðgerðarskrám flugmanna, bæklingum og öðru fræðandi efni sem gefið var út af Flugmálastjórn og notað við kennslu flugmanna.[6]

Eftirmálar slysins ollu einnig deilum í landinu vegna reglugerðar ríkisins vegna bóta til farþega en bætur fyrir flugslys voru 47 sinnum minni en einstaklingur í fólksflutningabílslysi gæti fengið.[11]

Þessir tveir lifðu slysið af:

  • Pálmar Gunnarsson, 36 – lögreglumaður á Ísafirði.[7]
  • Kristján Jón Guðmundsson, 29 – knattspyrnumaður hjá Fylkir.[12][13][14][15]

Þessi fimm létust í slysinu:

  • Smári Ferdinandsson, 34 – flugmaður[16]
  • Auður Erla Albertsdóttir, 26 – unnusta Pálmars móðir Erlu Bjarkar[16]
  • Erla Björk Pálmarsdóttir, 11 mánaða – dóttir Auðar Erlu og Pálmars[16]
  • Kristján Sigurðsson, 49 – bóndi og faðir leikarans Víkings Kristjánssonar[16][17]
  • Sigurður Auðunsson, 56 – efnahagsráðgjafi[16]

Sjá einnig

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Tveir komust lífs af“. Tíminn. 8. apríl 1986. Sótt 22. maí 2018.
  2. „Þrýsti barninu að mér og reyndi að verja konuna mína“. Morgunblaðið. 9. apríl 1986. Sótt 22. maí 2018.
  3. „Ísing og niðurstreymi orsök flugslyssins?“. Dagblaðið Vísir. 7. apríl 1986. Sótt 22. maí 2018.
  4. „Sjöunda mesta slys íslenskrar flugsögu“. Dagblaðið Vísir. 8. apríl 1986. bls. 2. Sótt 19. júní 2021.
  5. Arnar Þór Ingólfsson (12. júní 2019). „Fyrsta banaslysið í flugi frá 2015“. Morgunblaðið. Sótt 19. júní 2021.
  6. 6,0 6,1 „1,5 millj. til að auka upplýsingar milli Veðurstofu og flugmanna“. Morgunblaðið. 17. febrúar 1987. bls. 4. Sótt 11. febrúar 2022.
  7. 7,0 7,1 „Þrýsti barninu að mér og reyndi að verja konuna“. Morgunblaðið. 9. apríl 1986. Sótt 19. júní 2021.
  8. „Trúin og bænin hafa veitt mér hugarró og hjálp“. Morgunblaðið. 24. apríl 1986. bls. 40–41. Sótt 19. júní 2021.
  9. Þorbjörg Magnúsdóttir. „Blaðamenn eiga ekki erindi við slasaða“. Morgunblaðið. bls. 4. Sótt 19. júní 2021.
  10. Jón Birgir Pétursson (19. febrúar 1987). „Veðurstofan ein hafði réttu upplýsingarnar um hvernig veðrið í rauninni var“. Vestfirska Fréttablaðið. bls. 7. Sótt 11. febrúar 2022.
  11. „Löggjafinn viðheldur smánarbótum“. Helgarpósturinn. 17. júní 1987. bls. 1, 7–9. Sótt 11. febrúar 2022.
  12. „Mér hefði líklega blætt út, ef kuldinn hefði ekki verið svona mikill“. Morgunblaðið. 22. október 1986. bls. 24–25. Sótt 19. júní 2021.
  13. Huldar Breiðfjörð (22. desember 2011). „Hef alltaf verið flughræddur“. Bæjarsins Besta. bls. 14–15. Sótt 19. júní 2021.
  14. „Löggjafinn viðheldur smánarbótum“. Helgarpósturinn. 17. júní 1987. bls. 7–9. Sótt 21. júní 2021.
  15. „Kristján úr leik“. Þjóðviljinn. 8. apríl 1986. bls. 9. Sótt 21. júní 2021.
  16. 16,0 16,1 16,2 16,3 16,4 „Þau sem fórust með TF-ORM“. Morgunblaðið. 8. apríl 1986. bls. 56. Sótt 21. júní 2021.
  17. „Missti föður sinn í flugslysinu í Ljósufjöllum“. Bæjarins Besta. 7. nóvember 2013. bls. 16–17. Sótt 21. júní 2021.