Flugslysið Í Smjörfjöllum 1980

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Flugslysið í Smjörfjöllum varð þann 22. september 1980 þegar TF-RTO, tveggja hreyfla flugvél af gerðinni BN-2 Islander, flaug í bratta fjallshlíð norð-vestan megin í suðurenda Smjörfjalla þegar hún var í áætlunarflugi frá Bakkafirði til Egilsstaða. Allir þrír um borð létu lífið.

Flugvélin[breyta | breyta frumkóða]

Flugvélin var af gerðinni Britten-Norman BN-2 Islander, 2 hreyfla háþekja með pláss fyrir 9 farþega. Flugvélin var í rekstri fyrir Flugfélag Austurlands en í eigu Norsk Leasing og Faktoring A/S. Flugvélin var smíðuð 25. mars 1970. Hún var skráð á Íslandi 2. júni 1977. Hún var til áætlunar- og leiguflugs frá Egilsstöðum í rekstri hjá Flugfélag Austurlands Hf.[1]

BN-2A-27 Islander", svipuð þeirri sem fórst.

Slysið og björgunaraðgerðir[breyta | breyta frumkóða]

TF-RTO lagði af stað í áætlunarflug frá Egilsstaðaflugvelli klukkan 13:20 mánudaginn 22. september 1980. Flugáætlunin gerði ráð fyrir flugi frá Egilsstöðum til Vopnafjarðar, þaðan til Bakkafjarðar síðan aftur til Egilsstaða með viðkomu á Vopnafirði. Flugáætlunin gerði einnig ráð fyrir sjónflugi og 1 klukkustund og 40 mínútur í flugi. Flugið gekk sinn vanagang en þegar hún fór frá Bakkafirði var ákveðið að stoppa ekki á Vopnafirði og fljúga þá beint frá Bakkafirði til Egilsstaða. Klukkan 14:20 lagði vélin af stað frá Bakkafirði með 2 farþega. Áætlað var að hún myndi lenda á Egilsstöðum kl 14:50. Klukkan 15:00 var vélin ekki komin til Egilsstaða og hafði ekkert heyrst frá henni síðan hún tók á loft frá Bakkafirði. Reynt var að hafa samband við hana án árangurs. Ákveðið var þá að setja leit í gang og var leit úr lofti hafin kl 15:42. TF-SYN flugvél Landhelgisgæslunnar var á flugi yfir Egilsstöðum á þessum tíma og fór hún að leita milli Vopnafjarðar og Egilsstaða. Klukkan 16:08 heyrði TF-SYN í neyðarsendi og var upprunni þess rakin með svokölluðu LORAN kerfi og staðfesti hnit í Smjörfjöllum. Mikil þoka var þá á svæðinu og var þá ákveðið að bíða eftir betri skilyrðum til að leita úr lofti. Í kringum 16:30 lögðu af stað tvær björgunarsveitir frá Vopnafirði og hinsvegar frá Egilsstöðum. Slæmt veður var á svæðinu og snéru þær við í kringum klukkan 21:00. Snemma þriðjudagsmorgunin 23. september klukkan 4:53 lagði af stað þyrla og eldsneytisflugvél frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli af stað til leitar þar sem veður fór batnandi. Klukkan 6:11 lagði af stað TF-RTR, Piper PA-31 flugvél frá Flugfélag Austurlands, af stað frá Egilsstöðum til leitar. Hún staðsetti flakið af TF-RTO í snævi þaktri og brattri hlíð Smjörfjalla klukkan 6:33 á þeim stað sem TF-SYN hafði numið neyðarmerki. Klukkan 7:15 lenti þyrlan frá varnarliðinu um einum og hálfum kílómeter norðvestan og neðan við flakið. Læknir um borð í þyrlunni náði að klifra að flakinu og staðfesti að allir um borð væru látnir. Aðstæður á vettvang voru mjög hættulegar þar sem hún lá í snarbrattri hlíðinni.[2][1]

Orsök[breyta | breyta frumkóða]

Flugvélin flaug beint inní fjallshlíðina um 20 metrum fyrir neðan fjallsbrúnina. Rannsókn á vegum rannsóknarnefndar flugslysa taldi að flugmaðurinn hefði skyndilega lent í mikilli þoku og ekki verið í nægilegri flughæð til að komast yfir fjallið. Nefndin segir einnig að loftþrýstingsmælir í vélinni sem segir til um hæð vélarinnar hafi verið verið stilltur svo að hann hafi sennilega sýnt aðeins of mikla hæð og að niðurstreymi gæti hafa dregið vélina neðar.[3]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Árni Johnsen (24. september 1980). „Vélin hangir á stélinu í fjallshlíðinni“. Morgunblaðið. bls. 32, 16–17. Sótt 25. janúar 2024.
  2. „Vélin flaug inn í þverhníptan klettavegginn“. Dagblaðið. 23. september 1980. bls. 1. Sótt 25. janúar 2024.
  3. „Skýrsla um flugslys TF-RTO“ (PDF). rnsa.is. Rannsóknarnefnd flugslysa. 22. september 1980. Sótt 25. janúar 2024.